Myndband: Í návígi við hnúfubak í Reynisfjöru

Ferðamenn í Reynisfjöru fengu óvænta hvalaskoðun á dögunum.
Ferðamenn í Reynisfjöru fengu óvænta hvalaskoðun á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Marga ferðalanga dreymir um að sjá hval með berum augum í Íslandsferð sinni. Ljósmyndarinn Alina Rudya var hins vegar ekki að búast við því að fá drauminn uppfylltann þegar hún heimsótti Reynisfjöru í Mýrdal þann 12. ágúst síðastliðinn, ekki frekar en aðrir ferðalangar sem stóðu agndofa á ströndinni og fylgdust með hnúfubak synda meðfram ströndinni. 

Rudya birti myndskeð af atvikinu á TikTok-reikningi sínum og hefur það hlotið þó nokkra athygli. „Sjónarhorn: Þú heimsækir hina frægu svörtu strönd Íslands og hnúfubakur lætur óvænt sjá sig,“ skrifaði hún við myndbandið. 


Félagslyndar verur sem hræðast ekki fólk 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hnúfubakur lætur sjá sig í Reynisfjöru, en hvalina má sjá allt í kringum Ísland, þá sérstaklega á sumrin. Hnúfubakar eru sagðir félagslyndar verur sem hræðast ekki fólk, en Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði við Háskóla Íslands og hvalasérfræðingur, ræddi um hvalategundina í samtali við mbl.is í sumar þegar um tíu hnúfubakar spókuðu sig við höfnina í Borgarfirði eystri.

„Þetta er ekk­ert alóvana­legt en þetta er eina stór­hvala­teg­und­in, hér í þess­um hluta heims­ins get­um við sagt eða alla­vega í kring­um Ísland, sem á það til að koma inn í mikl­ar grynn­ing­ar ef það er ein­hverja girni­lega fæðu að hafa,“ sagði Edda. 

Þá eru á bilinu 11.000 til 15.000 hnúfubakar sem halda sig við Íslandsstrendur og teygja sig til Grænlands og Færeyja, en að sögn Eddu virðist sem svo að stofninn sé í stöðugleika. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert