„Margir setja í brýrnar þegar ég segist ætla að fara í ferðalag án eiginmanns og barna. Þrátt fyrir hneykslan annarra hef ég haldið mínu striki því ég hef komist að því að ég er betra foreldri ef ég get farið ein í ferðalög,“ segir Erika Ebsworth-Goold í pistli sínum á NZ Herald.
„Það að vera foreldri getur verið yfirþyrmandi verkefni sem gleypir mann. Það er mjög auðvelt að týna sjálfri sér og erfitt er að búa til tíma fyrir sig. Þegar ég fer ein út í heim þá næ ég að núllstilla mig.“
„Það að ferðast einn síns liðs er frábær valdefling. Ég sanna fyrir sjálfri mér að ég get hvað sem er. Ég get kynnst nýju fólki, tekist á við nýjar áskoranir og þjálfa færni mína á nýjan hátt sem fær mig til þess að vaxa og þroskast sem manneskja.“
Sérfræðingar eru sama sinnis. „Maður fær tækifæri til þess að skoða nýja staði, prófa nýja hluti og stíga út fyrir þægindarammann. Þannig öðlast maður dýpri skilning á sjálfum sér og færni sinni,“ segir Mary Lawrence, félagsráðgjafi og meðferðaraðili.
„Flestar mæður upplifa oft örmögnun á því að þurfa stöðugt að halda utan um allt sem viðkemur heimili og fjölskyldu. Dagskrá fjölskyldumeðlima getur oft á tíðum verið umfangsmikil og flókin og hver dagur býður upp á nýjar áskoranir sem valda streitu. Þegar ég ferðast ein þá þarf ég bara að sjá um mig. Ég ákveð hvað ég vil sjá, hvenær ég fer að sofa og hvenær ég vakna. Það er alger lúxus fyrir móður sem þarf yfirleitt að láta stjórnast af dagsskrá annarra.“
„Ég elska að kynnast stað í gegnum matarmenningu eða listir. Börnin mín hafa þó ekki sama áhuga. Þegar ég ferðast ein þá lifnar yfir mér. Ég sé heiminn í lit. Ég hitti áhugavert fólk og það veitir mér sanna lífsfyllingu og þannig kem ég til baka endurnærð.“
„Það að komast frá daglegri rútínu er endurnærandi. Mér finnst ég verða léttari og þegar ég sný til baka er ég þolinmóðari og betur í stakk búin til þess að sjá um allt þetta daglega streð fjölskyldulífs.“
„Það er mikilvægt að við útrýmum fordómum gagnvart því að mæður taki tíma frá fyrir sjálfa sig. Það að vilja ferðast einn er af hinu góða. Auðvitað vilja börnin hafa mann til taks allan sólarhringinn og það gæti verið erfitt fyrir móðurhjartað að skilja þau eftir. En þau lifa það af og eignast betri mömmu í staðinn. Ég er heppin að eiga eiginmann sem skilur þetta. Við eigum öll skilið að fá hvíld af og til.“
„Það að ferðast ein sýnir börnunum mínum að ég er mín eigin manneskja, ekki eingöngu mamma. Ég gef þeim fyrirmynd að sjálfstæðri persónu sem trúir á sjálfa sig.“