Páskarnir voru ljúfir og fjörugir hjá Fanneyju Ingvarsdóttur, markaðsfulltrúa hjá Bioeffect og fyrrverandi fegurðardrottningu, og fjölskyldu hennar. Þau hafa síðastliðna viku notið lífsins til hins ýtrasta í sannkallaðri skíðaparadís í austurrísku Ölpunum.
Fanney hefur verið dugleg að deila töfrandi myndum frá ferðalaginu á Instagram-síðu sinni, en hún birti meðal annars myndaröð af sér ásamt unnusta sínum Teiti Páli Reynissyni og börnunum þeirra tveimur, Kolbrúnu Önnu og Reyni Alexi, með yfirskriftinni: „Okkar uppáhalds fjölskyldufrí.“
Af myndum að dæma virðist fjölskyldan hafa gist á skíðahótelinu Speiereck í bænum St. Michael í Langau í Austurríki. Hótelið er í eigu Íslendinga sem tóku við rekstrinum haustið 2019 og er þekkt fyrir að vera heimavöllur Íslendinga.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjölskylda Fanneyjar heimsækir hótelið. Árið 2021 vörðu þau jólunum þar og í skíðabrekkunum, en frá hótelinu er stutt í næstu skíðalyftu eða aðeins um sjö mínútna ganga.
Þá hafa fleiri frægir Íslendingar notið þess að gista á hótelinu sem er með þrjár stjörnur og í 200 metra fjarlægð frá miðbæ St. Michael. Þar má nefna áhrifavaldinn Birgittu Líf Björnsdóttur, Ragnar Frey Ingvarsson matarbloggara og Tobbu Marínósdóttur, upplýsingafulltrúa menningar- og viðskiptaráðuneytis.