Verkfræðingurinn og áhrifavaldurinn Katrín Edda Þorsteinsdóttir fagnaði afmæli sínu með stæl í Tyrklandi ásamt fjölskyldu sinni, en hún naut dagsins við sundlaugarbakkann og endaði kvöldið á að hitta ofursætar kisur og broddgölt í hótelgarðinum.
Katrín Edda sagði frá því í síðustu viku að hún væri farin í vikufrí til Tyrklands ásamt eiginmanni sínum, Markus Wasserbaech, og dóttur þeirra Elísu Eyþóru. „Vildi fara í smá frí yfir afmælisdaginn minn (sem er á morgun) og ákváðum svo frekar spontant að fara bara í smá sól og strönd til Tyrklands. Hlakka svo tiiiiil,“ skrifaði hún við mynd af fjölskyldunni í flugvélinni.
Í fríinu hefur Katrín Edda verið dugleg að deila töfrandi myndum frá Tyrklandi, þar á meðal myndum frá afmælisdeginum og bumbumyndum, en hún er ófrísk að sínu öðru barni og er gengin 15 vikur á leið.
Í einni af færslunum sagði hún frá því að á þessari meðgöngu væri hún að upplifa öðruvísi einkenni. „Ég get borðað egg og saltan morgunmat, gat ekki hugsað mér neitt nema kolvetni seinast og ældi semi við tilhugsunina um egg. Finnst kaffi gott, gat það engan vegin seinast. Ég er enn með smá morgunógleði og hún var slæm fyrstu vikurnar, verr en seinast, ég er miiiklu þreyttari núna, þarf eeeendalaust að pissa og finnst bumbi gera mig andstutta og eitthvað ómeðfærilega en það er kannski eðlilegt,“ skrifaði hún.
„Hvort haldiði að verði stelpa eða strákur? Ég hélt fyrst stelpa en núna smá að hallast að því að það verði strákur. Either way svo hamingjusöm fyrir litlu baun og svo spennt að sjá Elísu verða stóra systir,“ bætti hún við.