Play flýgur beint á HM í handbolta

Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta geta flogið beint á heimsmeistaramótið …
Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta geta flogið beint á heimsmeistaramótið sem fer fram í Zagreb í Króatíu í janúar. Samsett mynd

Flugfélagið Play mun vera með ferðir til Zagreb í Króatíu þar sem Heimsmeistaramót karla í handbolta fer fram í janúar á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Íslenska karlalandsliðið tryggði sér þáttökurétt á heimsmeistaramótinu í Króatíu, Danmörku og Noregi í upphafi næsta árs eftir sigur gegn Eistlandi í maí síðastliðnum. 

32 lið munu mæta til leiks á heimsmeistaramótinu en íslenska liðið mun leika í G-riðli ásamt Slóveníu, Kúbu og Grænhöfðaeyjum. Verður G-riðillinn leikinn í Zagreb og eru leikdagar Íslands í riðlinum 16., 18. og 20. janúar. 

Ljóst er að eftirvæntingin og spennan fyrir stórmóti í handbolta nær hámarki í janúar á ári hverju, en Play mun bjóða upp á beint flug frá Íslandi til Zagreb dagana 16. og 21. janúar og svo aftur heim til Íslands 21. og 27. janúar. 

Zagreb er höfuðborg Króatíu en hún er þekkt fyrir sögulega byggingarlist, líflega menningu og úrval veitingastaða og verslana. Því er ljóst að það mun ekki fara illa um stuðningsfólk íslenska landsliðsins á milli þess sem það hvetur strákana okkar til dáða.

Zagreb hefur upp á margt spennandi að bjóða.
Zagreb hefur upp á margt spennandi að bjóða. Ljósmynd/Unsplash/Kristijan Arsov
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert