Play flýgur til Faro

Faro er höfuðborg Algarve-héraðs og er flugvöllurinn í um 15 …
Faro er höfuðborg Algarve-héraðs og er flugvöllurinn í um 15 mínútna fjarlægð frá miðborginni ef fólk ferðast með bifreið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska flugfélagið Play ætlar að hefja flug til Faro í Portúgal næsta vor. Faro er fjórði áfangastaður Play sem tilheyrir Portúgal sem flýgur nú þegar til Lissabon, Porto og í október hefst beint flug til portúgölsku ævintýraeyjunnar Madeira. Fyrsta ferðin til Faro verður farin 12. apríl 2025. 

„Við erum með þá stefnu að vera leiðandi í flugi til sólarlandaáfangastaða frá Íslandi og nýjasti áfangastaðurinn okkar Faro er enn ein viðbótin við þá glæsilegu áætlun sem við bjóðum til sólríkra landa í suðurhluta Evrópu,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í fréttatilkynningu.

Höfuðborg Algarve

„Íslendingar hafa tekið vel í sólarlandaflugin okkar og ég á ekki von á öðru en að ævintýralegt umhverfi Faro hljómi vel í eyrum veðurbarinna Íslendinga.“

Faro er höfuðborg Algarve-héraðs og er flugvöllurinn í um 15 mínútna fjarlægð frá miðborginni ef fólk ferðast með bifreið. Borgin er hvað þekktust fyrir heillandi strandlengju, sjávarréttastaði sem bjóða upp á ljúffengan matseðil og aldagamla byggingarlist.

Í nágrenni Faro má finna stórkostleg útivistarsvæði, mikilfenglegt landslag og einstakt dýra- og gróðurlíf. Næturlífið í Faro hefur einnig sinn sjarma og er það vel sótt af nemendum sem stunda háskólanám í borginni.  

Flogið verður tvisvar í viku, á laugardögum og á miðvikudögum frá apríl til 29. október 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert