Íslandsheimsókn samfélagsmiðlastjörnu vekur athygli

Tónlistarmaðurinn og samfélagsmiðlastjarnan Richard McLean Giese hefur verið á ferðalagi …
Tónlistarmaðurinn og samfélagsmiðlastjarnan Richard McLean Giese hefur verið á ferðalagi um Ísland síðustu daga. Samsett mynd

Tónlistarmaðurinn og samfélagsmiðlastjarnan Richard McLean Giese, sem heldur úti TikTok-reikningnum Social Response, er staddur á Íslandi um þessar mundir og hefur vakið athygli fyrir myndbönd sem hann hefur tekið upp hér á landi. 

Á samfélagsmiðlum sínum tekur Giese ábreiður af þekktum popplögum og setur þær í nokkurs konar rokkútgáfu með „emo“ yfirbragði, en hann er með 3,9 milljónir fylgjenda á TikTok. 

Giese hefur verið duglegur að taka upp lög og myndskeið á vinsælum ferðamannastöðum á Íslandi og hafa mörg þeirra þegar fengið milljónir áhorfa. 

Í fyrsta myndskeiðinu sem hann birti við Skógarfoss tók Giese ábreiðu af laginu I was a bad girl með Jojo Siwa. Hann fór einnig á Stokksnes þar sem hann tók lagið Blank Space með Taylor Swift í hávaðaroki. 

Heimsótti Jökulsárlón og Reynisfjöru

Giese heimsótti líka Jökulsárlón þar sem hann tók lagið Thank You með Dido, en svo fór hann í Reynisfjöru og tók lagið Thanks for the Memories með Fall Out Boy. Hann tók einnig upp nokkur myndskeið af sér í miðri lúpínubreiðu. 

Þetta virðist þó ekki vera í fyrsta sinn sem Giese heimsækir Ísland og tekur þar upp myndskeið, en eitt af myndböndum hans sem hefur fengið hve mest áhorf er einmitt tekið upp við Skógarfoss í mars 2023 og hefur fengið tæplega 25 milljónir áhorfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert