102 ára fallhlífastökkvari deilir leyndarmálinu að langlífi

Með stökkinu varð Manette Baillie elsti fallhlífastökkvari Bretlands.
Með stökkinu varð Manette Baillie elsti fallhlífastökkvari Bretlands. Ljósmynd/Tom Fisk/Pexels

Hin breska Manette Baillie frá Englandi fagnaði 102 ára afmæli sínu á dögunum með því að skella sér í fallhlífastökk. Með stökkinu varð hún elsti fallhlífastökkvari Bretlands en einnig safnaði hún áheitum fyrir tæplega 2.000.000 króna sem hún ætlar að gefa til góðgerðarsamtaka. 

Baillie, sem sinnti herþjónustu í kvennadeild konunglegra sjóliða í seinni heimstyrjöldinni, hefur sjaldan óttast það að taka áhættu í lífinu. Hún hélt til dæmis upp á 100 ára afmælið sitt með því að hoppa upp í Ferrari-sportbíl á aðal Formúlu-1-braut British Grad Prix-keppninnar þar sem hún brunaði á 210 km/klst.

Í samtali við New York Post deildi hún leyndarmálum sínum að langlífi. 

„Þú verður alltaf að sækjast eftir því að læra eitthvað nýtt,“ sagði Ballie á meðan hún gerði sig tilbúna fyrir flugið. „Ég var einu sinni gift fallhlífarhermanni en ég hef aldrei stokkið með fallhlíf sjálf.“

Hafði fulla trú á sjálfri sér

Ballie var fullviss um að hún gæti farið í fallhlífastökk eftir að hún frétti að 85 ára gamall faðir vinkonu hennar hefði nýlega lokið sínu fyrsta stökki. Hún bætir því við að hún sé þakklát fyrir að vera í góðu formi miðað við aldur. 

Mikill fjöldi fólks fylgdist með Ballie á jörðu niðri, þar á meðal fjölskylda hennar og vinir sem virtust með meiri hnút í maganum en stökkvarinn sjálfur. 

„Þegar hurðin opnaðist þá hugsaði ég: „Það er ekkert sem ég get gert eða sagt, bara hoppaðu,“ sagði Ballie í samtali við Sky News. „Ég hef greinilega stokkið, ég man að fæturnir voru komir út og svo varð allt í hálfgerðri móðu. Ég lokaði augunum. Við virtumst fara mjög hratt.“

Vilhjálmur prins sendi Bellie hamingjuóskir

Eftir stökkið fékk Bellie hamingjuóskir frá Vilhjálmi Prins sem skrifaði henni fallega kveðju frá honum og Katrínu Prinsessu. 

„Vitandi að þú fagnaðir 100 ára afæli þínu með því að bruna á Ferrari í kringum Silverstone, þá kemur þetta okkur ekki á óvart!,“ skrifar Vilhjálmur til Ballie.

Í samtali við útvarpsstöð BBC segir Ballie að hún hefði ekki getað lifað svona lengi án þess að vera umkringd fólkinu sem hún elskar.

„Haldið ykkur uppteknum, hafið áhuga á öllu, verið góð við þau sem eru í kringum ykkur og leyfið þeim að vera góð við ykkur,“ ráðlagði hún hlustendum. „Og ekki gleyma að fara í partí.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert