Sigrún og Anna með yfir 5 milljón áhorf á TikTok eftir ruglferð til Mónakó

Anna Elísabet Hákonardóttir og Sigrún Nanna Sævarsdóttir eru staddar í …
Anna Elísabet Hákonardóttir og Sigrún Nanna Sævarsdóttir eru staddar í Mónakó. Ljósmynd/Aðsend

Tvær ungar íslenskar vinkonur hafa vakið mikla athygli fólks á samfélagsmiðlinum TiKTok. Á aðeins tveimur dögum hafa yfir 5 milljón manns séð stutt viðtal við vinkonurnar Önnu Elísabetu Hákonardóttur og Sigrúnu Nönnu Sævarsdóttur en þær hafa verið á ferðalagi um Mónakó. „TikTokkarinn“ Suleyman Dolaev birti viðtalið á aðgangi sínum en hann er þekktur fyrir spyrja vegfarendur ýmissa stórborga út í eyðslumynstur og lífsstíl þeirra.

Anna og Sigrún voru á leiðinni að sjá Formúlu 1 þegar Dolaev stoppaði þær kurteisislega og bað þær um viðtal fyrir samfélagsmiðlana sína. Stelpurnar ákváðu að slá til án þess að vita neitt út í hvað þær voru að fara og bjuggust ekki einu sinni við að viðtalið yrði birt.

„Við vöknuðum á þriðjudeginum, daginn eftir viðtalið, og þá var áhorfið komið í hálfa milljón og okkur fannst það mikið. Í dag er myndbandið komið með 5,4 milljónir í áhorf og við erum eiginlega bara orðlausar.“

@suleymandolaev Two friends from Iceland earn $10,000 USD a month from their clothing brand #streetinterview ♬ original sound - Suleyman Dolaev

„Nice er draumur í dós“

Anna og Sigrún vörðu fríinu að mestu leiti í frönsku borginni Nice þar sem nóg er af fallegum ströndum, göngugötum og ljúffengri franskri matarmenningu.

„Nice er draumur í dós. Okkur leið svo vel þar og myndum hiklaust mæla með að skella sér þangað!,“ sögðu þær.

Draumurinn um Formúlu 1 rættist

Vinkonunum hefur alltaf langaði til þess að fara og upplifa Formúlu 1 og létu verða að því í dagsferð til Mónakó. Það er auðvelt að ferðast frá Nice yfir til Mónakó og hægt að fara með lest eða leigubíl. 

Anna Elísabet Hákonardóttir á leiðinni á Formúlu 1.
Anna Elísabet Hákonardóttir á leiðinni á Formúlu 1. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var eins og að vera í bíómynd! Til að byrja með voru mjög mikil læti í kappakstursbílunum og þurftum við að kaupa okkur eyrnatappa. Það er eitthvað sem við vissum ekki að við þyrftum. En svo er stemningin í Mónakó ótrúleg meðan á keppninni stendur! Það er mjög súrrealískt að sjá alla kappakstursmennina keyra ógeðslega hratt beint fyrir framan nefið okkar. Við sátum á stað þar sem er líklegast að þeir klúðri einhverju og Lewis Hamilton keyrði einmitt út í kannt þar sem við sátum.“

Formúla 1 á sólríkum degi í Mónakó.
Formúla 1 á sólríkum degi í Mónakó. Ljósmynd/Aðsend

„Dagsferðin til Mónakó var rugluð“

„Það var sífellt eitthvað nýtt sem við sáum sem kom okkur á óvart. Eins og til dæmis snekkjan sem var með heilum Bugatti-bíl um borð. Þetta er svolítið svona eins og heimsmeistaramót um það hver er ríkastur. Alveg klikkað dæmi!“

Dýrmætu formúlu eitt miðarnir.
Dýrmætu formúlu eitt miðarnir. Ljósmynd/Aðsend

Anna og Sigrún eru báðar fæddar árið 2003. Þær upplifðu sig ekki jafn öruggar í Mónakó og í Nice.

„Dagsferðin til Mónakó var rugluð! Það er eiginlega besta orðið til að nota í að lýsa þessu. Við sátum á kaffihúsi til að fá okkur morgunmat. Við tókum strax eftir því að eiginlega allir þarna störðu mikið á okkur, síðan komu menn upp að okkur og buðu okkur með sér að versla ný föt fyrir kvöldið og svo út að borða með þeim en við afþökkuðum það kurteisislega og sögðumst ætla að borða bara í Nice. Þá réttu þeir okkur nokkra 100 evru seðla fyrir leigubílnum heim og kvöldmatnum, en við afþökkuðum það líka.“

„Þarna fengum við mjög mikið sjokk og áttuðum við okkur strax á því að þetta er allt annar heimur en sá sem við þekkjum. Við vorum svo stoppaðar mjög oft yfir daginn af eldri mönnum sem voru að bjóða okkur á snekkjur eða í VIP sæti, en við afþökkuðum allt,“ segir Anna. 

Stofnuðu nýlega sýna eigin fataverslun

Vinkonurnar stofnuðu nýlega vefverslunina, Ígló fur, sem hefur gengið vonum framar en þar eru litríkir pelsar vinsælastir.

„Til að byrja með þá er þetta bara fyrir íslenskan markað en eftir viðtalið höfum við fengið fjölda margar eftirspurnar um að senda erlendis. Við eigum eftir að skoða það betur,“ segir hún og bætir við: 

„Ef þú ert að íhuga að fara á formúluna, gerðu það! Þetta eina viðtal sem við lentum í þarna úti er að opna mjög margar dyr fyrir okkur sem við vissum ekki af og erum óendanlega þakklátar fyrir að hafa lent í þessu. Heimurinn hefur upp á svo mörg tækifæri að bjóða, maður þarf bara að þora og gera!“

Anna og Sigrún sáu kappakstursbílana af góðu færi.
Anna og Sigrún sáu kappakstursbílana af góðu færi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert