Árbæjarsafn, staðurinn þar sem gestir ganga inn í fortíðina og kynnast sögu Reykjavíkur, fagnar fjölbreytileikanum og heldur upp á kváradag, en það er dagur kynsegin fólks, sambærilegur konudegi og bóndadegi.
Starfsfólk safnsins birti fróðlega færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag þar sem það óskaði öllum gleðilegs kváradags, sem er í dag.
„Í dag er fyrsti dagur einmánaðar samkvæmt gamla íslenska dagatalinu. Eins er kváradagurinn, dagur kynsegin fólks haldinn hátíðlegur, rétt eins og fyrsti dagur góu er konudagur og fyrsti dagur þorra er bóndadagur," segir meðal annars í færslu Árbæjarsafnsins. Einnig er fjallað um hugtakið kynsegin.
„Kynsegin er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins (og er því einnig trans). Sumt kynsegin fólk er til dæmis karlkyns og kvenkyns, hvorki karlkyns né kvenkyns eða skilgreinir ekki kyn sitt.
Mánuðurinn var sjötti mánuður ársins í gamla tímatalinu og síðasti vetrarmánuður. Aðeins fjögur mánaðarheiti finnast í fleirri en einni heimild en einmánuður er einn þeirra, auk gormánaðar, þorra og góu og er elsta heimildin úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld.“
Regn Sólmundur Evu, sem er kynsegin, á hugmyndina að kváradeginum sem haldinn er hátíðlegur til að fagna kynsegin fólki. Kváradagur var fyrst haldinn í mars 2022.