Benjamin varð vitni að einstöku fyrirbæri á Svalbarða

Ljósmyndarinn Benjamin Hardman er á ferðalagi um Svalbarða um þessar …
Ljósmyndarinn Benjamin Hardman er á ferðalagi um Svalbarða um þessar mundir. Samsett mynd

Ljósmyndarinn Benjamin Hardman varð vitni að einstöku fyrirbæri á ferðalagi sínu um Svalbarða á dögunum. Hann festi augnablikið að sjálfsögðu á filmu og deildi með fylgjendum sínum á Instagram. 

„Einstakt norðurskautsljós frá toppi jökulsins. Í gær upplifðum við þetta ótrúlega ljósfyrirbæri sem kallast aukasól (e. parhelion eða sun dog). Með létta -20°C golu og ískristalla sem féllu í kringum okkur var eins og horft væri á glugga inn í aðra vetrarbraut,“ skrifaði hann við myndina. 

Eins og Benjamin nefnir er aukasól ljósfyrirbæri, en samkvæmt vef Veðurstofu Íslands myndast hjásólir af þessu ákveðna tagi við ljósbrot á flötum sexstrendum ískristöllum þar sem þykkt plötunnar er lítil miðað við þvermál hennar. 

Flutti til Íslands fyrir tíu árum 

Benjamin er frá Perth í Ástralíu en flutti til landsins fyrir tíu árum síðan og hefur slegið rækilega í gegn í ljósmyndun og kvikmyndagerð. Hann hefur meðal annars unnið fyrir stór fyrirtæki á borð við BBC, Netflix, Land Rover, National Geographic og Tesla. 

Auk þess að hafa ferðast um allt Ísland og tekið þar fjölda mynda og myndbanda hefur Benjamin verið duglegur að ferðast um Grænland, Svalbarða og Suðurskautslandið og fangað mögnuð augnablik á filmu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka