Ísbjörn, sleðahundar og sauðnaut hljóma betur í mínum huga en skyndibiti á Alicante. Ég eyddi páskunum í 20 gráðum, mínus 20 reyndar, á stað sem sumir telja þann afskekktasta í heimi. Fáa ferðamenn var þar að sjá, þó var þar einn tikktokkari frá Suður-Kóreu á vappi með GoPro-myndavél, nokkur hundruð þúsund að fylgjast með honum.
Á austurströnd Grænlands er 400 manna þorp sem heitir Ittoqqortoormiit. Kalak, vinafélag Grænlands og Íslands, bauð mér þangað í óeigingjarnt verkefni sem miðar að því að kenna íbúum og sér í lagi börnum skák og standa fyrir mótahaldi. Stefán Herbertsson, stjórnarmaður í Kalak, hringdi í mig á meðan ég stóð í námslestri á lesstofu Lögbergs.
Fyrst hikaði ég, enda átta daga dvöl og ég í miðjum BA-ritgerðarskrifum. Á einhverjum tímapunkti spurði ég hvort hægt væri að fara út að skokka þarna. Hann sagði að það væri ef til vill ekki góð hugmynd vegna ísbjarnanna, maður þyrfti helst að vera með heimamanni sem væri með byssu. Þá ákvað ég að slá til.
Ferðin var löng. Á fyrsta degi flugum við til Akureyrar og þaðan yfir Grænlandssundið á hinn fábrotna flugvöll Nerlerit Inaat, og síðan í þyrlu í litla þorpið við Scoresbysund, lengsta fjörð í heimi – 110 kílómetrar af ís. Það hefði verið hægðarleikur að komast þangað á hundasleða, yfir snævi þakin fjöllin, en sú ferð hefði tekið 1-2 klukkutíma.
Okkur var fagnað þegar á staðinn var komið, enda hafa fulltrúar Kalak vanið komur sínar þangað árlega síðan 2007. Skákmenningin hefur mótast eftir því. Í þessum einangraða bæ búa nokkrir efnilegir skákmenn, þrír þeirra lögðu mig í 30 manna fjöltefli einn daginn. Þrátt fyrir lítið sem ekkert mótahald á þessum afskekkta stað var mikið keppnisskap í fólki, ungum jafnt sem öldnum. Mætingin á páskaeggjamót okkar á páskadag sýndi að mótin eru orðin fastur liður hjá bæjarbúum.
Öflugasta skákkonan í þorpinu, Sikke, var ein þeirra mörgu sem buðu okkur í mat til sín yfir hátíðina. Hún hafði mætt á mótin sem Kalak hefur haldið síðan hún var barn og sigraði í mótinu á páskadag. Yfir snæðingi þar sem sauðnaut var á borðum spurði ég út í ísbirnina, það væri draumur minn að berja einn slíkan augum.
Sagði hún okkur frá því þegar hún fór í lautarferð með vinkonu minni til Kap Tobin, sem er lítil sumarbústaðabyggð nærri bænum. Þegar vinkonurnar voru sestar á stein og ætluðu að fá sér nesti gekk ísbjörn fram hjá þeim, fyrir aftan steininn. Með öðrum orðum er ekki einhlítt að hætta stafi af ísbjörnum á þessum slóðum. Þó er ávallt farið varlega og ef þeir eru ítrekað á sveimi fyrir utan þorpið er íbúum nauðugur einn kostur að skjóta þá.
Nokkru síðar kallaði Óðinn, sambýlismaður Sikke, á okkur. Hann sat með kíki í glugganum og horfði út á ísinn; hann hafði frétt af því að þrír ísbirnir væru rétt fyrir utan þorpið. Við hin þóttumst líka koma auga á þetta en sáum varla neitt, enda ekki með sömu arnaraugun og heimamenn sem eru vanir því að horfa út á ísinn.
Loks komu veiðimenn til byggða með einn þeirra í eftirdragi. Það voru örugglega -25 gráður þegar ég og Inga María, sem stóð fyrir listasmiðju fyrir börnin samhliða skákinni, drifum okkur út á ísinn og biðum eftir birninum. Fólk fór að tínast út á ísinn með okkur og við skildum ekkert hvar veiðimennirnir væru. Loksins brunaði vélsleði fram hjá um 20 metrum frá okkur og í bæinn með eitthvað hvítt í eftirdragi. Þarna var björninn festur í taum við snjósleðann.
Næst var hann fluttur út á ísinn og þar átti að flá hann og úrbeina. Sleðahundar í keðjum í kring ýlfruðu allir og geltu á meðan nokkrir menn, fjórir til fimm á að giska, úrbeinuðu björninn, sem varð fljótlega að engu. Þeir meðhöndluðu skrokkinn af slíkri virðingu að ekkert var látið fara til spillis, enda birnirnir friðaðir og má einungis veiða 30 þeirra á ári. Feldurinn, klærnar og jafnvel tennur voru geymdar en kjötið var tekið og skorið í bita á staðnum – sú sjón var ekki fyrir viðkvæma. Tveimur dögum síðar vorum við mætt í skírn hjá vinafólki okkar og þar var ísbjörninn borinn fram með sósu og spaghettí.
Dagarnir liðu hratt og einn okkar besti vinur, Jarus, húsvörður grunnskólans, fór með okkur vítt og breitt um svæðið meðan á dvöl okkar stóð, og bauð fjölskylda hans okkur í nýveitt sauðnaut oftar en ég get munað.
Dýrmætasta reynslan var þó að kynna skáklistina fyrir börnum þorpsins, sem og að gera íbúum kleift að standa að mótahaldi sjálfir. Kalak sá til þess að fartölva, fjöldi skáksetta og skákklukkur yrðu skildar eftir í þeim tilgangi – hver veit nema þorpið muni ala af sér stórmeistara einn daginn.