Bandaríski ferðahandbókahöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Rick Steves gaf nýverið út sjónvarpsþátt um Ísland þar sem hann keyrir hringinn í kringum landið og heimsækir hina ýmsu útsýnisstaði, náttúruperlur og náttúrulaugar.
Með Steves í þættinum er Cameron Hewitt, sem hefur skrifað nokkrar leiðsögubækur með honum, en Hewitt skrifaði færslu á Facebook-síðu sinni á dögunum þar sem hann segir frá vonbrigðum sem þeir urðu fyrir með Bláa Lónið.
„Fyrir nýja þátt Rick Steves um Ísland langaði okkur að taka upp í Bláa Lóninu. Frægu hraunheilsulindina sem er ferðamannatákn Íslands. En við vorum óviss: Þó að Bláa Lónið sé ógleymanleg upplifun, þá er það líka afskaplega dýrt og nánast eingöngu sótt af ferðamönnum,“ segir Hewitt í færslu sinni.
„Í leiðarvísi okkar um Ísland útskýrum við að flestir Íslendingar sleppi þessum fínu „premium“ heilsulindum og fari í staðinn í almenningssundlaugar – hitaðar af náttúrulegum hverum, jafn heitar og Bláa Lónið, skemmtilegri og gagnvirkari, fyrir u.þ.b. einn tíunda af verðinu,“ bætir hann við og útskýrir að í upphafi hafi þeir ætlað að taka upp á báðum stöðum til að sýna úrval valkosta á Íslandi.
„En Bláa Lónið reyndist vera mest takmarkandi staðurinn á listanum okkar. Þegar þeir loksins svöruðu fjölmörgum beiðnum okkar um leið höfðu þeir (skiljanlega) áhyggjur af friðhelgi einkalífs viðskiptavina sinna sem hefðu borgað sig ofan í lónið. Þess vegna gæti Rick aðeins verið í einu fjarlægu horni Bláa Lónsins, girt af og í engum samskiptum við aðra baðgesti,“ skrifar hann.
Steves og Hewitt höfðu líka ákveðið að taka upp í laug í úthverfi Reykjavíkur og varð Árbæjarlaug fyrir valinu, en í færslunni segir hann laugina hafa verið í mestu uppáhaldi af öllum laugunum sem þeir prófuðu á svæðinu.
„Við komuna í laugina var ljóst að við vorum einu ferðamennirnir í sundlauginni – ekki bara þennan dag, heldur mjög líklega alla vikuna. Það var tilvalið til að sýna þennan einstaka flöt íslensk mannlífs: Í stað þess að fara á hverfiskrána eftir vinnu til að safna saman vinum og vandamönnum, koma Íslendingar saman í sundlaugunum,“ skrifar hann.
Hewitt lýsir upplifuninni í Árbæjarlaug sem skemmtilegri, en þar hafi þeir rætt við heimamenn, séð krakka renna sér niður rennibrautir og upplifað íslenska sundlaugarmenningu beint í æð í grenjandi rigningu.
„Með allt þetta dásamlega samspil á filmu áttuðum við okkur á að við þyrftum ekki að sýna Rick dásama Bláa Lónið eftir allt saman. Við erum ekki á móti prívat aðdráttaröflum; við erum frekar talsmenn ferðalanga og reynum að búa til efni sem gefur þeim tilfinningu fyrir valmöguleikunum svo þeir geti tekið bestu ákvörðunina fyrir þeirra tíma og fjárhag,“ bætir hann við.