„Ég er flakkari í húð og hár“

Bára Lind Þórarinsdóttir hefur lent í ótrúlegum atvikum á ferðalögum …
Bára Lind Þórarinsdóttir hefur lent í ótrúlegum atvikum á ferðalögum sínum um heiminn. Samsett mynd

Bára Lind Þórarinsdóttir leikkona er sannkölluð ævintýramanneskja. Hún fór snemma að ferðast ein. Þegar hún fór til Asíu í jógakennaranám fór hún alla leið til Himalajafjallanna. Hún stefnir á nýtt ferðalag í haust þegar hún flytur til Lundúna. 

„Ég er flakkari í húð og hár. Ég gat aldrei verið kyrr sem barn og fór alltaf mínar eigin leiðir sama hvort að foreldrarnir fylgdu eða ekki. En ætli ferðaneistinn hafi ekki verið kveiktur þegar ég fór í fyrstu utanlandsferðina ein til Írlands. Þá upplifði maður sjálfstæðið fyrir alvöru og ævintýrin leituðu mann uppi. Annars var ég dugleg að grípa öll tækifæri í menntaskóla sem hafði í för með sér að ferðast og eftirminnilegast er klárlega skyndiákvörðunin um að fara í Spánarreisu með nokkra daga fyrirvara en þar eignaðist ég eina af mínum bestu vinkonum.“

Bára Lind byrjaði ung að ferðast ein en hér er …
Bára Lind byrjaði ung að ferðast ein en hér er hún í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend

Fór á framandi slóðir í jóganám

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í? 

„Árið 2018 ákvað ég að fylgja jógaæðinu og fara í jóganám til Indlands en ég fór þó ekki á fjölmennan stað heldur ferðaðist ég í Himalajafjöllin, og dvaldi í litlu þorpi rétt á milli landamæra Nepals og fræga te þorpsins Darjeeling. Kalimpong heitir staðurinn og þar bjó ég hjá fjölskyldu sem eldaði besta paneer rétt sem ég hef fengið. Við vorum einungis fjögur í náminu svo við urðum strax eins og ein fjölskylda.

Tilgangur ferðarinnar var námið en fyrst ég var komin svona langt út fyrir landsteinana lá í augum uppi að ég ferðaðist um löndin í kring. Ég fór til Bangladesh, Myanmar, Kambódíu, Víetnam og Taílands. Ég skipulagði og ferðaðist um allt ein en litla sveitabarnið fékk þó smá menningarsjokk þegar það fór beint frá Keflavík til Nýju Delí, einu fjölmennustu borgar heims.“

Bára fór alla leið til Himanlajafallanna til þess að læra …
Bára fór alla leið til Himanlajafallanna til þess að læra jóga.
Maturinn í Indlandi var frábær.
Maturinn í Indlandi var frábær.

Fékk boð um að vera í farangursrýminu

Bára hefur stundum lent í áhugaverðum atvikum á ferðalögum sínum og jafnvel mætti segja að sum atvik væru hættuleg.

„Ég er alveg viss um að verndarenglarnir elti mig en stundum hef ég storkað örlögunum aðeins of mikið. Það var til dæmis mjög vafasamt þegar ég endaði ein með karlmanni á báti sem fylgdi mér til eyjunnar Bola í Bangladesh. Ég hitti yfirlögregluforingjann og hann bauð mér velkominn á heimilið sitt. Síðan fékk ég lögreglufylgd um alla eyjuna og smjörþefinn af því að vera fræg en börnin hlupu um á götunni til að fá að líta mig augum. Þetta er skemmtileg saga en eftir á að hyggja svolítil blind trú á manninn af minni hálfu því allt hefði getað skeð á þessum báti.

Svo er nú önnur saga sem er ekki beint hættuleg en klárlega eftirminnilegasta ferðasagan. Þá var ég að ferðast til Bagan í Mjanmar, ásamt líklega allri þjóðinni en allir vildu vera þar fyrir stóru ljósahátíðina. Þá tókst mér að kaupa „síðasta lausa miðann“ í rútunni sem kom í ljós að var ekki til. Ég endaði því á að borga 100 dollara fyrir að liggja á rútugólfi í 12 tíma. Bílstjórinn bauð mér að vera í farangursrýminu en ég þáði nú bara gólfið og þakkaði sjálfri mér fyrir að hafa haldið upp á jógadýnuna mína. Þegar loksins var komið að áfangastað hló ég bara að ferðasögunni því Bagan var uppáhaldsstaðurinn minn í allri reisunni og eini staðurinn sem ég framlengdi dvöl mína.“

Bagan var uppáhaldsstaður Báru í Asíureisunni.
Bagan var uppáhaldsstaður Báru í Asíureisunni.

Mælir ekki með Las Vegas um sumar

Hefur einhver borg eða land ollið vonbrigðum?

„Hérna verð ég að nefna Dhaka í Bangladesh. Ég hef alltaf haft þá hugsun að hver einasta borg hafi eitthvað upp á að bjóða en mér fannst erfitt að vera þarna. Umferðin var svo yfirþyrmandi og mengunin og ruslið úr öllu valdi. Enginn talaði ensku og ég fattaði strax að það væri ekki mikil ferðamennska þarna þar sem allir á hótelinu héldu að ég væri fréttakona. Það sá ekki aðra útskýringu á því að hvít kona væri í heimsókn.

Svo keyrðum við fjölskyldan einu sinni um Bandaríkin og ég get ég ekki mælt með því að heimsækja Las Vegas yfir sumartímann. Það var virkilega erfitt að ná andanum þarna í Nevada eyðimörkinni og borgin olli okkur svolitlum vonbrigðum. Eftir á að hyggja er þetta kannski sniðugri borg fyrir gæsa og steggjapartíið heldur en fjölskyldufríið.“

Gleymir ekki smørrebrødinu

Bára bjó um tíma í Kaupmannahöfn en þar var hún í söngnámi. 

„Ég fór í söngnám í Complete Vocal Institute og lærði þar söngtækni. Það er klárlega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert. Að fá frelsið og tækifærið til að syngja stöðugt frá morgni og fram á kvöld var æðislegt. Svo voru allar helgar nýttar í tónleikahald. Við vorum frábær hópur og við Íslendingarnir sem kynntumst þarna erum enn í góðu bandi.“

Hvers saknar þú helst frá Köben?

„Að geta hjólað allt. Og smørrebrød. Maður verður að nefna smørrebrød.“

Hitti Sir Paul McCartney

Útþrá Báru hætti ekki en hún flutti síðar til Liverpool til þess að læra leiklist í Liverpool Institute for Performing Arts.

„Námið bauð upp á mörg tækifæri og ég fékk til dæmis að vinna bakvið tjöldin á Eurovision. Hápunkturinn var þó klárlega að taka í höndina á Sir Paul McCartney við útskriftina en þar lentum við félagarnir í hálfgerðu hláturskasti því ég misskildi aðeins verðlaunaafhendinguna. Liverpool er algjör draumastaður og æðislegt að búa þar. Allir svo vinalegir og ég upplifði algjört bíómyndarlíf. Ég gekk framhjá Kebab manninum á horninu og veifaði og fólkið á kaffihúsinu spurði „þetta vanalega?“ þegar ég gekk inn. Það er mikið hjarta í borginni og maður upplifði að maður væri hluti af samfélagi. Það er allt í göngufæri og skemmtimenningin er allsráðandi.“

Bára átti eftirminnilegt augnablik með Sir Paul McCartney.
Bára átti eftirminnilegt augnablik með Sir Paul McCartney. Ljósmynd/Aðsend
Bára vann bak við tjöldin í Eurovision í Liverpool. Hér …
Bára vann bak við tjöldin í Eurovision í Liverpool. Hér er hún ásamt finnska keppandanum Käärijä.

Er Liverpool meira en bara fótbolti og Bítlarnir? 

„Já svo sannarlega. Í Liverpool er góður matur og frábærir pöbbar, skemmtileg söfn og allar helstu verslanir. Svo er þetta líka hafnarborg þannig ég mæli eindregið með að fá sér göngutúr í kringum höfnina og skála í einum ölara þegar sólin sest við Mersey-ána.“

Bára nam leiklist í Liverpool en segir borgina þó meira …
Bára nam leiklist í Liverpool en segir borgina þó meira en bara fótboltaborg.

Lenti líka í ævintýri í New York

Áttu uppáhaldsborg fyrir utan þær borgir sem þú hefur búið í?

„New York er klárlega í sérstöku uppáhaldi. Ég vil meina að ég hafi fengið vinkonuverðlaun ársins þegar ég laumaði flugmiðum með í útskriftarpakkann hjá vinkonu minni. Það var alveg ógleymanleg ferð og magnað að sjá Rockefeller Center og allar skreytingarnar yfir vetrartímann. Skemmtilegast var þó þegar okkur tókst að fá fría miða á Lion King söngleikinn. Stundum kemur sér vel að vera ófeiminn og málglaður en ég fer að spjalla við fólkið á næsta borði á veitingastað og okkur kom svo vel saman. Við kveðjumst en seinna um kvöldið ná þau að spotta okkur þegar ég er stopp á miðju Times Square torginu að skipta um skó. Þá átti kallinn auka miða og vildi endilega gefa okkur þá!“

Ferðast um Ísland á sumrin

Áttu uppáhaldsstað á Íslandi?

„Borgarfjörður eystri. Hann kom svo skemmtilega á óvart og ég upplifði svo góða orku þar. Þar uppgötvaði ég og vinkona mín líka best geymdu perlu Íslands okkar að mati. Það var grenjandi rigning og ég vildi fá mér göngutúr ekki alveg vitandi hversu langur hann myndi enda á að vera. Við enduðum hundblautar vaðandi í ám og hoppandi yfir steina og drumba, þangað til við gengum yfir hæðina og sáum hafið og svörtu strendurnar. Stapavík blasti við okkur og okkur leið eins og í ævintýri. Við drukkum úr fossum, leituðum að hellum, fylgdumst með fuglalífinu og horfðum yfir sjóndeildarhringinn á meðan við veltum fyrir okkur spurningum lífsins.“

Borgarfjörður eystri er í miklu uppáhaldi og þá sérstaklega Stapavík.
Borgarfjörður eystri er í miklu uppáhaldi og þá sérstaklega Stapavík. Ljósmynd/Aðsend

Ertu búin að plana ferðasumarið 2024?

„Ég reyni alltaf að ferðast um landið okkar á sumrin. Ég hef síðustu sumur kennt söng og leiklistarnámskeiðið Leik og Sprell á nokkrum stöðum um landið og það hefur gert mér kleift að upplifa daglegt líf í fallegum sveitaþorpum sem mér þykir mjög vænt um. Svo er einnig á dagskrá hjá mér að fara með söngleik á Fringe festivalið í Edinborg. Þar ætlar fjölskyldan að hitta mig og við ætlum að taka litla reisu um skosku hálöndin. Það er algjör draumur hjá okkur mömmu enda uppáhalds þátturinn okkar Outlander.“

Stapavík.
Stapavík. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju dreymir þig um að flytja til London? 

„Ég held að öllum listamönnum dreymi einhvern tímann um að flytja til London en þar er suðupottur listamenningarinnar og ótal möguleikar í boði. Ég hef ferðast þangað í ófá skipti og sleppi aldrei að kíkja í leikhús þegar ég er þar. Liverpool var góður stökkpallur en nú er ég tilbúin í stóru borgina til að halda áfram að eltast við draumana.“

Sérðu fyrir þér að enda á Íslandi?

„Þó svo að maður sé algjört fiðrildi, leitar hjartað þó alltaf heim. Ég er dugleg að heimsækja fjölskyldu mína og vini og ræturnar mínar verða alltaf hér. Það er fátt sem jafnast á við íslenska orku og mér finnst líklegt að ég endi hér. Ég lofa þó engu. Maður veit aldrei hvað þessum flökkurum dettur í hug.“

Bára Lind Þórarinsdóttir naut sín í Víetnam.
Bára Lind Þórarinsdóttir naut sín í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend
Í Víetnam.
Í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert