Ein besta ákvörðun lífsins að flytja til LA

Silja Rós sendi frá sér nýtt lag á dögunum en …
Silja Rós sendi frá sér nýtt lag á dögunum en innblásturinn kom frá LA. Ljósmynd/Gunnlöð

Silja Rós Ragnarsdóttir, söngkona, leikkona, lagahöfundur og handritshöfundur, flutti til Los Angeles árið 2015 til þess að stunda ná í leiklist við American Academy of Dramatic. Tíminn í borg englanna var eftirminnilegur og nú er Silja búin að semja lag í anda ljúfa lífsins í LA. 

„Ég útskrifaðist 2018 og vann þar síðan í eitt ár eftir útskrift bæði sem leikkona og tónlistarkona. Ég var svo heppin að fá fjölbreytt verkefni eftir útskrift og fékk vinnu sem leikkona í tveimur leikhúsum, Loft Ensemble og Pico Playhouse. Þar tók ég þátt í nokkrum verkum þar á meðal Söngleiknum um Þumalínu þar sem ég lék Þumalínu,“ segir Silja Rós um árin í LA. Silja byrjaði einmitt að þróa og skrifa þættina Skvíz með þeim Tönju Björk og Hlín Ágústsdóttur sem komu út á Símanum í mars þegar þær bjuggu allar í LA. Þegar þær fluttu til Íslands bættist Ólöf Birna Torfadóttir við handritshöfundateymið. 

Það var „Friends“ stemning í LA.
Það var „Friends“ stemning í LA.

Silja flutti til Kaupmannahafnar árið 2019 með unnusta sínum og seinna til Íslands en tíminn í LA hafði mikil áhrif á Silju. Hún gaf nýverið út lagið ...real love sem er innblásið af tímanum í LA.  

„Ég samdi lagið þegar ég var flutt aftur til Íslands eftir nokkurra ára dvöl erlendis og mér varð aftur hugsað til LA. Lagið …real love lýsir áhyggjulausum sumardegi í LA. Það var frekar mikil „Friends“ stemning í byggingunni sem ég bjó í út í LA. Það var sundlaug og heitur pottur uppi á þaki og við vinahópurinn bjuggum í nokkrum íbúðum í byggingunni. Íslendinga samfélagið var líka sterkt í LA og ég fæ alltaf hlýtt í hjartað þegar ég hugsa til baka. Við áttum margar góðar stundir í sólinni að elta draumana okkar en kunnum líka að njóta lífsins. Lagið …real love fjallar um þessa tilfinningu, þegar maður nær að vera alveg í núinu og er að njóta lífsins á góðum sumardegi. Svo lítur maður til baka og á ennþá þessar fallegu minningar um tíma sem leið alltof hratt. Þannig það er mikil nostalgía í þessu lagi og textinn inniheldur brot úr mínum uppáhalds minningum frá LA.“

Borg með fólki með stóra drauma

Er hugmyndin okkar um LA alveg eins og við sjáum í bíómyndum og þáttum eða er lífið allt öðruvísi?

„LA er rosalega stór og fjölbreytt borg, upplifunin fer svo mikið eftir hverfum. Það er auðvitað alltaf einhver glansmynd sem er sýnd í bíómyndum og þáttum en að mörgu leyti er líka einhver sannleikur í því. Ég elskaði að búa í LA, sérstaklega í West Hollywood. Ég bjó nálægt Runyon Canyon stærstan hluta af dvölinni svo ég fór daglega í göngur þar sem var dásamlegt, að geta líka verið í snertingu við náttúruna í stórborg.

LA er spennandi borg með litríkum karakterum og ég lærði svo ótrúlega margt á því að búa meðal svona margra einstaklinga sem voru að hugsa stórt og elta draumana sína. Sem listamaður er þetta auðvitað allskonar og líka mikið hark sem fylgir þessum bransa en það er samt engin tilfinning jafn spennandi og að vera með stóra drauma og elta þá uppi.

Ég eignaðist svo mikið af nýjum vinum í LA og byrjaði að vinna að verkefnum sem hafa mótað minn feril í dag. Klárlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að læra leiklist í LA.“

Það var alltaf nóg um að vera í LA.
Það var alltaf nóg um að vera í LA.

„Ég er alveg 100% gerð fyrir sólina og jákvæðu orkuna“

Voru viðbrigði að flytja frá Íslandi og til LA? 

„Já mjög mikil, enda er mikill menningarmunur. Íslendingar eru mun hógværari og mættu alveg trúa meira á sig. Ég fattaði strax þegar ég kom til LA að ég mætti alveg hugsa aðeins stærra og trúa meira á mig. Ég ólst samt upp í Chico í Kaliforníu sem barn þannig þegar ég flutti aftur til Kaliforníu þá leið mér eins og ég væri komin aftur heim. Ég er alveg 100% gerð fyrir sólina og jákvæðu orkuna sem fylgir góða veðrinu og ég elska hvað fólk er opið þar, enda er ég mikill „extrovert“ sjálf. Ég saknaði alltaf Kaliforníu sem barn því mér leið oft og tíðum eins og ég væri meiri Ameríkani í mér.

Það var margt sem var betra í LA, eins og veðrið, en líka margt sem maður saknaði við Ísland eins og vatnið og öryggið. Ég þurfti allavega að læra að eiga lykil í LA því það var ekkert í boði að stökkva út með ólæsta hurð.

Eftir að hafa prófað að vera leikkona í LA í risastórum bransa var voðalega notalegt að koma heim. Það var mikið af tækifærum í LA en líka mun meiri samkeppni og raunsæja tímalínan sem leikarar þar gefa sér eru fimm til tíu ár þar til þú bókar verkefni sem borgar í alvörunni reikningana. Ísland er mun minni bransi en á sama tíma margt ótrúlega spennandi að gerast og mikil gróska í kvikmyndageiranum. Ég fann það alveg strax að það myndi taka styttri tíma á Íslandi að skapa sér verkefni á Íslandi. Ég flutti alveg heim haustið 2021 og eins og er vil ég hvergi annarsstaðar vera.“

Silja Rós starfaði sem leikkona og tónlistarkona í LA.
Silja Rós starfaði sem leikkona og tónlistarkona í LA.

Góður dagur endar í strandpartíi

Hvernig var hinn fullkomni dagur í LA?

„Að taka morgunkaffið uppi á þaki við sundlaugina í góðum félagsskap. Koma mér síðan upp í Pico Playhouse og sýna fyrstu sýningu dagsins, söngleikinn um Þumalínu eða söngleikinn um Móglí. Koma mér síðan í næsta leikhús, Loft Ensemble og sýna Macbeth um kvöldið. Síðan endaði maður kvöldið í góðum félagsskap með leikhópnum, til dæmis í strandpartíi eða garðpartíi þar sem var stundum kveikt lítil brenna. Það var tímabil þar sem þetta var mín rútína, allar helgar var ég að sýna eða æfa tvö verk á sama tíma, það var dásamlegt þar sem mér líður best á sviði.

Ég elska að vera nálægt hafinu, svo strand dagarnir voru líka ófáir. Að njóta í sólinni í góðum félagsskap, það gerist ekkert betra en það.“

Silja Rós fékk hlutverk í leikhúsum í Los Angeles.
Silja Rós fékk hlutverk í leikhúsum í Los Angeles.
Gott kvöld endaði kannski með því að kveikja litla brennu …
Gott kvöld endaði kannski með því að kveikja litla brennu í gleðskap.



West Hollywood í uppáhaldi

Áttu uppáhalds hverfi og af hverju?

„West Hollywood var í miklu uppáhaldi. Það er svo fallegt hverfi og nálægt Grove þar sem eru skemmtilegir útimarkaðir. Annars naut ég mín best í náttúrunni hvort sem það var nálægt ströndinni, Runyon Canyon eða öðrum gönguleiðum.“

Silja Rós í Kaliforníu.
Silja Rós í Kaliforníu.

Hvar er skemmtilegast að versla?

„Mér fannst skemmtilegast að versla í Grove. En ég sakna mjög mikil Trader Joe's, við versluðum oftast í matinn þar.“

En borða og drekka?

„Það er svo ótrúlega mikið úrval af góðum mat í LA. Ég er hins vegar svo heppin að unnusti minn er frábær kokkur þannig oftast töfraði hann einhverja rétti fram fyrir okkur. En þegar við vildum gera vel við okkur voru uppáhaldsveitingastaðirnir okkar Mercado, Yamashiro og Perch sem er rooftop-veitingastaður í „downtown“ LA, þar er alltaf lifandi tónlist og æðislegt útsýni. Það er möst að fá sér góðan bröns um helgar og þá er úr nógu að velja. Ég lærði snemma að heitt kaffi er ekki málið í LA og að það er best að njóta svalandi drykkja á góðum rooftop börum í sólinni.“

Það er ekki leiðinlegt að sitja á þakbar í LA.
Það er ekki leiðinlegt að sitja á þakbar í LA.

Elskar að ferðast

Hvað má fólk sem ætlar til Kaliforníu í sumar ekki láta framhjá sér fara?

„Ekki eyða of miklum tíma í downtown – nema til þess að borða á Perch. Ótrúlegt en satt átti ég aldrei bíl í LA og nýtti mér uber, lyft eða samgöngurnar sem eru allt í lagi. En ég mæli alveg með því að vera með bíl þar sem borgin er stór.

Uppáhalds gönguleiðirnar mínar eru Runyon Canyon, Wisdom tree og svo eru líka skemmtilegar gönguleiðir fyrir ofan Will Rogers ströndina, sem er mjög hugguleg strönd. Það er líka gaman að ganga að Hollywood skiltinu. Og nauðsynlegt að vera með nóg af vatni í göngunum, sérstaklega á sumrin.

Ég mæli með að skella sér á skemmtilega spunasýningu til dæmis hjá UCB. Ég mæli líka með að fara á uppistand í Comedy Club. Santa Monica svæðið er líka mjög skemmtilegt, þar er bæði stór verslunargata og auðvitað ströndin. Getty Villa er mjög fallegt safn og The Huntington listasafnið er möst. Garðarnir þar eru ótrúlega fallegir.“

Strendurnar heilluðu í Kaliforníu en Silja Rós bjó líka í …
Strendurnar heilluðu í Kaliforníu en Silja Rós bjó líka í Kaliforníu þegar hún var yngri.

Ertu búin að skipuleggja sumarið þitt?

„Já, ég elska að ferðast og reyni að gera sem mest af því á milli verkefna. Ég er nú þegar búin að fara til Tene og Porto á árinu og er að fara til Toskana í viku um helgina með fjölskyldunni minni. Þannig það er kominn ferðafiðringur í mig.

Ég ætla síðan að njóta íslenska sumarsins og leggja lokahönd á plötuna mína þar til í lok sumars en þá fer ég til Danmerkur og Svíþjóðar með tengdafjölskyldunni minni í rúma viku. Þá ætla ég líka að nýta tækifærið og heimsækja vini mína í Köben,“ segir Silja Rós.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert