„Grenivík er algjör paradís“

Harpa Káradóttir rekur MakeUp Studio Hörpu Kára sem er förðunarskóli.
Harpa Káradóttir rekur MakeUp Studio Hörpu Kára sem er förðunarskóli.

Harpa Káradóttir, förðunarfræðingur og eigandi Make-Up Studio, fer reglulega norður á Grenivík þar sem að fjölskyldan hennar á hús. 

„Amma mín er alin upp á Grenivik og gamla húsið sem hún ólst upp í er enn í eigu fjölskyldunnar. Sem barn fór ég á hverju sumri og dvaldi þar í dágóðan tíma. Í seinni tíð hef ég reynt að fara minnst tvisvar á ári,“ segir Harpa.

„Við fjölskyldan elskum að fara norður þegar við höfum tækifæri til og reynum að nýta löngu fríin hjá krökkunum til þess að fara. Grenivík er algjör paradís og við elskum að fara á veturna í vetrardýrðina.“

Hvernig er draumadagurinn fyrir norðan?

„Draumadagurinn fyrir norðan er rólegur morgun í gamla húsinu okkar og taka svo langan bíltúr í sveitirnar í kring og enda í sundi á Grenivík.“

Hvar finnst þér best að fá þér sundsprett á svæðinu?

„Sundlaugin á Grenivík er algjör draumur og yndislegt að vera þar með börn og njóta útsýnisins og fallega umhverfisins.“

Er lífið fyrir norðan öðruvísi á veturna og er hægt að gera upp á milli?

„Við elskum að fara norður á veturna og förum mögulega oftar á veturna. Að vísu finnst okkur minna gaman að vera veðurteppt en við tökum það bara á kassann. Við erum nýbúin að kaupa skíði fyrir börnin og hlökkum til að geta nýtt Norðurlandið betur í alls konar hobbí. Ég á þrjú börn, eina tíu ára og tvíbura sem eru að verða fjögurra ára þannig að við erum alveg að detta á betri stað til þess að geta gert meira úr hreyfingu og annað slíkt á svæðinu. Annars höfum við bara tekið því rólega fyrir norðan og notið þess að vera í húsinu okkar með fjölskyldu og vinum, elda góðan mat og njóta þess að vera saman. Maður dettur í annan takt þegar maður fer burt frá heimilinu og yfirleitt náum við góðri slökun og hlöðum hvergi betur batteríin eins og á Grenivik.“

Ertu búin að skipuleggja sumarfríið?

„Við ætlum að vera dugleg að ferðast innanlands í sumar og njóta einnig góðra stunda heima í garðinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert