„Skálanes mun alltaf hafa vinninginn þar í mínum huga“

Katla Rut Pétursdóttir nýtur lífsins fyrir austan með dætrum sínum.
Katla Rut Pétursdóttir nýtur lífsins fyrir austan með dætrum sínum. Samsett mynd

Katla Rut Pétursdóttir, verkefnastjóri, listamaður og móðir, býr á Seyðisfirði ásamt dætrum sínum. Hún segir bæinn vera eins og tvo bæi því að á veturna eru rólegheit í fyrirrúmi en ævintýrin allsráðandi á sumrin.

„Ég bý á Seyðisfirði og var alin þar upp til 16 ára aldurs. Flutti síðan aftur austur frá Reykjavík fyrir nokkrum árum. Hér á ég fjölskyldu og frændgarð, vini og samfélag sem ég vil tilheyra og ala dætur mínar upp í. Mér finnst Seyðisfjörður vera með nett mikilmennskubrjálæði á góðan hátt. Ef maður vill láta gott af sér leiða, rækta hugmyndir sínar, styrkja tengslanet sitt yfir allt Austurland og framkvæma drauma sína. Þá er þetta staðurinn,“ segir Katla um heimabæinn sinn.

Mæðgurnar Módís Klara Kolbeinsdóttir, Sólborg Sara Kolbeinsdóttir og Katla Rut …
Mæðgurnar Módís Klara Kolbeinsdóttir, Sólborg Sara Kolbeinsdóttir og Katla Rut Pétursdóttir njóta lífsins fyrir austan. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er lífið dagsdaglega?

„Takturinn í samfélaginu er síbreytilegur og sveiflast á milli árstíða. Ég er bundin í skólabarnatakti og þeirri rútínu sem því fylgir meðan aðrir sveiflast með ferðamannastraumnum og hækkandi sól. Systir mín segir að það að búa á Seyðisfirði sé eins og að búa á tveimur stöðum og ég er henni sammála um það. Veturinn færir okkur rútínu, ró og nánd í samfélaginu, líka einangrun, mallandi kvíða og æðruleysi gagnvart Fjarðarheiði. Á sumrin fyllist bærinn af ferðamönnum, skemmtiferðaskipum, heitri sunnangolu og sól, galsa og ævintýrum. Ég kann að meta taktinn sem báðir þessir „bæir“ hafa upp á að bjóða.

Þeir kostir sem ég sé í því að búa á Seyðisfirði fram yfir Reykjavík eru að maður er stærri fiskur í minni tjörn, það er hægt að hafa áhrif á marga vegu í þessu samfélagi og langflestir hafa marga hatta á höfði sér innan þess. Boðleiðirnar eru styttri og auðveldara að framkvæma það sem manni dettur í hug og brennur fyrir. Annars er ég mikið náttúrubarn og ég þrífst á því að hafa náttúruna allt í kringum mig og ég sakna ekki umferðarinnar frá Reykjavík.“

Seyðisfjörður skartar sínu fegursta í blíðunni.
Seyðisfjörður skartar sínu fegursta í blíðunni. Ljósmynd/Aðsend

Skálanes er ótrúlega fallegur staður

Hvernig er fullkominn dagur fyrir austan?

„Á sumrin er það morgunkaffibollinn úti á palli í sólskini, krakkarnir í sundfötum leikandi sér með vatn og drullu, kötturinn malandi við hliðina á mér og fuglasöngur allt í kring. Skógarferð upp í Hallormsstaðaskóg með nesti, buslað í Lagarfljótinu, stoppað í ís á Egilsstöðum, keyrt aftur yfir Fjarðarheiðina, vinirnir hittir fyrir framan Hótel Öldu í spjall og spil. Grillað um kvöldið út með firði annaðhvort á rómantísku stefnumóti eða í góðra vina hópi. Kveiktur varðeldur, spilað á gítar og sungið. Já, eða kvöldinu eytt á góðum tónleikum eða menningarviðburði. Horft síðan á sólarlagið sitjandi á árbakkanum hjá Lóninu, vafin í teppi og alsæl með daginn.“

Kandíflosspartí úti á palli. Mæðgurnar eiga eigin vél.
Kandíflosspartí úti á palli. Mæðgurnar eiga eigin vél. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldsnáttúruperlu og af hverju?

„Skálanes mun alltaf hafa vinninginn þar í mínum huga, ótrúlega fallegur staður, sem og að labba upp með fossunum í Vestdalnum á Seyðisfirði. Mæli heils hugar með því.“

Skálanes er í miklu uppáhaldi hjá Kötlu.
Skálanes er í miklu uppáhaldi hjá Kötlu. Ljósmynd/Aðsend

Elskar að borða á Austurlandi

Hvar finnst þér gott að fara út að borða?

„Að borða er uppáhaldsiðjan mín þannig að ég get auðveldlega mælt með því að borða sig í gegnum Austurland, skipuleggja svolítið ferðalagið út frá því. Mæli með Hótel Öldunni, Lárunni, Skaftfelli, Norð Austur Sushi, Tehúsinu, Nielsen, Sænautaseli, Beituskúrnum og Hótel Framtíð.“

Sushi á veitingastaðnum Norð Austur.
Sushi á veitingastaðnum Norð Austur. Ljósmynd/Aðsend
Kaffið er borið fram í mávastelli í Sænautaseli.
Kaffið er borið fram í mávastelli í Sænautaseli. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldssundlaug?

„Sundlaugin á Eskifirði er skemmtileg ef maður er með börn en að fara í Vök Baths er algjör lúxus og mjög næs.“

Hvert ferð þú þegar þú vilt fara í útilegu í landshlutanum?

„Ég get ekki gert upp á milli Borgarfjarðar eystri og Djúpavogs, bæjarstæðin og náttúran allt í kring á þessum stöðum er afskaplega falleg. Bæirnir smáir en bjóða upp á margþætta og fjölbreytta afþreyingu. Það er augljóst stolt, væntumþykja og alúð lögð í bæjarbraginn hjá þeim sem búa þarna.“ 

En anda að þér menningu?

„Ef það er eitthvað sem okkur hérna fyrir austan skortir ekki þá er það drífandi, skapandi fólk hvaðanæva úr heiminum. Hér eru viðburðir, hátíðir, tónleikar og listsýningar á hverju strái. Menningarstofnanir eru víðs vegar, t.d. Tækniminjasafn Austurlands, Sláturhúsið, Minjasafn Austurlands, Skaftfell og Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri. Ég mæli með því að kíkja á LungA í sumar, Bræðsluna, Jónsmessuhátíð Skaftfells, Ormsteiti eða Franska daga á Fáskrúðsfirði.“

Austur land er þekkt fyrir blómlegt menningarlíf. Hér er Katla …
Austur land er þekkt fyrir blómlegt menningarlíf. Hér er Katla við verkið sitt Dlindlá – sólarfangarann á listahátíðinni List í ljósi á Seyðisfirði. Ljósmynd/Aðsend

Hverju hefur þú verið að vinna að hjá Tækniminjasafninu og hvað er vert að skoða þar á ferðalaginu í sumar?

„Eftir skriðuföllin 2020 hefur Tækniminjasafn Austurlands gengið í gegnum miklar breytingar og hægt er að fylgjast með öllum fréttum af uppbyggingunni á tekmus.is. Ýmislegt hefur áunnist, m.a. nýtt varðveisluhúsnæði, ný safnastefna, opnun á nýrri sýningu í Vélsmiðjunni, útigallerí og björgun safnkosts. Ráðstefna á sviði kvenna- og kynjasögu var haldin á Seyðisfirði og Egilsstöðum í júní og náðu fyrirlestrarnir yfir ýmis viðfangsefni og margs konar rannsóknasjónarhorn. Búðareyrarsýningin í gömlu Vélsmiðjunni er opin mánudaga til laugardaga kl. 13-17 og sýning um störf kvenna í kringum aldamótin verður opnuð á Lónsleiru í útigalleríinu í sumar. Vert er að skoða þetta allt saman á ferðalaginu í sumar.“

Katla og dóttir hennar Módís við Sænautasel.
Katla og dóttir hennar Módís við Sænautasel. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar ekki að missa af seinasta LungAnu

Ertu búin að skipuleggja sumarið þitt?

„Sumarið mitt er hálfplanað og hálfóplanað, þannig finnst mér best að lifa. Ferð til Reykjavíkur að hitta vini og vandamenn, matarboð og leikhús, norður á Melrakkasléttu að tína æðardún og labba um í briminu er á döfinni í júní. Snæfellsnes og kannski að sigla yfir til Aðalvíkur í ævintýraleit, taka þátt í seinasta LungAnu á Seyðisfirði í júlí og skreppa síðan til Ítalíu áður en haustið hellist yfir í ágúst.“

Katla mælir með: Konur

Í sumar opna Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Tækniminjasafn Austurlands þrjár sýningar sem saman bera yfirskriftina Konur. Sýningarnar draga hver á sinn hátt fram hlutdeild og mikilvægi kvenna í sögu Austurlands.

Minjasafnið nýtir fornleifarannsóknir til að draga upp mynd af hlutskipti kvenna á fyrstu öldum byggðar í Seyðisfirði. Héraðsskjalasafnið segir sögu Margrétar Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal. Tækniminjasafnið dregur upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900 með áherslu á reynsluheim þeirra og framlag til atvinnulífsins.

Sýningunum er ætlað að sýna arfleifð austfirskra kvenna verðskuldaða virðingu og varpa ljósi á sögu þeirra frá ólíkum sjónarhornum.

Katla mælir með sýningum um sögu kvenna á Austurlandi í …
Katla mælir með sýningum um sögu kvenna á Austurlandi í sumar. Ljósmynd/Aðsend

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka