22 ára og hefur ferðast til 190 landa

Luca Pferdmenges, er duglegur að deila ferðasögu sinni á samféagsmiðlum.
Luca Pferdmenges, er duglegur að deila ferðasögu sinni á samféagsmiðlum. Samsett mynd

Hinn 22 ára gamli ævintýramaður Luca Pferdmenges hefur ferðast til 190 af 195 löndum heimsins. Hann hefur því séð marga af fegurstu ferðamannastöðum sem fyrirfinnast á jörðinni en sumir staðirnir ollu honum vonbrigðum.

Pferdmenges á sér stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlinum TikTok, en 2,9 milljónir fylgja ferðalanginum á miðlinum þar sem hann er duglegur að birta myndbönd frá ferðalögum sínum um heiminn. 

Segir Egyptaland ofmetið

Í viðtali við Daily Mail talaði hann meðal annars um hvaða lönd honum finnst vera ofmetin hvað varðar upplifun ferðamanna. Pferdmenges segir að hann hafi engan sérstakan áhuga á að koma aftur til Máritíus, Maldíveyja, Seychelles-eyja og Egyptalands þar sem krökkt sé af ferðamönnum. 

„Egyptaland er mest pirrandi landið fyrir ferðamenn að mínu mati,“ segir Pferdmenges án þess að rökstyðja skoðun sína frekar.

Gráa Belgía

Pferdmenges talaði einnig um ferðalög sín um Evrópu en hann sagði að fólk í ferðahugleiðingum geti sleppt því að fara til Belgíu sem er á botni vinsældarlista kappans. 

„Andrúmsloftið þar virðist bara mjög óöruggt að mínu mati, og þá er ég að tala um höfuðborgina Brussel. Mikið af belgísku borgunum eru líka ljótar. Aðallega gráar og þunglyndislegar, sérstaklega á veturna,“ segir Pferdmenges.

Heillaður af óþekktum Asíulöndum

Ferðalangurinn nefndi einnig þau lönd sem honum finnst vera vanmetin en þar voru löndin Úsbekistan, Mjanmar og Bútan í Asíu ásamt flestum löndum í rómönsku Ameríku ofarlega á hans lista.

„Fólk gleymir oft að þessi lönd séu til, en þau eru oft miklu meira spennandi og ekki eins kostnaðarsöm og þessir „klassísku ferðamannastaðir,“ þá sérstaklega faldir gimsteinar eins og Bútan og Mjanmar,“ segir hann. „Þau eru ekki vel þekkt, en tvö af fallegustu löndum í heimi.“
Aðspurður hvaða land sé hans uppáhaldsland svaraði Pferdmenges að það væri ómögulegt að velja bara eitt, en hann sagði að Mexíkó, Brasilía, Ísrael, Bútan, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Portúgal og Austurríki væru efst á lista af þeim 190 löndum sem hann hefur heimsótt. 
@thegermantravelguy Join my journey to every country here on TikTok ✨🌎 #travel #lifegoals #fypシ ♬ Love You So - The King Khan & BBQ Show
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert