Blautþurrkur ómissandi fyrir ferðalög

Olivia Culpo deilir ferðaráðum.
Olivia Culpo deilir ferðaráðum. AFP

Olivia Culpo hefur mjög einfalda snyrtirútínu þegar hún er á ferðalagi þrátt fyrir að vera bæði fyrirsæta og fyrrum ungfrú alheimur. 

„Ég er aldrei með andlitsfarða þegar ég er að ferðast,“ segir Culpo í viðtali við Travel+Leisure. „Það er vegna þess að mér finnst að þá sé líklegra að maður fái bólur eða útbrot.“

„Ég er alltaf með á mér einhvers konar sprey til að úða á andlitið og halda því fersku. Þá finnst mér einnig gott að vera með andlitsblautþurrkur. Blautþurrkurnar frá Neutrogena eru til dæmis góðar. Þær eru vel til þess fallnar að ná af sér svitann sem safnast upp yfir daginn.“

Þá er Culpo alltaf með augnbrúnabursta og andlitsmaska. Það er þó eitt sem hún á eftir að prófa og það er infrarauða andlitsgrímu. „Ég er ekki alveg komin þangað. Ég held að ég myndi trufla fólk í kringum mig með því.“

Hvað farangur varðar þá vandar Culpo sig og skipuleggur allt sem hún klæðist við hvert tilefni og skrásetur.

„Takið myndir af klæðnaðinum. Það er besta leiðin til þess að pakka ekki of miklum óþarfa. Þá finnst mér best að brjóta saman fötin. Ég rúlla þeim ekki í böndul.“

Culpo leggur einnig mikið upp úr því að halda sinni æfingarútínu þegar hún er á ferðalagi. Hún fer alltaf í ræktina á hótelum og hleypur á hlaupabrettinu eða utandyra.

„Það er mjög mikilvægt eftir langt ferðalag. Það að fljúga er ekki gott fyrir blóðrásina þannig að öll hreyfing sem hækkar púlsinn og kemur á auknu blóðflæði er til bóta og lætur manni líða miklu betur.“

Spurt og svarað:

Gluggasæti eða gangsæti?

„Ég veit að þetta er eldfimt umræðuefni en ég elska gluggasæti.“

Bestu ferðafötin?

„Þægilegar buxur, strigaskór eða sandalar sem auðvelt er að fara úr og í. Þá er gott að taka alltaf með sér jakka eða góða peysu.“

Hvað fylgir þér alltaf á ferðalagi?

„Ég er alltaf með svefngrímu. Ég er viðkvæm fyrir ljósi og finnst mjög gott að geta sett grímu yfir augun. Mæli með að allir prófi það.“

Ráð til þess að forðast ferðaþreytu vegna tímamismunar?

„Það er gott að reyna að ná sem mestum svefni. Margir trúa á það að halda sér vakandi til þess að aðlagast en ég held að ef maður er þreyttur og hefur tíma til þess að sofa, þá á maður að sofa. Annars gæti maður upplifað ofþreytu sem getur komið í veg fyrir að maður sofni síðar. Maður þarf hvíld til þess að ná að gera hluti.“

Olivia Culpo á ferðalagi um Ítalíu.
Olivia Culpo á ferðalagi um Ítalíu. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert