Setur sokkana í frysti í hitabylgjum

Næst þegar þú ferð í frí skaltu prófa að nýta …
Næst þegar þú ferð í frí skaltu prófa að nýta þér frystinn sé hann til staðar. mbl.is/Colourbox

Ferðablaðamaðurinn Sarah Bull lumar á góðum og ódýrum ráðum þegar kemur að því að kæla sig niður í hitabylgjum erlendis. Þessi ráð duga þó aðeins ef fólk hefur aðgang að frysti t.d. í Airbnb eða leigðum sumarhúsum.

Frosnar vatnsflöskur

„Ég set vatnsflöskur úr plasti í frystinn í góðan tíma. Þegar vatnið er frosið þá vef ég flöskurnar í viskustykki og sting flöskunum í rúmið tuttugu mínútum fyrir háttatíma. Þá er rúmið svalt og gott fyrir svefninn. Maður getur einnig kælt koddaverið með sama hætti en margir elska að sofa á svölum kodda. Það þarf bara að gæta þess að setja ekki glervatnsflöskur í frystinn því þær gætu sprungið,“ segir Bull í viðtali við The Sun.

Sokkar í frystinn

„Ég mæli með að geyma hreina sokka í frystinum. Galdurinn er að spreyja þá létt með vatni áður en þeim er stungið inn í frystinn. Ef maður skyldi vakna um miðja nótt að kafna úr hita þá getur maður sótt þessa sokka, farið í þá og skriðið aftur upp í rúm. Kælingaráhrifin eru margföld. Fæturnir gegna mikilvægu hlutverki í hitajöfnun líkamans. Að byrja á að kæla fætur er góð leið til þess að ná niður líkamshitanum almennt.“

Setur bangsann í frystinn

„Sum börn sofa ekki vel sé þeim of heitt. Þá getur verið gott að stinga bangsanum í frystinn fyrir háttatíma. Þegar börnin fara loks að sofa þá má sækja bangsann sem veitir þeim eitthvað kalt til þess að knúsa í hitasvækjunni. Kostirnir við þessa aðferð eru líka fleiri þar sem frostið gerir það að verkum að þá deyja rykmaurar sem gætu leynst í bangsanum. Þetta ráð er samt bara gott fyrir aðeins eldri börn. Ekki ungbörn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert