Fjöldi Íslendinga eru farnir að streyma til sólarlanda í sumarfríinu til að hlaða vítamíntankinn og njóta sín á ströndinni. Á endanum kemur þó alltaf að heimferð. Fyrir þá sem eiga erfitt með að kveðja ljúfa strandarlífið er fullt af góðum ströndum á Íslandi.
Rauðasandur á Vestfjörðum er sannkölluð náttúruperla þar sem rauður sandur teygir sig tíu kílómetra í átt að Látrabjargi. Liturinn getur verið breytilegur eftir birtunni en talið er að sandurinn fái þennan rauða lit vegna hörpuskelja sem hafa brotnað niður í agnir.
Það er einstök upplifun að rölta um sandinn, tína nokkrar skeljar og njóta útsýnisins. Á góðum sólardegi má sjá Snæfellsjökul rísa tignarlega upp úr hafinu. Við ströndina er líka tjaldstæði og kaffihús sem tilvalið er að stoppa á!
Við fjallið Vestrahorn á Austurfjörðum er falleg fíngerð svört strönd en hún er í aðeins um tíu mínútna akstursfjarlægð frá Höfn. Svæðið er jarðfræðilega merkilegt en þar er að finna eitt elsta berg landsins. Selir eiga það til að synda upp á ströndina til að slaka á, enda ekkert betra en að njóta núvitundarinnar og hlusta á öldurnar.
Breiðamerkursandur fellur oft í skugga Jökulsárlóns sem er hinum megin við þjóðveginn. Það er algjörlega þess virði að skoða ströndina þar sem margir litlir ísjakar skolast á land. Það getur verið einstök upplifun að komast í návígi við ísjaka sem hægt er að snerta og jafnvel halda á ef þeir eru ekki of stórir. Ef lagt er t.d. hjá Jökulsárlóni er einfaldlega hægt að ganga undir brúna við Jökulsárlón í nokkrar mínútur og þá mun ströndin blasa við.
Á góðum sumardegi í Skarðsvík er auðvelt að ímynda sér að vera komin til Havaí þar sem ljós sandurinn mætir grænbláum sjónum í dökku hrauninu. Tilvalið er að fara í lautarferð á ströndinni í háfjöru og jafnvel skella sér til sunds. Til að komast til Skarðsvíkur er farið Útnesveg og bílastæði eru rétt fyrir ofan víkina.
Snæfellsnes hefur upp á fjöldann allan af fallegum ljósum ströndum að bjóða en sú sem liggur við Búðir sker sig úr. Frá Búðum má sjá tignarlegu fjöllin sem standa nánast í beinni línu meðfram Snæfellsnesinu en á endanum situr Snæfellsjökull sem skartar sínu fegursta. Rétt hjá litlu kirkjunni á Búðum er gullin strönd með miklum gróðri og fuglalífi.