Tókst á við sorgina með að ferðast

Enski leikarinn Michael Palin er ekkill.
Enski leikarinn Michael Palin er ekkill. AFP

Grínistinn og ferðamálafrömuðurinn Michael Palin var áttræður þegar hann missti eiginkonu sína til 60 ára fyrir ári síðan. Hann segir hana hafa verið klettinn í lífi sínu og að það hafi verið erfitt að takast á við dauða hennar. 

„Vinnan hjálpaði mér að takast á við dauða Helen,“ segir Palin í viðtali við Daily Mail.

„Ég var að skipuleggja ferð til Nígeríu áður en hún lést en það breyttist allt. Í marga mánuði var ég að hennar málum og venjast því að vera einn í húsinu. Það var erfitt. Svo spurði Channel 5 hvort ég hefði áhuga á að fara í ferðina og ég sagði já.“

„Ég ræddi þessi mál alltaf við hana og mér leið eins og þetta væri framhald af því samtali. Ég gat nánast heyrt hana segja að ég yrði að fara.“

Palin segir að þau hafi verið mjög náin hjón enda þekkst frá því þau voru unglingar.

„Það var eins konar bergmál á milli okkar. Ég vildi að hún vissi allt sem ég hugsaði og hún vissi það yfirleitt hvort sem var. Hún hafði mikið innsæi. Það er enginn sem þekkir mig svona vel. Ég sakna þess.“

Palin segist ekki ætla að finna ástina aftur. „Það er ekki hægt að finna aftur svona ást og ég vil það eiginlega ekki í augnablikinu. Tilfinningarnar þróast. Ég græt minna núna í einrúmi en ég mun aldrei jafna mig alveg.“

„Varðandi ferðina til Nígeríu þá vissi ég að Helen myndi ekki vilja hafa mig hangandi heima. Hún var mjög veik í nokkurn tíma og ég annaðist hana. Henni fannst hún vera byrði þó ég reyndi að sannfæra hana um annað. Ég held því að hún hefði verið ánægð með þetta hjá mér.“

Aðspurður um hvort ferðalagið hafi tekið á segist hann vera í góðu formi.

„Maður er sífellt á ferðinni og hittir mikið af fólki. Ég hef alltaf verið mjög hraustur og var mikill hlaupari þar til ég fór í hjartaaðgerð árið 2019. Nú held ég mér í formi með mikilli göngu. David Attenborough er 97 ára og hvergi nærri hættur og ég er líka í fullu fjöri. Fyrst hann getur það þá get ég það.“

Ferðalögin hafa hjálpað honum að takast á við sorgina en á milli ferðalaga þá þakkar hann fyrir fjölskyldu sína en börnin hans búa í nágrenninu. „Við erum mjög náin. Ég sé þau oft. Við minnumst Helen og höldum upp á afmæli hennar og fleiri daga. Ég held að hún yrði ánægð með okkur og að ég hafi ekki lagt upp laupana.“

„Ég hellti mér í mikla vinnu. Ég er mjög upptekinn og er að skrifa bækur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert