Mælti með 16,5 milljón króna ferð til Reykjavíkur í feðradagsgjöf

Leikkonan Gwyneth Paltrow er stofnandi lífsstílsvefsins Goop.
Leikkonan Gwyneth Paltrow er stofnandi lífsstílsvefsins Goop. Samsett mynd

Feðradagurinn var haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum þann 16. júní síðastliðinn. Dagurinn er tileinkaður feðrum og er ætlað að heiðra feður, föðurhltverkið, föðurtengsl og áhrif feðra í samfélaginu.

Feðradagsgjafir hafa verið vinsælar á undanförnum árum í tilefni dagsins og ýmsar verslanir sem auglýsa sérstaklega gjafir fyrir feður í aðdraganda dagsins. Þá hefur einnig verið vinsælt að gefa út lista yfir hugmyndir af feðradagsgjöfum og gaf Goop, lífsstílsvefur Gwyneth Paltrow, út slíkan lista í ár sem vakti mikla athygli.

Listinn hefur verið gagnrýndur fyrir að innihalda mikið af gjafahugmyndum sem þykja úr takt við hefðbundnar feðradagsgjafir, en á listanum er mikið af dýrum gjöfum sem fæstir hafa efni á.

Á meðal þess sem mælt er með að gefa í feðradagsgjöf er ferðalag sem ber heitið „Norrænt ævintýri“, en þá er ferðast með einkaþotu og farið í lúxussiglingu til Reykjavíkur, Grænlands, Helsinki, Tallinn, Kaupmannahafnar og Færeyja. Það er óhætt að segja að þessi feðradagsgjöf sé í dýrari kantinum, en hún kostar 16,5 milljónir á mann. 

Á listanum má einnig finna ísskáp sem kostar um 178 þúsund krónur, námskeið í viðskiptum sem kostar rúmar 385 þúsund krónur, ferðalag til Alaska sem kostar rúmlega 1,2 milljón á mann og kajak sem kostar tæplega hálfa milljón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert