Gunnlaugur kynntist ástinni á dansgólfinu í Helsinki

Gunnlaugur og Atte við Stuðlagil árið 2022. Kærustuparið kynntist í …
Gunnlaugur og Atte við Stuðlagil árið 2022. Kærustuparið kynntist í Helsinki árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Gunnlaugur Bragi Björnsson starfar við almannatengsl og markaðsmál hjá Íslandsstofu. Honum finnst gaman að upplifa ólíka menningu erlendis auk þess sem hann segir ómissandi að komast aðeins út fyrir landssteinanna til þess að týnast í fjöldanum. 

„Ég hef alla tíð haft gaman af ferðalögum. Sem barn ólst ég upp við að fara í að minnsta kosti 1-2 vikna ferðalag um landið á hverju sumri, yfirleitt tjaldferðalög en stundum fórum við líka í sumarbústaði eða gistum í bændagistingu eða á sumarhótelum. Í seinni tíð hef ég sjálfur ferðast meira erlendis heldur en innanlands, þótt mér finnist alltaf gaman að ferðast um fallega landið okkar líka.

Það að ferðast gefur mér mjög mikið – allt frá því að skipta um umhverfi og hlaða batteríin yfir í að kynnast nýju fólki, menningu og matarhefð.

Ég er alinn upp á Höfn í Hornafirði, sem er tiltölulega lítið samfélag þar sem nær allir íbúar þekkjast, en hef búið í Reykjavík að mestu frá því ég var 16 ára. Í upphafi fannst mér Reykjavík ofsalega stór en fljótlega fór maður að þekkja fleira fólk í borginni og ég fer núna varla út úr húsi án þess að rekast á kunnugleg andlit. Stundum þykir mér því rosalega gott að heimsækja erlendar stórborgir þar sem hægt er að týnast í fjölbreytileika mannlífsins,“ segir Gunnlaugur um ferðaáhugann. 

Gunnlaugur ferðaðist mikið með foreldrum sínum um landið þegar hann …
Gunnlaugur ferðaðist mikið með foreldrum sínum um landið þegar hann var yngri. Hér er hann með þeim í Prag. Ljósmynd/Aðsend

„Í raun er ég bara hrifinn af öllum ferðalögum – punktur! Viðurkenni þó að vera kannski hvað síst áhugasamur um mikla ævintýraferðamennsku og þótt ég hafi verið ágætur á skíðum sem barn og inn á fullorðinsár, þá hef ég aldrei farið til útlanda í skíðaferð.

Í gegnum tíðina hef ég kannski hvað helst farið í annað hvort styttri borgarferðir eða lengri ferðir með það að markmiði að heimsækja ólíka staði innan sama lands eða keyra á milli landa. Þrátt fyrir að hafa ferðast töluvert mikið finnst mér ennþá eitthvað alveg magnað við að geta með einföldum hætti tekið lest eða keyrt sjálfur frá einu landi til annars! Líklega eitthvað sem fleiri sem hafa alist upp á eyju kannast við.“ 

Gunnlaugur fór í fyrsta skipti til Tenerife í fyrra. 

„Eftir mikið annríki töldum við betri helmingurinn okkur verðskulda gott, einfalt og þægilegt frí og ákváðum að láta vaða, þrátt fyrir að vera svolítið skeptískir á þetta konsept. En ég verð að viðurkenna að ég var hrifinn! Skil í dag hvers vegna Tene er svona vinsæll áfangastaður og get vel hugsað mér að fara aftur við tækifæri og langar líka að heimsækja hinar Kanaríeyjarnar.“

Gunnlaugur fór í fyrsta skipti til Tenerife árið 2023.
Gunnlaugur fór í fyrsta skipti til Tenerife árið 2023. Ljósmynd/Aðsend

Elsti ástina til Danmerkur

Gunnlaugur er menntaður viðskiptafræðingur með meistaragráðu í stjórnun. Hann tók meistaranámið í Danmörku og uppfyllti þar með langþráðan draum að búa erlendis. 

„Það hafði lengi verið á to-do listanum að láta vaða og prófa að búa í útlöndum. Árið 2018 fór Atte, unnusti minn, til Kaupmannahafnar í nám. Ári síðar, haustið 2019, ákvað ég svo að slá þrjár flugur í sama höggi – elta ástina; fara í meistaranám, sem ég hafði verði að ýta á undan mér í nokkur ár; og prófa að flytja út fyrir landsteinana.

Kaupmannahöfn er auðvitað frábær borg þar sem einfalt og gott er að búa og dásamlegt að fara allra sinna ferða á hjóli eða með þægilegu lestakerfi. Það setti þó auðvitað töluvert strik í reikninginn að eftir um hálft ár úti skall heimsfaraldurinn á! Danir voru seinni til hvað samkomutakmarkanir varðar en Íslendingar en hömlur og lokanir urðu að lokum töluvert meiri og langvinnari en hér heima. Í raun hefði ég alveg getað hugsað mér að vera lengur úti, en faraldurinn og annað varð til þess að ég flutti aftur heim vorið 2022. Ég er þakklátur fyrir tímann úti en finnst ég þó alls ekki búinn að tikka „búa í útlöndum“ út af listanum – bara spurning hvar og hvenær næst!“

Gunnlaugur í Helsingør í Danmörku.
Gunnlaugur í Helsingør í Danmörku. Ljósmynd/Aðsend
Gunnlaugur og Atte á World Pride í Kaupmannahöfn árið 2021.
Gunnlaugur og Atte á World Pride í Kaupmannahöfn árið 2021. Ljósmynd/Aðsend

Afdrifarík ferð til Finnlands 

Hvað er eftirminnilegasta ferð sem þú hefur farið í?

„Það eru alveg nokkrar ferðir sem hér komast á blað, t.d. fyrsta utanlandsferðin mín sem var með Norrænu til Færeyja sem krakki með foreldrum mínum. Færeyjar eru nú kannski frekar þekktar fyrir úrkomu heldur en hitt en þegar við vorum þar höfðu verið svo miklir þurrkar að neysluvatn var orðið af skornum skammti!

Svo er ferðin til Palestínu, sem ég fór á vegum Rauða krossins árið 2009, eðlilega mjög ofarlega á lista líka en þar fékk ég ómetanlegt tækifæri til að kynnast heimafólki og um leið að kynnast verkefnum á sviði sálræns stuðnings fyrir börn og ungmenni sem Rauði krossinn á Íslandi hafði þá fjármagnað þar ytra um nokkurra ára skeið,“ segir Gunnlaugur. 

Gunnlaugur fór á vegum Rauða krossins til Palestínu árið 2009. …
Gunnlaugur fór á vegum Rauða krossins til Palestínu árið 2009. Hér er hópurinn í Hebron á Vesturbakkanum. Ljósmynd/Aðsend

„Að þessu sögðu, þá verður það nú samt að viðurkennast að eftirminnilegasta ferðin er sennilega þegar ég fór í fyrsta sinn til Helsinki, sem var í september 2017. Þangað fór ég til að sækja norrænt mót hinsegin kóra ásamt félögum mínum í Hinsegin kórnum en ferðin átti eftir að vera ansi afdrifarík því í þeirri ferð, á dansgólfinu á ónefndum skemmtistað, kynntist ég þessum líka dásamlega finnska dreng, honum Atte mínum – sem nokkrum mánuðum síðar elti mig til Íslands og er í dag – að verða sjö árum síðar – unnusti minn og sambýlismaður! Magnað þetta líf.“

Gunnlaugur og Atte kynntust í Helsinki. Atte elti Gunnlaug að …
Gunnlaugur og Atte kynntust í Helsinki. Atte elti Gunnlaug að lokum til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Höfn, Hrísey og Helsinki

Áttu uppáhaldsstað á Íslandi og af hverju?

„Heimabærinn, Höfn í Hornafirði, er auðvitað einn fallegasti staður landsins – umvafinn fjöllum, jöklum og sjó. Með auknum ferðamannastraum, hafa fjölbreyttir og góðir veitingastaðir blómstrað þar á síðustu árum sem gaman er að heimsækja. Á síðustu árum hefur Hrísey líka eignast sérstakan stað í hjarta mínu. Siggi vinur minn er að hluta alinn þar upp og vinahópurinn hefur farið þangað alloft á síðustu árum. Þar hef ég fundið einhvern sérstakan takt og frið, sem ég hef ekki upplifað annars staðar, og þar er því alveg ótrúlega gott að dvelja.“

Á leið í Hrísey, með góðum félögum þar á með …
Á leið í Hrísey, með góðum félögum þar á með Sigurði Þorra Gunnarssyni útvarpsmanni sem ólst upp í eyjunni.

Áttu uppáhaldsborg og af hverju?

„Ég er einhvern veginn þannig að mér finnst eitthvað skemmtilegt og eftirminnilegt við alla staði og á svolítið erfitt með að gera upp á milli. En ef ég verð að velja þá skal ég nefna topp þrjár: New York, borgin sem aldrei sefur, með allt sitt iðandi fjölbreytta mannlíf; Berlín, með sín ólíku hverfi þar sem öll finna eitthvað við sitt hæfi; og svo Helsinki, þar sem skandinavísk og sovésk áhrif mætast í fallegri en þægilegri borg, þar sem veturnir eru kaldir og sumrin heit.“

Í New York en borgin er ein af uppáhaldsborgunum hans.
Í New York en borgin er ein af uppáhaldsborgunum hans. Ljósmynd/Aðsend
Helsinki árið 2020.
Helsinki árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Maturinn í Palestínu var mikil upplifun

Hvar í heiminum hefur þú fengið besta matinn?

„Ég er mikill aðdáandi ítalskrar matargerðar, svo þriggja vikna ferðalag til Ítalíu árið 2016 – þar sem ég keyrði vítt og breitt um landið ásamt Leifi vini mínum – var auðvitað algjört himnaríki! Við rifjum það reyndar stundum upp að eftir 20 daga af pítsum, pasta, mozzarella og parmaskinkum, skolað niður með Prosecco og Limoncello, þá stálumst við á rosa góðan indverskan stað í Róm síðasta kvöld ferðarinnar – sem reyndist alveg ágætis tilbreyting. En ekki orð um það meir.

Ég verð þó að segja að allra besta matinn sem ég hef fengið á ferðalagi fékk ég í Jerúsalem og í Palestínu. Á þeim tíma var ansi margt sem ég, íslenski landsbyggðarstrákurinn hafði ekki smakkað – hafði t.d. sjaldan borðað hummus eða ferskan túnfisk. Í þessari ferð smakkaði ég einhvern þann besta mat, auk ferskasta grænmetis og ávaxta, sem ég hef fengið. Svo ekki sé minnst á arabískt kaffi og te!“

Í Moneglia á Ítalíu árið 2016. Gunnlaugur borðaði frábæran mat …
Í Moneglia á Ítalíu árið 2016. Gunnlaugur borðaði frábæran mat í ferðinni sem hann fór í ásamt Leifi vini sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hinsegin dagar í Hrísey

Ertu búinn að plana ferðasumarið 2024?

„Sumarplönin eru svona smám saman að taka á sig mynd. Ég er að fara í vinnuferð til Los Angeles núna um mánaðamótin, mín fyrsta heimsókn þangað sem er ég er mjög spenntur fyrir þótt ég verði líklega mest inn á ráðstefnuhóteli. Síðar í sumar ætla ég svo í um tveggja vikna frí til Helsinki. Þá stefni ég í heimahagana austur á Höfn auk þess sem það fyrir liggur að minnsta kosti eina ferð norður í Hrísey þar sem Hinsegin dagar í Hrísey verða haldnir í annað sinn.“

Í Helsinki á 34 ára afmælisdaginn.
Í Helsinki á 34 ára afmælisdaginn.

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Úff, listinn yfir lönd, borgir og staði sem mig langar að heimsækja er langur. En ef við höldum okkur við stærri „bucket-lista“ drauma þá langar mig bæði til Taílands og Japan og hef lengi gælt við hugmyndina um road-trip um Bandaríkin, þá ekki síst vesturströndina og Suðurríkin. Svo hef ég aldrei komist yfir drauminn um alvöru „interrail“ í Evrópu þótt ekki fari ég slíka ferð á ungmennapassa lengur, eins og stóð til þegar draumurinn fæddist fyrst! Semsagt, fullt af draumum – svo það er eins gott að halda áfram að ferðast!“

Hér er Gunnlaugur í Prag. Hann dreymir um ferðalög til …
Hér er Gunnlaugur í Prag. Hann dreymir um ferðalög til framandi landa en líka lestarferð um Evrópu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert