Hvar er besta veðrið fyrir tjaldútilegu helgarinnar?

Á að skella sér í útilegu um helgina?
Á að skella sér í útilegu um helgina? mbl.is/Irja Gröndal

Landsmenn hafa verið duglegir að elta uppi góða veðrið og sólina undanfarnar vikur. Veðurguðirnir virðast ekki hafa mikinn áhuga á að sóla landann þessa dagana, en mikil rigning hefur verið í kortunum víðsvegar um landið síðustu daga.

Miklar ferðahelgar eru framundan og því tók ferðavefur mbl.is saman lista yfir þau fimm tjaldsvæði á landinu þar sem besta veðrinu er spáð um helgina samkvæmt tjaldvef Bliku.

Lundur

Besta veðri helgarinnar er spáð á tjaldsvæðinu að Lundi í Öxarfirði. Á föstudag er gert ráð fyrir að það verði alskýjað, 15°C og norðvestan 3 m/s. Á laugardag á einnig að vera alskýjað en 14°C og norðvestan 2 m/s. Á sunnudaginn er hins vegar gert ráð fyrir að það verði aðeins bjartara yfir, skýjað, 19°C og suðaustan 4 m/s.

Tjaldsvæðið er í Birkiskógi og eru ótal fallegar gönguleiðir og náttúruperlur í kring. Þar er aðgengi að köldu og heitu vatni, rafmagni og salerni. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.

Ljósmynd/Parka.is

Kópasker

Næstbesta veðrið á að vera á tjaldsvæðinu á Kópaskeri. Á föstudaginn er reiknað með að það verði alskýjað, 14°C og austan 3 m/s. Á laugardaginn á einnig að vera alskýjað en 12°C og norðvestan 2 m/s. Á sunnudaginn er hins vegar búist við því að sólin láti aðeins sjá sig og það verði léttskýjað, 19°C og sunnan 4 m/s.

Tjaldsvæðið er við innkeyrsluna inn í þorpið. Þar er aðgengi að köldu vatni, rafmagni, sturtu, og salerni. 

Ljósmynd/Tjalda.is

Ásbyrgi

Fínu veðri er spáð á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi í Vatnajökulsþjóðgarði um helgina. Búist er við að það verði alskýjað alla helgina, en á föstudaginn er spáð 12°C og norðvestan 3 m/s. Á laugardaginn er einnig spáð 12°C en norðvestan 2 m/s. Á sunnudaginn á hitinn svo að fara upp í 17°C og spáð sunnan 1 m/s.

Tjaldsvæðið í Ásbyrgi er stórt og rúmgott, en þar í kring má finna ótal náttúruperlur og spennandi gönguleiðir. Á svæðinu er aðgengi að heitu og köldu vatni, sturtu, þvottavél, salerni, rafmagni og eldunaraðstöðu. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.

Ljósmynd/Tjalda.is

Mánárbakki

Á tjaldsvæðinu Mánárbakka yst í Tjörnesi er spáð ágætis veðri um helgina, en gert er ráð fyrir að það verði alskýjað alla dagana. Á föstudag er reiknað með 10°C og norðan 2 m/s, á laugardag er einnig gert ráð fyrir 10°C og norðan 1 m/s. Á sunnudag á hitinn svo að fara upp í 14°C, en þá er spáð suðvestan 2 m/s.

Tjaldsvæðið er á sjávarbakka með óhindruðu útsýni til sjávar. Þar er aðgengi að köldu og heitu vatni, rafmagni, eldunaraðstöðu, sturtu, þvottavél og salerni. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.

Útilega mánárbakki
Útilega mánárbakki mbl.is/Irja Gröndal

CJA tjaldsvæðið

Tjaldsvæðið á bænum Hjalla í Reykjadal býður einnig upp á ágætis veður um helgina. Á föstudag og laugardag er reiknað með að það verði alskýjað, en fyrri daginn er spáð 11°C og norðan 5 m/s en seinni daginn 15°C og logni. Á sunnudaginn er gert ráð fyrir að það verði aðeins bjartara yfir, en þá er reiknað með að það verði skýjað, 18°C og suðaustan 5 m/s.

Tjaldsvæðið er í rólegu umhverfi við bæinn og er hólfað niður í einkabása. Þar er aðgengi að köldu og heitu vatni, rafmagni, eldunaraðstöðu, sturtu, þvottavél og salerni. Þá eru hundar leyfðir á svæðinu.

Ljósmynd/Parka.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert