Maður leitar ráða hjá ferðasérfræðingi The Times. Kærastan hans klappar alltaf við lendingu og honum finnst það asnalegt.
Ég er nýbyrjaður að hitta konu sem ég kann ágætlega við. Við höfum farið nokkrum sinnum saman til útlanda. Ég hef tekið eftir því að hún klappar alltaf innilega þegar flugvélin lendir. Tærnar mínar kreppast saman. Mér finnst það svo hallærislegt. Er þetta tákn um að sambandið eigi sér enga von?
Það eru skiptar skoðanir um hvort það sé við hæfi að klappa þegar flugvél lendir. Sumum finnst það allt í lagi á meðan öðrum finnst það sjoppulegt og skrítið.
Það var algengara að klappa hér áður fyrr þegar fólk ferðaðist sjaldnar til útlanda. Nú eru allir alltaf á ferðinni og því er minna um að það sé klappað.
Annað sem hefur áhrif á það hvort það sé við hæfi að klappa er áfangastaðurinn. Ef maður er að lenda á skemmtilegum sumarfrísstað eða í heimalandinu eftir vindasamt flug þá getur verið við hæfi að klappa.
Þú verður að meta það sjálfur hvort þú viljir raunverulega segja manneskju upp því hún er of hress í flugvélum. Persónulega finnst mér að þú ættir að fagna því að vera með svona líflegri manneskju sem fagnar því að flugstjórinn hafi getað lent vélinni og að allir séu enn á lífi.