Aftengdi sig á gömlu eyðibýli í Jökulfjörðum

Á Kvíum er ekkert símasamband og því algjör aftenging frá …
Á Kvíum er ekkert símasamband og því algjör aftenging frá umheiminum. Ljósmynd/Instagram
Anna Fríða Gísladóttir var á miklu flakki í sumar með fjölskyldu sinni, bæði hér á landi og á erlendri grundu. Hún segir eftirminnilegasta fríið hafa verið að fara til Kvía í Jökulfirði þar sem það er algjör aftenging frá umheiminum. Anna Fríða er trúlofuð Sverri Fal Björnssyni, hagfræðingi. Þau eiga tvo drengi, Björn Helga og Jóhann Kristinn.
„Kvíar er afskekktur staður í Jökulfjörðum þar sem amma mannsins míns ólst upp og höfum við, ásamt tengdafjölskyldu minni, gert okkur ferð þangað nokkrum sinnum undanfarin sumur. Húsið var orðið að eyðibýli þar til það var gert upp fyrir nokkrum árum af Borea Adventures, ferðaskrifstofu á Ísafirði og er nú notað sem aðsetur fyrir ferðafólk á þeirra vegum,“ segir Anna Fríða.
„Þar erum við í kyrrð og ró í nokkra daga í senn, algjör aftenging, því þar er ekki einu sinni símasamband. Dagarnir fara í að rölta um fallega náttúruna, elda tímafrekar máltíðir, spila saman og henda sér í gufuna og sjóinn til skiptis.“

Skyndiferð til Kaupmannahafnar góð hugmynd

Hún segir hvíld og sumarfrí með fimm og tveggja ára drengi ekki beint eiga saman. Hún hafi samt farið í skyndilega vinkonuferð til Kaupmannahafnar snemmsumars sem fyllti vel á gleðibankann. 
„Annars vorum við fjölskyldan mikið saman í sumar og fórum meðal annars í vikuferð til Riga. Riga er frábær borg fyrir börn og ekki síðri fyrir foreldra sem elska góðan mat. Við vorum á miklu flakki þetta sumarið í alls kyns styttri ferðum út á land og fórum til dæmis á Hótel Grímsborgir og Hótel Búðir. Þeir örfáu dagar sem voru óskipulagðir náðum við að nýta vel með útiveru í Fossvogsdalnum.“
Anna Fríða skemmti sér vel í vinkonuferð til Kaupmannahafnar.
Anna Fríða skemmti sér vel í vinkonuferð til Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Instagram

Létu veðrið ekki hafa áhrif

„Svo þetta með veðrið, við reyndum ekki að láta það hafa mikil áhrif á okkur og bara klæddum okkur upp og reyndum að fara eins mikið út og við gátum. Þó að skjátími hafi hundrað prósent aukist þetta sumarfríið,“ segir hún og hlær. 
„Annar hápunktur var að strákurinn okkar varð fimm ára. Til að segja frá því hvað við erum veðursjúk þá var búið að dekka allt og allt var tilbúið fyrir afmælið. Svo kom allt í einu blússandi sól og við færðum allt afmælið út til að sitja úti í hálftíma. Svo fóru allir aftur inn því það byrjaði að hellirigna á okkur. Það var svolítið sumarið 2024,“ segir hún hlæjandi að lokum. 
Anna Fríða elskar að ferðast.
Anna Fríða elskar að ferðast. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka