Upplifði menningarsjokk á Íslandi

Ferðabloggarinn Ash Chinda segist hafa upplifað menningarsjokk á Íslandi.
Ferðabloggarinn Ash Chinda segist hafa upplifað menningarsjokk á Íslandi. Samsett mynd

Ferðabloggarinn Ash Chinda fór nýlega í ferðalag til Íslands. Í kjölfarið deildi hún myndskeiði á TikTok þar sem hún sagði frá því að hafa upplifað menningarsjokk í heimsókninni. 

Í myndskeiðinu fer Chinda yfir nokkra hluti sem hún upplifði sem menningarsjokk á Íslandi. „Fyrst og fremst, þau borða hesta. Einnig er ákveðin tegund sem kallast íslenski hesturinn sem er loðnari og styttri, þeir eru ótrúlega krúttlegir og þeir eru settir á matseðilinn,“ byrjar hún að útskýra í myndskeiðinu. 

„Þau borða líka hvali. Mér fannst hvalur það ómerkilegasta sem ég borðaði. Borðaði ég hestinn? Nei. En ég borðaði hval, hann bragðaðist bara eins og hvítur fiskur. Svo þú getur í hreinskilni sagt bara sleppt því að smakka hann ef þú vilt,“ bætir hún við. 

Þó svo hvalurinn hafi ekki hitt í mark hjá Chindu þá var hún yfir sig hrifin af lundanum. „Lundi er ótrúlegur. Já, ég borðaði lunda. Mér er alveg sama hversu sætir þeir eru, fuglar eru bestir dauðir á disk,“ segir hún. 

„Lundinn bragðast bara eins og mjúk andabringa. Hann er það ljúffengasta sem ég hef lagt mér til munns,“ bætir hún við. 

Hissa á fjölda fallegra kvenna í íslensku lögreglunni

Því næst sagðist Chinda hafa verið hissa að sjá börn á öllum aldri vera úti að leika sér ein síns liðs. „Börn á öllum aldri eru bara úti að leika sér ein því það er svo öruggt að vera á Íslandi. Og ef þú ert að hugsa um að fara til Íslands til að sækja börn þá myndi ég ekki gera það þar sem íslenskt fólk er líka eitthvert skelfilegasta fólk sem ég hef séð,“ segir hún og bætir við að hún hafi heyrt að Íslendingar væru ekki endilega þeir vinalegustu. Hún hafi þó fengið góðar viðtökur en mælir ekki með að fólk sem er ekki með góðan ásetning heimsæki landið. 

„Þetta er vegna þess að allt samfélagið passar upp á krakkana og tryggir að ekkert raunverulega slæmt gerist fyrir þá. Og plús það að það er svo kalt, hver vill fremja glæpi í svona kulda? Enginn vill fremja glæpi í svona kulda, enginn,“ bætir hún við.

Að lokum segist Chinda aldrei hafa séð jafn margar fallegar lögreglukonur fyrr en hún heimsótti Ísland. „Ég spáði mikið í því hvort það væru bara konur í íslensku lögreglunni, en svo sá ég tvo menn. Ég sá samt aðallega konur, en tvo menn. Þessar konur eru sennilega bara aðeins skelfilegri en karlarnir,“ útskýrir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert