„Ekki fara hvert sem er í smørrebrauð“

Vesterbro er uppáhalds hverfi Sólar í Kaupmannahöfn og mikið um …
Vesterbro er uppáhalds hverfi Sólar í Kaupmannahöfn og mikið um góða veitingastaði og stóra almenningsgarða. Samsett mynd

Júlíana Sól Sigurbjörnsdóttir, oftast kölluð Sól, er eigandi verslunarinnar Officina sem er staðsett í miðbæ Reykjavíkur. Sól bjó í Kaupmannahöfn frá árinu 2018 til ársins 2023 og starfaði sem vörumerkjastjóri hjá húsgagnafyrirtækinu NORR11.

Hvað heillaði þig við Kaupmannahöfn þegar þú fluttir þangað?

„Það var svo margt en kannski fyrst og fremst hvað það felast mikil lífsgæði í því að búa þar með börn. Borgin er mjög barnvæn og það er mikill kostur að þurfa ekki að vera í bíl að skutla og sækja alla daga. Það kom mér líka á óvart hvað Danir reyndust vera skemmtilegir og opnir. Við höfðum búið í Berlín þar sem fólk er almennt frekar lokað en okkur var tekið svo vel frá fyrsta degi í Kaupmannahöfn.

Allir svo hjálplegir og við eignuðumst strax marga góða vini sem við eigum ennþá í dag. Svo má alveg bæta því við hvað borgin er ótrúlega falleg. Danir eiga sterka arfleið í arkitektúr og hönnun og bera því mikla virðingu fyrir hönnun. Þess vegna verður maður fyrir innblæstri nánast hvert sem litið er á leið til vinnu eða bara úti á róló með börnin.“

Kaupmannahöfn er barnvæn borg að mati Sólar og verður maður …
Kaupmannahöfn er barnvæn borg að mati Sólar og verður maður fyrir innblæstri hvert sem litið er. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?

„Vesterbro er í uppáhaldi. Þar mætast gamla Vesterbro og nýja Vesterbro og blandast vel saman. Hverfið hefur eiginlega allt. Fallega og stóra almenningsgarða sem við notuðum mikið eins og Søndermarken, verslanir og veitingastaði í kringum Vesterbrogade og fleira. Flestir af okkar uppáhalds veitingastöðum og kaffihúsum eru í Vesterbro og þar sem við bjuggum þar þá enduðum við á að verja miklum tíma í hverfinu. En svo eru eiginlega öll hverfin bara frábær útaf fyrir sig, það er til dæmis ótrúlega gaman að taka dag í Nørrebro, frábærir leikvellir fyrir börnin, einstakar búðir og gott kaffi.“

Áttu þér uppáhalds veitingastað eða bar? 

„Ég get ómögulega valið einn en ætla nefna nokkra staði sem eru í uppáhaldi. Italo Café í kaffi og panini í hádeginu. Við hliðina er svo Italo Thai sem er pasta-veitingastaður frá sama fólki og Italo Café í rými sem hýsti mjög lengi Tælenskan stað og fékk því að halda Thai nafninu. Osteria 16 er frábær fyrir „date night“ en þar fær maður alltaf eitthvað gott, Mangia er svo annar í uppáhaldi og ég verð líka að nefna Surt í Carlsberg Byen. Surt gera bestu pítsur í heimi.“

Hvernig er skemmtanalífið í Kaupmannahöfn? 

„Það er svolítið allt í boði. Sum af skemmtilegustu kvöldunum geta verið á reykfylltri bodegu, önnur á klúbbi að dansa eða bara syngja í kareókí með túristunum á Strikinu. Ég var kannski ekki tíður gestur skemmtanalífsins með öll mín fjögurhundruð börn heima en ætli bestu stundirnar hafi ekki verið með góðum vinum í góðu veðri úti með mjög kalda drykki.“

Hvað er ómissandi að sjá?

„Taka dagsferð á Louisiana safnið. Glyptoteket er líka magnað og krefst þess ekki að þú takir lest út úr borginni. Ég mæli líka hiklaust með því að leigja hjól og upplifa borgina þannig. Á meðan þú skoðar bæinn þá er mjög næs að fara á Beau Marché sem er frábær verslun og veitingahús. Áður en þú gerir þetta allt skaltu samt byrja eins og local og fá þér það sem Daninn kallar BMO, eða bolle med ost, á Brød eða Hart bakaríinu. Ef þú vilt blandast 100% inn þá rökræðir þú við næsta mann um hvort vesterhavsosturinn eða gammel knaas sé betri. Svo er geggjað að taka lítinn bát á leigu og sigla í kringum Christianshavn.“

Kaffi og bolla með osti sem er mjög danskt að …
Kaffi og bolla með osti sem er mjög danskt að sögn Sólar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvernig er draumadagurinn þinn í Kaupmannahöfn?

„Ég myndi byrja á hlaupatúr í kringum Søerne með Sigrúnu Eddu og Laufey vinkonum mínum og enda hlaupatúrinn á ískaffi á Italo Café á Værnedamsvej og kaupa kannski falleg blóm í leiðinni. Síðan myndi ég hjóla með Magga manninum mínum og strákunum mínum á Amager Strand og fara í sólbað og leika í sjónum. Svo kvöldmat með góðum vinum á Osteria 16 Pesce og drykkur úti á Enghave Plads 9 áður en við röltum heim.“

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„Kannski ekki eyða of miklum tíma á Strikinu, það er svo miklu skemmtilegra að fara inní önnur hverfi að versla. Og ekki fara hvert sem er í smørrebrauð.“

Sól bjó og vann í Kaupmannahöfn.
Sól bjó og vann í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert