Féll fyrir Berlín og flutti ekki aftur heim

Sólveig María Gunnarsdóttir segir Berlínarbúa duglega að fara í lautarferðir.
Sólveig María Gunnarsdóttir segir Berlínarbúa duglega að fara í lautarferðir. Ljósmynd/Aðsend

Sólveig María Gunnarsdóttir flutti til Berlínar í fyrra og féll alveg fyrir borginni. Borgin býður upp á ódýran lífstíl og þar er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast. 

„Ég og kærastinn minn fluttum út nýársdag 2023. Ég hafði þá ekki komið til Berlínar áður en ég útskrifaðist með B.A. í arkitektúr frá LHÍ sumarið 2022. Okkur hafði langað að flytja út saman og ég gat fengið Erasmus-styrk fyrir starfsnámi í hálft ár og hafði þá um sumarið sótt um á arkitektastofum í Berlín eftir að hafa komið okkur saman um að þar gæti verið gaman að búa næsta hálfa árið. Síðan vorum við ekki alveg tilbúin að koma heim eftir sumarið og mér bauðst vinna á annarri stofu síðasta haust,“ segir Sólveig um ástæðu þess að hún flutti til Berlínar. 

Telst Berlín ennþá ódýr borg? 

„Já hún er ennþá ódýr, bæði í Þýskalandi og vissulega miðað við sambærilegar stórborgir. Þrátt fyrir það hefur kaupmáttur lækkað eitthvað á síðustu árum. Bæði eftir covid og svo hefur stríðið í Úkraínu hækkað orkuverð, sem þar af leiðandi hækkar leiguverð. Það er húsnæðiskreppa í allri Evrópu, ekki bara á Íslandi. Berlín býður upp á ódýran lífstíl, ódýrar almenningssamgöngur, mikið af fríum viðburðum og það er alltaf hægt að fá sér döner eða falafel á fjórar til sex evrur.“

Sólveig María Gunnarsdóttir flutti til Berlínar eftir nám í arkitektúr.
Sólveig María Gunnarsdóttir flutti til Berlínar eftir nám í arkitektúr.

Hvað er það sem heillar þig helst við borgina?

„Þegar hún vaknar af dvala á vorin. Hér finnur maður marga fallega almenningsgarða og nóg af hlutum sem hægt er að gera fyrir lítinn pening. Það er gaman að fylgjast með fólki á öllum aldri að lifa lífinu eins og táningar. Fjölbreytileg menningarlega opin borg og skemmtileg andrúmsloft. Það er alltaf eitthvað að gerast og maður lærir að losna við allt „fómó“ þar sem það eru spennandi hlutir að gerast á hverju strái.“

Gömlu myndaklefarnir eru einkennandi fyrir Berlín.
Gömlu myndaklefarnir eru einkennandi fyrir Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Mikil saga í arkitektúrnum

Hvað er það sem heillar þig við arkitektúrinn í Berlín? 

„Það er svo gaman að lesa í byggingarnar, margt hægt að læra, bæði af því sem fór vel og verr. Borgin er bútasaumur af mismunandi arkitektúr, illa sprengd í seinna stríði og svo tvískipt með vestrænum og sovéskum áhrifum. Mikið af tilraunum og byggingum sem áttu að leysa vanda hvers tímabils fyrir sig.“

Sólveig hefur komið auga á áhugaverðan og tilraunakenndar arkitektúr í …
Sólveig hefur komið auga á áhugaverðan og tilraunakenndar arkitektúr í Berlín. Ljósmynd/Aðsend
Það er að finna fjölbreyttan byggingarstíl í Berlín.
Það er að finna fjölbreyttan byggingarstíl í Berlín.

En hvernig er tískan í borginni? 

„Tískan er mjög fjölbreytt og það er gaman að sjá fólk tjá sig á mismunandi hátt í gegn um hana. Það eru mjög flottar „curational vintage“ búðir, hver búð með sinn stíl. Fólk á öllum aldri verslar mikið í vintage búðum eða kaupir merkjavörur sem líta samt út fyrir að vera notuð. Tískan helst alveg í hendur við tískusveiflur á netinu en er oft aðeins hrárri og frjálslegri. Mismunandi stílum blandað saman, eins og arkitektúrinn. En auðvitað finnurðu líka þessar klassísku Berlínar steríótýpur sem flakka milli klúbba í sunnudagsdressinu, öllu svörtu og síðum leðurjakka.“ 

Hjólar í gegnum Neukölln og Kreuzberg

Áttu uppáhaldshverfi? 

„Ég hef mest búið í Neukölln og þykir mjög vænt um skítugar göturnar þar, svo vinn ég í Kreuzberg og hjóla því í gegnum þessi tvö hverfi, sem stundum eru kölluð KreuzKölln, alla virka daga. Í þessum hverfum má finna aragrúa af góðum veitingastöðum, kaffihúsum og börum og svo er markaður við Maybachufer kanalinn þrisvar í viku.“

Maybachufer-kanallinn er fallegur.
Maybachufer-kanallinn er fallegur. Ljósmynd/Aðsend

Hvar finnst þér skemmtilegast að versla í borginni?

„Ég er alltaf að uppgötva nýjar vintage búðir en í Neukölln eru margar góðar á sama radíus  til dæmis Sing Black bird, Wsiura, JunoJuno og enn fleiri. Svo eru flóamarkaðir um helgar á mismunandi stöðum í borginni og mér finnst mjög gaman að fara þangað að gramsa.“

Það er skemmtilegt að gramsa á flóamörkuðum í Berlín um …
Það er skemmtilegt að gramsa á flóamörkuðum í Berlín um helgar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn í borginni?

„Draumadagurinn er klárlega um sumar, vakna og fara í bröns með góðum vinum, rölta í kringum Maybachufer, stoppa í kaffi og leyfa sér að slaka á í fallegum garði. Fá sér eitthvað gott að borða og enda á bar eða klúbbi og dansa út nóttina.“

Áttu uppáhaldsveitingastað, kaffihús eða bar?

„La Maison á Paul Lincke Ufer býður upp á besta bakkelsið í hverfinu og svo er Natanja und Heinrich hverfiskaffihúsið okkar. Af góðum veitingastöðum mæli með Babel í Prenzlauer Berg, sem býður upp á besta líbanska matinn í bænum. Kitten Deli í Neukölln býður upp á frábæran mat ættaðan frá botni Miðjarðarhafs, og svo er Café Frieda í Prenzlauer Berg geggjaður staður ef maður vill splæsa aðeins – frábær matur, nóg af náttúruvínum og góð stemning. Annars er bestu pizzuna í bænum að finna steinsnar frá íbúðinni okkar á Pizzeria Farina.“

Í Berlín er að finna góðan mat frá mismunandi heimshornum.
Í Berlín er að finna góðan mat frá mismunandi heimshornum. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að taka rólegan dag

Hvað er ómissandi að sjá og gera þegar fólk fer í fyrsta sinn til Berlínar í borgarferð?

„Fara sér ekki um of og ætla sjá allt á einum degi. Mæli með að eiga einn túristadag, fara frá safnaeyjunni og ganga að minnismerkinu um helförina. En enn mikilvægara er að eiga einn afslappaðan dag og rölta um. Mæli líka eindregið með að leigja sér hjól og skoða borgina þannig, hún er mjög flöt og þar af leiðandi auðvelt að hjóla. Tempelhof-flugvöllurinn á sumar sunnudegi er einstakur og þar hægt að fá smjörþefinn af grill, tjilli og piknikk sem Berlínarbúar stunda.“

Búið er að breyta Tempelhof-flugvellinum í almenningsgarð.
Búið er að breyta Tempelhof-flugvellinum í almenningsgarð.

Hefur eitthvað komið þér á óvart við borgina?

„Hvað hún er ótrúlega stór, níu sinnum stærri en París, þess vegna eru fullt af hverfum sem ég hef varla heimsótt og ekki hægt að láta sér leiðast. Svo er svo mikið af börnum og leikvöllum úti um allt sem er svo gaman. Í leiðinlegri kantinum þá er það skriffinnskan og skorturinn á leiguhúsnæði. Við enduðum á að flytja fjórum sinnum á fimm fyrstu mánuðunum. Hef líka heyrt af því að það sé stundum auðveldara að fá svar frá opinberum stofnunum i gegnum fax heldur en tölvupósti.“

Sólveig segir ódýrt að ferðast með almenningssamgöngum í Berlín og …
Sólveig segir ódýrt að ferðast með almenningssamgöngum í Berlín og þægilegt að hjóla. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka