Þrjár kynslóðir Íslendinga sem búa í Lúxemborg

Leon Ari Ottósson á stóra fjölskyldu í Lúxemborg og ætlar …
Leon Ari Ottósson á stóra fjölskyldu í Lúxemborg og ætlar að fermast Lúxemborg. Ljósmynd/Aðsend

Leon Ari Ottósson fermist í vor. Hann hefur verið í fermingarfræðslu hjá Sjöfn Müller Þór í Lúxemborg. „Ég er fæddur í Lúxemborg, afi minn og amma komu hingað fyrir mjög löngu, vegna þess að afi minn fékk starf hér sem flugmaður. Ég er mjög feginn að búa í Lúxemborg. Hér eru góðir skólar, gott fólk og almennt hafa allir það mjög gott hér,“ segir Leon Ari um hvernig það er að búa í Lúxemborg.

Leon Ari segir ekki óvenjulegt að hitta aðra íslenska unglinga í fermingarfræðslunni þar sem stór hluti fjölskyldu hans býr í Lúxemborg. „Ég á marga íslenska ættingja í Lúxemborg, frændsystkini mín voru líka í fermingarbúðunum og ég hitti þau oft. Það er samt gott að vita að maður er ekki eini Íslendingurinn í Lúxemborg,“ segir hann.

Hvað hefur verið skemmtilegast í fermingarfræðslunni

„Það var margt mjög skemmtilegt en skemmtilegast var altarisgangan og að heimsækja lítinn bæ sem heitir Monschau.“

Hvernig var í fermingarbúðunum?

„Mér fannst mjög gaman í fermingarbúðunum. Við töluðum mikið um hlutina og fengum að spyrja alls konar spurninga. Við vorum líka að vinna verkefni en fengum líka fullt af frítíma sem við gátum notað til að vera í borðtennis og svoleiðis. Almennt fannst mér ekkert leiðinlegt.“

Fermingarbörnin eiga notalega stund í fermingarbúðunum og skreyta kerti með …
Fermingarbörnin eiga notalega stund í fermingarbúðunum og skreyta kerti með nöfnunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar þú að halda veislu?

„Ég er að spá í að halda litla fermingarveislu.“

Hvað langar þig í í fermingargjöf?

„Mig langar mest í peninga í fermingargjöf.“

Eru jafnaldrar þínir úti að fermast líka?

„Já, sumir jafnaldrar mínir eru að fermast. Og þau halda svipaðar veislur og ég.“

Fermingarbörnin í fermingarbúðum.
Fermingarbörnin í fermingarbúðum. Ljósmynd/Aðsend

Flatkökur með hangikjöti ómissandi en sleppa kransakökunni

Móðir Leons Ara, Anna María Jóhannesdóttir, segir að það stefni í að veislan fari fram í Mósedalnum.

„Við erum lengi búin að vera velta fyrir okkur hvort við eigum að vera með veisluna hér eða á Íslandi. Það þarf alltaf að ferja töluvert af ættingjum á hvorn staðinn. Í okkar tilfelli þá eru systkin og frændsystkin að fermast saman. Eins og stendur þá stefnir líklega í fermingu hér í Lúxemborg og að veislan verði haldin í Móseldalnum, sem eru okkar heimahagar hér úti.

En við erum ekkert farin að pæla eða græja skreytingar, greiðslur eða sparifötin.“

Finnið þið fyrir því að hefðirnar séu öðruvísi á Íslandi en þar sem þið búið?

„Hér í Lúxemborg eru langflestir kaþólikkar þannig að „communion“ eða altarisgangan er gerð þegar börnin eru níu ára. Að því leyti er ekki hægt að bera það saman.“

Ber veislan eða fermingardagurinn keim af siðum sem þið hafið tileinkað ykkur af dvöl ykkar erlendis eða verður dagurinn og veislan mjög íslensk?

„Mér sýnist nú að íslensku veislunar séu almennt orðnar frekar alþjóðlegar. Við munum örugglega líka fara pinnamatarleiðina. En hangikjöt og flatkökur eru ómissandi. Hins vegar erum við öll sammála um að sleppa kransakökunni. Okkur finnst franska kökuhefðin betri.“

Fagnið þið áfanganum með öðrum Íslendingum?

„Við erum með nokkuð stóra íslenska fjölskyldu, þrjár kynslóðir, sem býr hér í Lúxemborg. Börnin okkar eru því önnur kynslóðin sem fæðist hér úti. Við það bætast lúxemborgskar, finnskar og amerískar tengdafjölskyldur og aðeins af vinafólki héðan. Svo bjóðum við líka ættingjum frá Íslandi, en þar sem það komast ábyggilega færri en vilja hendum við kannski í gott grill í sveitinni á Íslandi í sumar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka