Flutti aftur með fjölskylduna í sveitina til að byggja upp fyrirtæki

Katrín Sigurðardóttir kann vel við sig í sveitinni.
Katrín Sigurðardóttir kann vel við sig í sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Sigurðardóttir er mikil hestakona en hún hefur búið á Skeiðvöllum frá því árið 2007 og segist hvergi una sér betur en í sveitinni. Skeiðvellir, sem eru í Rángárþingi ytra aðeins norður af Hellu, eru hestamiðstöð með fjölbreytta starfsemi svo sem hestaleigu, reiðskóla, hestaferðir, námskeiðahald, sýningar, tamningu og ræktun auk þess er rekin bændagisting á bænum.

Katrín segist þó ekki alltaf hafa búið í sveit. „Ég fæddist í Hafnarfirði og bjó þar til níu ára aldurs en þá flutti ég með mömmu og pabba á bæ sem heitir Holtsmúli og er hér í sömu sveit. Ég flutti svo í bæinn þegar ég var um 18 ára. Mamma og pabbi bjuggu á Holtsmúla í ein tuttugu ár og síðan seldu þau bæinn en héldu eftir smá hluta sem þau byggðu hestamiðstöðina Skeiðvelli á árið 2007. Þau spurðu mig og manninn minn Davíð Jónsson hvort við vildum koma aftur í sveitina og byggja þetta upp með þeim en við eigum tvö börn. Við slóum til og fluttum með alla fjölskylduna í sveitina til að vinna saman í þessu en á þeim tíma vorum við bara með hrossaræktunina.“ Foreldrar Katrínar heita Lisbeth Sæmundsson og Sigurður Sæmundsson.

Skeiðvellir eru í Rángárþingi ytra.
Skeiðvellir eru í Rángárþingi ytra. Ljósmynd/Aðsend

Keyrði í bæinn í tvö ár á hverjum degi

Árið 2010 byrjaði Katrín að skipuleggja ferðir fyrir ferðamenn en hún er með BS gráðu í ferðamálafræði.

„Ég hafði verið að vinna við ferðaþjónustu í bænum og raunar hélt ég vinnunni minni í Reykjavík í tvö ár eftir að ég flutti í sveitina enda mjög ánægð þar en ég var að vinna hjá Fjallamönnum. Ég keyrði í bæinn á hverjum degi en svo kom að því að það var of mikið sérstaklega á veturna. Árið 2013 opunuðum við hestamiðstöðina formlega en þá kölluðum við þetta heimsóknarmiðstöð íslenska hestsins, þá var hugmyndina að starfsemin yrði aðalega heimsóknir og sýningar en svo þróaðist þetta yfir í það sem við erum að gera í dag, stuttar og langar hestaferðir, hestasýningar, heimsóknir í hesthúsið, teymingar fyrir krakka, reiðkennsla og allt sem viðkemur hestamennsku í rauninni. Við bættum svo við bændagistingu en við erum að leigja út tvö hús, annað sex manna og hitt hentar tveimur fullorðnum og tveimur börnum.“

Katrín bætir við að bændagistingin sé fyrir alla og alveg ótengd hestamiðstöðinni en raunin sé samt sú að flestir sem gisti nýti sér aðstöðuna og komi í heimsókn í hesthúsið enda hafi hestar mikið aðdráttarafl.

Ljósmynd/Aðsend

Gaman að fá alla Íslendingana í kórónuveirunni

Hún segir meirihluta gestanna á Skeiðvöllum vera erlenda ferðamenn en þó komi líka Íslendingar.

„Á meðan á kórónuveirufaraldurinn stóð var mikið um íslenska ferðamenn og í nokkurn tíma eftir faraldurinn héldu þeir alveg áfram að koma sem var mjög gaman. En svo hafa þeir minnkað komu sína mikið, það eru samt alltaf nokkrir reyndir hestamenn sem koma hingað á námskeið eða til að fara í lengri hestaferðir.“

Ljósmynd/Aðsend

Skemmtilegast að vera alltaf í nánu sambandi við náttúruna

Katrín hefur reynslu af því að búa bæði í Reykjavík og í sveitinni en hún þarf ekki að hugsa sig um þegar hún er spurð um kostina við að búa út á landi.

„Mér finnst ég verða miklu meira vör við árstíðirnar hér en í bænum, þá meina ég það þannig að þegar er vetur og myrkur hér í sveitinni þá er virkilaga vetur og myrkur og maður finnur svo djúpt fyrir því. Á hinn bóginn uppgötvar maður miklu fyrr þegar náttúran er að lifna við, þú tekur eftir því þegar grasið fer að grænka og laufin springa út á trjánum. Ég verð líka mjög vör við það þegar fuglarnir fara á stjá á vorin. Í raun finnst mér skemmtilegast að vera alltaf í þessari tengingu við náttúruna, það er alveg dásamlegt.“

Ljósmynd/Aðsend

Bæði kostir og gallar að búa í sveit en kostirnir fleiri

Katrín segist ekki fara mikið í bæinn lengur enda sé nánast öll þjónusta sem þau þurfi á Selfossi.

„Ef ég fer í bæinn þá er ég með alveg verkefnalista sem ég reyni að klára bara, umferðin í Reykjavík er orðin rosaleg, þú ert kannski bara fjörutíu mínútur að keyra fimmtán kílómetra.“

Þegar hún er spurð hvort það sé ekki erfitt að búa í sveit með foreldrum sínum eftir að hafa búið í bænum þá segir hún að auðvitað séu einhverjir gallar en kostirnir séu miklu fleiri.

„Ég meina mér finnst ekkert mál að keyra á Selfoss eða að hitta vini mína í bænum en reyndar eru þeir farnir að koma meira hingað enda erum við með fínt gestaherbergi.“

Ljósmynd/Aðsend

Margir fallegir fossar sem fáir viti um

Ýmislegt áhugavert er að sjá og gera á þessu svæði og fáir sem þekkja svæðið betur en Katrín en hverju mælir hún með fyrir ferðamenn?

„Ég mæli með að fólk horfi svolítið meira í nærumhverfið og skoðið svæðið vel sem það er að heimsækja. Hér í kringum Skeiðvelli er til dæmis margt að sjá eins og Ægissíðufoss sem er rétt hjá Hellu og þá er hægt að fara í göngutúr þangað. Árbæjarfoss er líka rétt hjá okkur og þar er aldrei neinn, svo eru Fossabrekkur í u.þ.b. 15 km fjarlægð héðan og svo er líka hægt að heimsækja Þjófafoss. Þetta eru svona frekar litlir fossar og þarna er aldrei neinn svo það er ekkert kraðak. Það er alltaf verið að segja að það séu svo margir ferðamenn hér en það er bara af því að það fara allir á sömu staðina. Fólk ætti að gefa þessum litlu stöðum meiri gaum og kynna sér hvað er á hverju svæði. Á leiðinni hingað í Þjórsá er líka mjög fallegur og vatnsmikill foss sem vert er að stoppa við og skoða en það er Urriðafoss en það eru alveg einhverjir farnir að fara þangað.“

Ljósmynd/Aðsend

Frábærar sundlaugar og fjölbreyttar gönguleiðir

Fleira hægt að gera sér til afþreyingar á svæðinu og mætti nefna góða sundstaði sem dæmi.

„Sundlaugin á Hellu er alveg frábær og ég þori að fullyrða að hún sé ein sú besta á Suðurlandi, hún er mjög barnvæn og mjög skemmtileg í alla staði. Það er líka sundlaug á Laugalandi sem er róleg og góð. Það eru líka virkilega margar góðar gönguleiðir hér á svæðinu til dæmis upp við Gjánna og við Stöng þar eru góðir stígar og skemmtilegar gönguleiðir. Landmannalaugar eru vissulega svolítill spotti að keyra en þær tengjast samt minni sveit, þar er virkilega mikið af góðum og fallegum gönguleiðum.“

Katrín segir að mikið sé um góða sveitagistingu á svæðinu og margir séu að leigja út sumarhús en einnig séu fín tjaldstæði á Rangárbökkum og á Árhúsum. Hún segir líka að gott sé að fara í lautarferðir í Ásabrekkuskógi því þar hafi Skógræktin sett upp bekki og þar sé huggulegt en fleiri staðir komi til greina enda víða búið að setja bekki og borð.

Ljósmynd/Aðsend

Margir góðir matsölustaðir á Suðurlandi

Þegar kemur að matsölustöðum segir hún að fjölskyldan fari á Hótel Rangá ef þeim langi í lúxusmat.

„Það er kannski ekkert mjög mikið af stöðum á Hellu en til stendur að opna ítalskan stað þar í sumar sem er spennandi. Annars höfum við kannski mest leitað á Selfoss varðandi matsölustaði, þar er náttúrulega mathöll. Við komum oft við á Kaffi Krús en hann er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Á Hvolsvelli er Gallery Pizza Restaurant með mjög góðan mat og svo má ekki gleyma Kanslaranum á Hellu þangað sem allir þeir sem búa á Hellu fara og margir sem vinna þar sækja í mömmumatinn sem boðið er upp á í hádeginu.“ Katrínu finnst í raun það eina sem vanti á svæðið vera gott kaffihús en vonandi standi það til bóta.

Ljósmynd/Aðsend

Háifoss í miklu uppáhaldi

„Mér finnst rosalega gaman að fara upp á Háafoss sem er hérna fyrir ofan, maður keyrir áfram eftir Stöng og Gjánna. Mér finnst þessi foss einn sá fallegasti á Íslandi og það er gaman ekki bara að horfa ofan á fossinn heldur er hægt að labba niður að honum líka sem margir vita ekki. Það er stígur sem gengur niður að fossinum en gangan þangað tekur á milli 20 og 30 mínútur. Ef maður ætlar að komast alveg að fossinum þá þarf að fara úr skónum og vaða aðeins en það er alveg þess virði enda magnað að heyra hljóðin og drunurnar í fossinum.“

Katrín bætir við að hún hafi oft komið að þessum fossi, sem sé með hæstu fossum landsins, án þess að vita að hægt væri að labba niður að honum en það hafi hún uppgötvað þegar hún kom einu sinni fótgangandi að fossinum frá Stöng. Hún mælir samt ekki með að farið sé með lítil börn þarna niður þar sem stígurinn sé heldur brattur.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert