„Náttúran er ófyrirsjáanleg, flókin og fegurst af öllu“

Brák Jónsdóttir og Þórir Óskar Hermannsson eru listrænt par.
Brák Jónsdóttir og Þórir Óskar Hermannsson eru listrænt par. Ljósmynd/Aðsend

Brák Jónsdóttir er listakona sem hefur vakið talsverða athygli en hún hlaut fyrr á árinu hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna. Verk hennar byggjast að miklu leyti á forsögulegum þemum þar sem skúlptúrar og innsetningar fá fólk til þess að velta fyrir sér tengsl sín við umhverfið. Brák er úr Hörgársveit og stefnir á að ferðast um Ísland í sumar að njóta menningar og lista. 

Ólst upp á vinnustofum listamanna fyrir norðan

„Ég fæddist á Akureyri árið 1996 og dvaldi mest í listagilinu, svokallaða, á vinnustofum foreldra minna, listasafninu sjálfu og vinnustofum annarra listamanna í gilinu. Árið 2004 fluttumst við fjölskyldan í gamalt félagsheimili í Hörgársveit, Freyjulund, og þar rótaði ég mig af alvöru,“ segir Brák en foreldrar hennar eru listamennirnir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Jón Laxdal.

„Náttúran er ófyrirsjáanleg“

Aðspurð um uppáhaldsnáttúruperlu kemur Mývatnssvæðið upp í hugann. „Þegar ég hugsa mér mína uppáhalds náttúruperlu kemur kærastinn minn Þórir Hermann fyrst upp í hugann...en nú er ég að snúa út úr! Ég verð að segja Mývatnssvæðið, náttúran er ófyrirsjáanleg, flókin og fegurst af öllu. Svæðið er í mínu uppáhaldi vegna allra ævintýrana sem ég hef átt þar með mínum nánustu, og þeim leynistöðum sem þar er að finna.“

Brák að undirbúa sýningaropnun í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit.
Brák að undirbúa sýningaropnun í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd/Aðsend

Listahátíðir og góðir vinir

Í sumar ætlar Brák að ferðast um landið og upplifa menningu og listir.

„Ég ætla að ferðast um Ísland og sjá myndlist og njóta tónlistar. Það má t.d. ekki missa af Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði 5.–7. júlí, FRJÓ listahátíðinni á Siglufirði 12.–14. júlí og LungA listahátíðnni á Seyðisfirði 15.–21. júlí. Svo ætla ég að heimsækja bestu vini mína sem eru í námi í Kaupmannahöfn, og ferðast líka til bróðurs míns sem býr í Aarhus. Það er mikið tilhlökkunarefni. Loks er ég að fara flytja til Noregs í ágúst og byrja í mastersnámi í Listaháskólanum í Bergen, Noregi,“ segir Brák.

Brák lumar á nokkrum góðum hugmyndum fyrir fólk sem ætlar norður í sumar. „Ég mæli t.d. með marokkóska veitingahúsinu á Siglunes Hotel á Siglufirði, sundlauginni einstöku á Hofsósi og mínu uppáhalds safni, Safnasafninu í Vaðlaheiðinni.“

Listaverk Brákar sem verða á sýningunni.
Listaverk Brákar sem verða á sýningunni. Ljósmynd/Aðsend

Verk sem vekja oft óhug við fyrstu sýn

Brák opnar á laugardaginn sýningu á eigin verkum undir titlinum Nestled in í Einkasafninu sem staðsett er í Eyjafjarðarsveit. 

„Hér sýni ég ný verk sem öll eru unnin sérstaklega fyrir þennan óhefðbundna og spennandi sýningastað. Verkin mín eru rík af forsögulegum þemum, sem eru þó skoðuð í framtíðarlegu samhengi komandi tíma. Með skúlptúrinnsetningum skapa ég eigin atburðarás sem oft blæs lífi í útdauð dýr og verur af öðrum heimi. Spennan milli hins tilbúna og náttúrulega er ráðandi í verkunum sem vekja oft óhug við fyrstu sýn, en búa þó yfir blíðu, næmni og húmor. Með innsetningum sem vistkerfi velti ég upp spurningum um tilvistina og býð áhorfendum að endurskoða tengsl sín við umhverfið,“ segir Brák að lokum en þeir sem vilja kynna sér verk Brákar geta heimsótt síðu hennar https://brakjonsdottir.com/.

Brák Jónsdóttir með eitt listaverka sinna í bakgrunni. Brák er …
Brák Jónsdóttir með eitt listaverka sinna í bakgrunni. Brák er með sýningu í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit sem Aðalsteinn Þórsson stendur fyrir. Ljósmynd/Aðsend

Einkasafnið er merkt á Google Maps en það er staðsett í gróðursælum lundi, stutt ofan við syðri afleggjara Kristnesvegar (þjóðvegur 822).

Sýning Brákar opnar kl 15 á laugardaginn 29. júní og er auk þess opin 30. júní og 5. - 7. júlí frá kl 14 - 17. Aðgangur er ókeypis.

Með verkum sínum er Brák skapa ákveðna spennu á milli …
Með verkum sínum er Brák skapa ákveðna spennu á milli hins tilbúna og náttúrulega. Verkin geta vakið óhug við fyrstu sýn en búa líka yfir blíðu og húmor. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka