Stakk af til Asíu í fimm vikna sól og blíðu

Sara-Yvonne í Seúl.
Sara-Yvonne í Seúl. Ljósmynd/Aðsend

Sara-Yvonne Ingþórs­dótt­ir er nýkomin heim fimm vikna flakki um Asíu með eiginmanni sínum. Hjónin fóru til Suður-Kóreu, Hong Kong, Malasíu og Indónesíu. Á ferðalaginu skoðuðu þau ótrúlega náttúru og borðuðu gómsætan mat. 

„Ég og maðurinn minn höfum komið til Indónesíu áður og það er eitt af mínum uppáhalds löndum og okkur langaði aftur þangað. Fyrst við vorum að fara alla þessa leið þá var tilvalið að lengja ferðina og bæta við nýjum áfangastöðum og sjá meira af heiminum. Okkur hefur alltaf langað til Suður-Kóreu vegna matar og menningar, Hong Kong og Kuala Lumpur var bara einhvern veginn í leiðinni til Indónesíu svo við bættum þeim við. Ég hefði reyndar auðveldlega geta eytt þremur mánuðum bara í Indónesíu,“ segir Sara-Yvonne um ferðalagið.

Hjónin fóru meðal annars til Balí.
Hjónin fóru meðal annars til Balí. Ljósmynd/Aðsend
Foss á Balí.
Foss á Balí.

Þessir staðir eru allir í sömu heimsálfunni en eiga þeir eitthvað sameiginlegt eða eru þeir allir ólíkir?

„Þessir staðir eru mjög ólíkir að mínu mati. Seúl, Hong Kong og Kuala Lumpur eiga það sameiginlegt að vera borgir sem eru með blöndu af nútímalegum skýjakljúfum, ríkri menningu og góðum mat. Seúl er tæknivædd borg með mikið af háhýsum en blandast við fornar hallir og falleg eldri hverfi. Hong Kong er með mikið af háhýsum, endalaust af veitingastöðum, heimsklassa verslanir, neon ljós og mjög mikið af fólki. Hong Kong og Seoul fannst mér eiga það sameiginlegt að vera hraðskeiðar og hátæknivæddar. Þó að Kuala Lumpur sé líka stórborg þá fannst mér andrúmsloftið þar vera aðeins rólegra. Indónesía var svo allt öðruvísi, en þar eru engin háhýsi, ekki eins þróaðir vegir og falleg náttúra alls staðar í kring og er sá staður sem er mest frábrugðinn borgunum sem við vorum í.“

Andrúmsloftið er rólegra í Kuala Lumpur.
Andrúmsloftið er rólegra í Kuala Lumpur. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað í ferðinni sem stóð upp úr? 

„Það er rosalega erfitt að segja hvað stóð upp úr því við fórum til svo ólíkra staða. Ef ég á að velja eitt land þá er það Indónesía því það hefur upp á svo margt að bjóða, fólkið þar er svo yndislegt, náttúran er ótrúleg og maturinn góður. Við vorum lengst á Bali, en þar skoðuðum við marga fallega fossa, frumskóga, musteri, hrísgrjónaakra og köfuðum til að skoða neðansjávar. En eitt af hápunktum ferðarinnar var klárlega að fara í Komodo-þjóðgarðinn og skoða Komodo-drekana í sínu náttúrulega umhverfi og ef fólk er með köfunarréttindi þá er þetta einn fallegasti staður í heimi til að kafa. Kórallinn er svo litríkur og dýralífið er fallegt og fjölbreytt, við sáum „manta rays“, hákarla, skjaldbökur, „eagle rays“, moorean eel“, trúðafiska og helling af mínum síst uppáhalds fiskum, „titan triggerfish“. Indónesía er eitt af mínum uppáhaldslöndum, margir fara þangað og fara bara til Balí en ég mæli mikið með að taka klukkutíma flug til Labuan Bajo og skoða Komodo-þjóðgarðinn.“

Í frumskóginum.
Í frumskóginum. Ljósmynd/Aðsend
Það er frábært að kafa í Komodo-þjóðgarðinum.
Það er frábært að kafa í Komodo-þjóðgarðinum. Ljósmynd/Aðsend
Hjá Komodo-dreka.
Hjá Komodo-dreka. Ljósmynd/Aðsend
Padar Island í Komodo-þjóðgarðinum.
Padar Island í Komodo-þjóðgarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Hjónunum fannst líka áhugavert að fara til Suður-Kóreu. 

„Það var síðan mjög áhugavert að læra um sögu Suður- og Norður-Kóreu en við fórum í dagsferð á hlutlausu landamærasvæði Kóreuríkjanna (e. Demilitarized Zone) sem skilur suður- og norðurhluta Kóreu að. Til að komast þangað þurfti að fara með leiðsögumann og taka með sér vegabréf og á staðnum komu hermenn um borð í rútuna til að skoða vegabréfin hjá öllum. Síðan fengum við að rölta um svæðið, horfa yfir til Norður-Kóreu og fórum ofan í eitt af neðanjarðargöngunum sem Norður-Kórea hafði grafið til að ráðast inn í Suður-Kóreu, það var virkilega áhugavert að skoða það“

Í Seúl.
Í Seúl. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var maturinn?

„Maturinn var frábær allstaðar sem við fórum og við reyndum að vera dugleg við að smakka lókal mat. Í Suður Kóreu smökkuðum við allskonar lókal mat eins og bibimbap, kimbap, tteokbokki, kimchi og fleira en Korean barbecue var uppáhaldið mitt þar.

Maturinn í Indónesíu var svo ennþá betri við borðuðum mikið af Nasi Goreng, Mie Goreng, Babi Guling og margt fleira. Við gerðum líka vel við okkur og fórum út að borða á veitingastað sem heitir Koral sem er svona neðansjávar veitingastaður. Það var áhugaverð upplifun að borða kvöldmat þar sem hákarlar, skötur og fiskar í öllum regnbogans litum voru syndandi í kringum mann á meðan við borðuðum.

Annar skemmtilegur veitingastaður sem við fórum á heitir Room4Dessert en þar fórum við í 15 rétta seðil sem var meira og minna eftirréttir. Hann var ótrúlega skemmtilegur og öðruvísi, staðurinn kom mér sérstaklega á óvart þar sem ég er lítil desert kona.

Það er ekki skortur á góðum mat á þeim stöðum sem við fórum á. Það áhugaverðasta sem við smökkuðum var þó líklega Luwak-kaffi sem er eitt dýrasta kaffi í heiminum og á uppruna sinn að rekja til Indónesíu. Kaffið er búið til úr kattarkúk, en Luwak kettir borða ákveðin ber og þegar þeir kúka þeim er það týnt upp og notað til þess að búa til þetta fræga og dýra kaffi. Eða eins og lókal fólkið sagði við okkur. „Á Ítalíu eru þeir með cappuccino en í Indónesíu eru þeir með cat-poo-chino“.“

Neðansjávar veitingastaðurinn var skemmtilegur.
Neðansjávar veitingastaðurinn var skemmtilegur. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem þú hefðir gert öðruvísi ef þú værir að skipuleggja þessa ferð aftur?

„Ég hefði verið styttra í Hong Kong, mér fannst gaman að koma þangað en ég þarf ekkert sérstaklega að koma þangað aftur, þrjár nætur hefðu dugað mér. En fyrst og fremst hefði ég lengt ferðina heilt yfir þar sem íslenska sumarið voru hálfgerð vörusvik þetta árið. En maður getur lítið kvartað eftir fimm vikur í sól og blíðu.“

Ertu með einhver ferðalög á döfinni í vetur?

„Við erum ekki búin að bóka neitt vegna þess að við erum með svo mikin valkvíða hvert okkur langar næst! Við förum fram og til baka með hvert okkur langar en við erum aðeins að skoða áfangastaði í Afríku og Suður-Ameríku og vega og meta hvert okkur langar mest að fara næst. Einn daginn langar okkur að fara í safarí í Tansaníu og klifra upp Kilimanjaro en næsta dag langar okkur til Perú að sjá Machu Picchu, svo erum við alveg eins líkleg til að enda á Suðurskautinu.“

Á hrísgrjónaökrum.
Á hrísgrjónaökrum. Ljósmynd/Aðsend
Ævintýralegur morgunverður á Balí.
Ævintýralegur morgunverður á Balí. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert