Útvarpsmaðurinn Sigurður Þorri Gunnarsson, betur þekktur sem Siggi Gunnars, var á faraldsfæti um páskana ásamt sínum heittelskaða, Sigmari Inga Sigurgeirssyni. Parið fór í 11 daga ævintýraferð til Bandaríkjanna þar sem þeir keyrðu eftir þjóðvegi 66, heimsóttu fimm borgir og ótal áhugaverða viðkomustaði.
Sigurður og Sigmar heimsóttu nokkrar af helstu tónlistarborgum Bandaríkjanna, Chicago, St. Louis, Memphis, Nashville og Indianapolis. Í Memphis nýttu þeir að sjálfsögðu tækifærið og fóru í skoðunarferð um Graceland, heimili Elvis Presley heitins.
Útvarpsmaðurinn og gleðigjafinn birti skemmtilega myndaseríu frá ferðalaginu á Instagram-síðu sinni í gærdag og sagði ferðalagið vera það skemmtilegasta sem hann hefði upplifað.