Að mati margra er fátt sem jafnast á við að elta góða veðrið og skella sér í útilegu í góðum félagsskap. Víðs vegar um landið má finna spennandi tjaldsvæði sem eru jafn misjöfn og þau eru mörg, en sums staðar er allt til alls á meðan önnur svæði bjóða upp á öðruvísi upplifun.
Tjaldsvæðin eru jafn misjöfn og þau eru mörg, en sums staðar er allt til alls á meðan önnur svæði bjóða upp á öðruvísi upplifun, t.d. án rafmagns, heits vatns eða internets.
Ferðavefur mbl.is tók saman þrjú dýrustu tjaldsvæði landsins samkvæmt vef tjalda.is, en þau eiga það sameiginlegt að bjóða upp á meiri lúxus en mörg önnur tjaldsvæði en eru þó afar ólík þegar kemur að staðsetningu og umhverfinu í kring.
Á tjaldsvæðinu í Laugardal í Reykjavík fer verðið eftir því á hvaða svæði tjaldstæði er pantað og undir hvað. Þá miðast verðin við að stæði sé pantað fyrir fram á netinu og reiknast þá sjálfkrafa 10% afsláttur á verðið.
Ef miðað er við einn fullorðinn einstakling er ódýrast að gista í tjaldi eða minni vagni án rafmagns, en þá kostar nóttin frá 3.213 til 3.888 krónur með afslætti. Nóttin í stærri vögnunum með rafmagni kostar svo á bilinu 5.688 til 6.848 krónur með afslætti.
Ef tekið er dæmi um fjögurra manna fjölskyldu sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum, 14 ára og 9 ára, myndi nóttin í tjaldi eða vagni án rafmagns kosta fjölskylduna frá 8.813 til 9.488 krónur.
Fyrir nótt í stærri vagni eða húsbíl með rafmagni myndi nóttin hins vegar kosta fjölskylduna frá 11.288 til 12.548 krónur með afslætti. Hver einstaklingur 13 ára og eldri sem bætist við borgar 2.880 krónur fyrir nóttina með afslætti á meðan 12 ára og yngri gista frítt á tjaldsvæðinu.
Tjaldsvæðið er vel staðsett við hliðina á Laugardalslaug, en þaðan er stutt í ýmsa þjónustu og afþreyingu, svo sem fjölskyldu- og húsdýragarðinn, grasagarðinn og listasafn Ásmundar Sveinssonar. Á tjaldsvæðinu er aðgangur að heitu og köldu vatni, salerni, sturtum, eldunaraðstöðu og innisvæði. Þá er einnig hægt að greiða fyrir aðgang að þvottavél og þurrkara og hundar eru leyfðir á svæðinu.
Á tjaldsvæðinu í Kerlingarfjöllum er eitt verð sem gildir á allt tjaldsvæðið hvort sem fólk kemur með tjald, vagn eða húsbíl. Ef miðað er við einn fullorðinn einstakling þá kostar nóttin á tjaldsvæðinu 3.333 krónur með gistináttaskatti. Hins vegar bætast 2.000 krónur við verðið ef rafmagni er bætt við, en þá kostar nóttin samtals 5.333 krónur.
Fjögurra manna fjölskylda sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum, 14 ára og 9 ára, myndi því borga 8.333 krónur fyrir nóttina á tjaldsvæðinu án rafmagns, en 10.333 krónur með rafmagni. Hver fullorðinn einstaklingur sem bætist við borgar 3.000 krónur fyrir nóttina á meðan ungmenni á aldrinum 12-16 ára borga 2.000 krónur fyrir nóttina. Þá er frítt að gista á tjaldsvæðinu fyrir börn yngri en 12 ára.
Tjaldsvæðið í Kerlingarfjöllum liggur meðfram Ásgarðsá á grasbala með fallegu umhverfi. Gestir geta nýtt sér ýmsa þjónustu í kring, m.a. heitar laugar, veitingastað, spennandi göngu- og hjólaleiðir og fleira.
Á tjaldsvæðinu er aðgengi að köldu og heitu vatni, eldunaraðstöðu, sturtu, salerni og interneti. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.
Á tjaldsvæðinu á Laugarvatni er einnig eitt verð sem gildir fyrir allt svæðið, hvort sem fólk kemur með tjald, vagn eða húsbíl. Ef miðað er við einn fullorðinn einstakling kostar nóttin á tjaldsvæðinu 3.283 krónur með gistináttaskatti. Þá bætast 1.500 krónur við verðið ef rafmagni er bætt við, en þá kostar nóttin 4.783 krónur.
Fjögurra manna fjölskylda sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum, 14 ára og 9 ára, myndi því borga 7.733 krónur fyrir nótt á tjaldsvæðinu án rafmagns. Með rafmagni myndi nóttin hins vegar kosta 9.233 krónur, en hver einstaklingur eldri en 16 ára sem bætist við borgar 2.950 krónur fyrir nóttina á meðan ungmenni á aldrinum 10-16 ára borga 1.500 krónur fyrir nóttina. Þá fá börn yngri en 12 ára að gista frítt á tjaldsvæðinu.
Tjaldsvæðið á Laugarvatni er skjólgott með fallegu útsýni, en þar er einnig stutt í ýmsa þjónustu sem gestir geta nýtt sér, m.a. verslun, matsölustaðir, heilsulind og fleira.
Á tjaldsvæðinu er aðgengi að köldu og heitu vatni, sturtu og salerni. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.