Ásta varð fyrir barðinu á vasaþjófum

Ásta hefur verið stödd á Spáni frá því í desember.
Ásta hefur verið stödd á Spáni frá því í desember. Ljósmynd/Aðsend

Ástþrúður Kristín Jónsdóttir, jafnan kölluð Ásta, varð fyrir barðinu á vasaþjófum á Spáni nú á dögunum. Ásta var stödd í verslun Primark, að sinna erindi fyrir móður sína, þegar hún áttaði sig á því að seðlaveskið hennar væri horfið úr töskunni. Í veskinu var lausafé, bankakort, ökuskírteini og sjúkraskírteini. 

Ásta, sem er búsett tímabundið á Spáni, átti fund með lögreglu síðla mánudags, en henni þykir líklegt að afgreiðslukonan eigi þátt í þjófnaðinum og vill því fá að skoða myndskeið úr öryggismyndavélum verslunarinnar. 

Reynir að púsla saman því sem gerðist

„Ég fór beint inn í búðina og að búðarborðinu. Þangað var ég mætt til að skipta buxum í aðra stærð fyrir móður mína,“ útskýrir Ásta, en foreldrar hennar eru í heimsókn hjá henni um þessar mundir. 

Ásta segir samskipti hennar og afgreiðslukonunnar hafa gengið erfiðlega. „Afgreiðslan tók óvenjulega langan tíma, allt virtist ganga á afturfótunum. Eftir smástund áttaði ég mig á því að seðlaveskið væri horfið,“ segir hún.

„Ég var með töskuna staðsetta framan á mér og opnaði hana aðeins til að nálgast kvittun móður minnar og borga á milli. Það er mér hulin ráðgáta hvernig veskið var fjarlægt.“

Ásta hefur undanfarna daga reynt að púsla saman því sem átti sér stað í Primark. „Atvikið hefur setið í mér síðustu daga. Mér dettur helst í hug að seðlaveskið hafi verið tekið á meðan ég var að ræða við afgreiðslukonuna, en ég tel þetta vera samspil nokkurra aðila, líklegast starfsfólksins,“ segir hún. Ásta var ekki vör við neinn annan í kringum sig þegar þjófnaðurinn átti sér stað og segir góða fjarlægð vera á milli afgreiðslukassa í versluninni. 

Fór heim til að fullvissa sig

Ásta keyrði beint heim eftir hamaganginn til að útiloka möguleikann á að hún hafi skilið seðlaveskið eftir heima við, svo var ekki. 

„Ég sneri aftur í Primark í þeirri von um að fá að sjá upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar. Starfsfólkið neitaði því. Ég vildi alls ekki gefast upp og bað starfsfólkið um að yfirfara myndefnið en það virtist ekki hafa neinn einasta áhuga á að hjálpa mér,“ útskýrir hún. 

„Eftir dágóða stund þá benti ein afgreiðslukonan mér á að heimsækja upplýsingaborðið í verslunarmiðstöðinni og sagði tapaða muni skila sér þangað. Ég ákvað því að skokka yfir að upplýsingaborðinu, er ekki seðlaveskið þar,“ segir Ásta. Það var búið að fjarlægja lausafé, rétt um 150 evrur, og eitt bankakort. Allt annað var í seðlaveskinu. Ásta var guðslifandi fegin að ökuskírteinið var á sínum stað. 

Ásta greindi frá þjófnaðinum á Facebook-síðu fyrir Íslendinga búsetta á …
Ásta greindi frá þjófnaðinum á Facebook-síðu fyrir Íslendinga búsetta á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Mátti ekki við því að tapa peningnum

Ásta býst ekki við miklu frá lögreglunni enda er allt vaðandi í vasaþjófum á Spáni. „Ég ætla að fara fram á að sjá upptökurnar og vonast bara til að lögreglan hjálpi mér að láta það gerast.

Ég mátti alls ekki við því að missa þessa peninga, 150 evrur eru heilmiklir peningar,“ útskýrir Ásta er tekjulaus um þessar mundir og að jafna sig eftir alvarlegt slys þar sem hún margbrotnaði á hrygg. 

„Ég hélt út til Spánar í desember, hitinn hjálpar mér mikið. Hér er sömuleiðis allt mun ódýrara en á Íslandi og get ég látið peningana endast mun lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert