Icelandair byrjar að fljúga til Lissabon

Portúgal er með langar strandlengjur. Þá hefur heimsborgin Lissabon upp …
Portúgal er með langar strandlengjur. Þá hefur heimsborgin Lissabon upp á margt að bjóða mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenska flugfélagið Icelandair mun hefja flug til portúgölsku borgarinnar Lissabon í október. Lissabon er höfuðborg landsins og fer fyrsta vél í loftið 11. október. Flogið verður á mánudögum og föstudögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. 

Lissabon hefur að geyma ríka sögu þar sem fallegur arkitektúr og matarmenning er í forgrunni. Í borginni er að finna nokkra staði sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Veðurfar er milt og borgin gæti því höfðað til ferðalanga sem vilja borða góðan mat, kaupa falleg föt eða fara í sólarlandaferð. 

Af þessu tilefni skrifuðu Icelandair og portúgalska flugfélagið TAP undir viljayfirlýsingu um samstarf um sammerkt flug. Félögin hafa átt í samstarfi um árabil en með sammerktu flugi munu viðskiptavinir geta nýtt þægilegar tengingar á milli leiðakerfa flugfélaganna og aukið úrval tengimöguleika. Þannig opnast hentugar tengingar frá Íslandi til Lissabon, en jafnframt áfram til áfangastaða TAP víða um heim. Bæði flugfélögin er þekkt fyrir að bjóða upp á svokallað Stopover sem gerir farþegum kleift að upplifa heimalönd félaganna þegar ferðast er á milli áfangastaða.

„Það er afar ánægjulegt að bæta Lissabon við okkar öfluga leiðakerfi og um leið að auka samstarf okkar við TAP. Lissabon er mjög spennandi áfangastaður og aukið samstarf flugfélaganna mun bæta við þægilegum tengimöguleikum til Brasilíu og Afríku. Við leitumst við að gera samstarfssamninga við flugfélög sem leggja áherslu á góða þjónustu og spennandi ferðatækifæri og það gerir TAP svo sannarlega,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. 

„Samstarfið við Icelandair mun auka úrval ferðamöguleika og áfangastaða sem viðskiptavinir okkar geta valið úr. Þannig munu opnast þægilegar tengingar til Íslands, sem er einn af mest spennandi áfangastöðunum í dag, og fjölmargar tengingar fyrir viðskiptavini Icelandair um öflugt leiðakerfi okkar frá Lissabon. Við hlökkum til að starfa með Icelandair að því að auðvelda fólki að ferðast um heiminn,“ segir Luís Rodrigues forstjóri TAP. 

https://www.icelandair.com/is/flug/flug-til-lissabon

Á aðaltorginu í Lissabon var mikið mannlíf í nóvember. Börn …
Á aðaltorginu í Lissabon var mikið mannlíf í nóvember. Börn og fullorðnir eltu þar sápukúlur í góða veðrinu. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka