Svaf í bílnum í útilegu

Karen Björg Þorsteinsdóttir ólst upp á Grenivík.
Karen Björg Þorsteinsdóttir ólst upp á Grenivík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir átti yndislega barnæsku á Grenivík. Henni finnst nauðsynlegt að fara reglulega heim og hlaða batteríin en hún ætlar að sjálfsögðu að vera dugleg að fara til Grenivíkur í sumar.

Hvernig var að alast upp á Grenivík?

„Það var yndislegt og stóískt. Fámennt en góðmennt. Ég var í Grenivíkurskóla öll tíu árin og æfði fótbolta og frjálsar íþróttir. Ég var í unglingavinnunni og vann svo líka í Darra-harðfiski á sumrin. Fólk fór miklu sjaldnar í bæinn, til Akureyrar, þá en mamma fór um einu sinni í viku og þá fór ég oft með og helst fín til fara. Þannig að þetta var einangraðri heimur í denn.

Ég viðurkenni að mér fannst kannski ekki alveg nægilega kúl að segjast vera frá Grenivík þegar ég var unglingur en það breyttist með auknu sjálfsáliti. Ég ólst upp með stelpum sem ég er ennþá í góðu sambandi við í dag og þótt við séum fluttar burt þá hugsum við allar hlýtt til Grenivíkur.“

Fjölskylda Karenar Bjargar er vélsleðafjölskylda. Hér er hún á Kaldbak …
Fjölskylda Karenar Bjargar er vélsleðafjölskylda. Hér er hún á Kaldbak á góðum degi. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það sem heillar helst við bæinn?

„Grenivík er fáránlega vel skipulögð og snyrtileg. Búðin í miðjunni og skólinn efst í brekkunni. Ég þekki landslagsarkitekta sem slefa yfir þessu skipulagi.“

Langar þig stundum að flytja úr borginni og flytja norður?

„Ég uni mér vel í Reykjavík – eftir að sonurinn komst inn á leikskóla. Ég hef ekki hugleitt að flytja en ég verð hins vegar að koma reglulega norður af því að þar hleð ég batteríin best.“

Er eitthvað úr litlu samfélagi eins og Grenivík sem smitast út í handritaskrifin?

„Grenvíkingar búa yfir mjög þróuðum húmor og oft frekar svörtum sem hefur klárlega smitað mig. Ég er eins og stendur að vinna að glæpaseríu sem á að gerast úti á landi og ég er sú eina í skrifteyminu sem er ekki frá Reykjavík. Því gegni ég mjög mikilvægu hlutverki við að uppræta landsbyggðarklisjur bæði í karaktervinnu og við skrif á söguþræðinum.“

Hvernig ferðalagatýpa ert þú?

„Ég pakka yfirleitt alltof litlu og er illa skipulögð. Þegar ég eignaðist son minn vildi ég ólm fara í tjaldútilegu sem endaði á því að við sváfum inni í bíl. Ég er núna í tökum á þáttaseríu sem heitir Útilega og gerist í útilegu og ég er alveg búin að fá minn skammt af svoleiðis fyrir árið.“

Þegar sonurinn var lítill var Karen Björg spennt fyrir því …
Þegar sonurinn var lítill var Karen Björg spennt fyrir því að fara með hann í útilegu. Ljósmynd/Aðsend

Hvert fórst þú í útilegur þegar þú varst yngri?

„Við fórum út um allt. Ég man sterkt eftir útilegu í Atlavík með mömmu og pabba en svo á amma mín ættaróðal í Kelduhverfi þar sem við gistum að minnsta kosti einu sinni á ári.“

Hvernig er draumadagurinn á Norðurlandi?

„Úúú, það væri bröns með stelpunum á Akureyri, Skógarböðin, kaffi hjá ömmu Kiddu á Grenivík og svo grilluð pítsa á pallinum hjá mömmu og pabba. Þau eiga hús við sjóinn og við höfum tvisvar borðað úti við dúklagt borð og sólsetur sem var algjörlega sturlað.“

Dúklagt borð og sólsetur á Grenivík.
Dúklagt borð og sólsetur á Grenivík. Ljósmynd/Aðsend

Áttu uppáhaldsnáttúruperlu fyrir norðan og af hverju?

„Kaldbakur er það besta á veturna. Það er mikil sleðamennska í minni fjölskyldu og við erum dugleg að fara upp á Kaldbak bæði um vetur og páska. Það er svo fallegt að standa efst og sjá yfir allan Eyjafjörð og sólina glitra á snjónum. Svo enda í pottinum heima hjá mömmu og pabba.“ 

En uppáhaldssundlaug á Norðurlandi?

„Sundlaugin á Akureyri myndi ég segja að væri besta laug landsins. Hun er svo fjölbreytt og snyrtileg og klefarnir notalegir. En ég verð að nefna líka laugina á Grenivík sem er búin að eiga algjört „glowup“ með tveimur nýjum pottum og glerveggjum.

Ertu búin að skipuleggja sumarfríið þitt?

„Grenivík. Það er bara svoleiðis.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert