Jordi Pujolá, rithöfundur og hagfræðingur, furðar sig á því í nýjum pistli hvers vegna Bláa Lónið sé ennþá opið. Hann segir að atvikið í íshelli við Breiðamerkurjökul vegi að orðspori Íslands.
Ferðaþjónustuiðnaðurinn er einn verðmætasti stólpinn í íslensku efnahagslífi. Höfum það hugfast. Seðlabanki Íslands reynir að kæla hagkerfið niður til að minnka verðbólgu og lækka vexti. Eftir að hafa tapað samkeppnishæfni í öðrum greinum eins og fiskveiðum og orkumálum, vegna hás verðs, er aðaluppspretta auðsins án efa ferðaþjónustan. En hún er háð erlendum gjaldmiðlum, sem ferðamenn koma með, og styðja okkar veiku íslensku krónu.
Að þessu sögðu, og í kjölfar nýlegs atburðar í íshelli við Breiðamerkurjökul er orðspor Íslands sem framandi en öruggs ferðamannastaðar í húfi. Bláa Lónið er eitt mikilvægasta einkafyrirtækið á Íslandi og umsvif þess í atvinnulífinu ótvíræð. En þrátt fyrir það gæti fyrirtækið aldrei bætt upp fyrir þann skaða sem það ylli ferðaþjónustuiðnaðinum ef eldgos kæmi upp við lónið. Því yrði ekki fyrirgefið það gáleysi og Ísland sem áfangastaður fengi að súpa seyðið af því svo árum skipti. Bláa Lónið og ráðgjafar þess eru nú þegar að vinna að áætlunum um baðlón á nýjum stað. Að mínu mati ætti íslenska ríkið líka að fara að íhuga framtíð virkjunarinnar á Svartsengi í stað þess að halda áfram að eyða milljörðum í varnargarða og skurði sem hraun getur eyðilagt á nokkrum mínútum. Ein af ástæðunum fyrir því að Seðlabankinn er tregur til að lækka vexti er vegna aukinna útgjalda og minni tekna í ferðaþjónustu. Að mínu mati mun alltaf hljótast meira tjón en ávinningur af eldgosahrinunni á Reykjanesi, og fyrst rýma á Grindavíkurbæ þá ætti líka að loka Bláa Lóninu. Ísland hefur ekki efni á stórslysi.