Play hefur flug til Álaborgar

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play. Ljósmynd/Bernhard Kristinn

Miðasala er hafin hjá flugfélaginu Play á áætlunarferðum til Álaborgar í Danmörku. Álaborg er þriðji áfangastaður Play í Danmörku en fyrsta flugið þangað verður 7. júní á næsta ári. Áætlað er að fljúga alla þriðjudaga og laugardaga fram að 26. ágúst. 

„Við erum virkilega ánægð að fjölga áfangastöðum okkar í Danmörku og geta þannig boðið þeim fjölda Íslendinga sem þar býr upp á hagkvæman kost til að komast til Íslands að heimsækja fjölskyldu og vini. Tengiflugið okkar til Norður-Ameríku mun einnig verða góð viðbót fyrir íbúa Álaborgar. Þetta eru því góðar fréttir fyrir þann stóra hóp fólks sem býr í vesturhluta Danmerkur og að sjálfsögðu Íslendinga sem vilja komast þangað í frí,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.

Play hefur lengi boði upp á flug til Kaupmannahafnar allan ársins hring og til Billund yfir sumartímann. Með flugi til Álaborgar styrkist leiðarkerfi fyrir tengiflug Play til áfangastaða í Norður-Ameríku eins og Boston, New York, Washington DC, Baltimore og Toronto í Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert