Það er auðvelt að falla fyrir Taipei

Vegfarandi gengur fram hjá vegglistaverki í Taípei. Að njóta borgarinnar …
Vegfarandi gengur fram hjá vegglistaverki í Taípei. Að njóta borgarinnar snýst ekki síst um að njóta hversdagslífsins. Þar iðar allt af lífi en samt er allt líka í röð og reglu. AFP/Sam Yeh

Sérlegur svæðisstjóri ViðskiptaMoggans í Asíu reynir að ferðast vítt og breitt um sitt umdæmi, bæði til að fá útrás fyrir ævintýraþrána og eins til að þefa uppi efni sem gæti gagnast lesendum.

Nýverið lá leiðin frá ritstjórnarskrifstofu Moggans í Saigon yfir til Taipei og er tvennt sem stendur upp úr eftir ferðina: Annars vegar er Taívan stórlega vanmetinn áfangastaður og yndislegt land heim að sækja. Hins vegar er Regent-hótelið í Taipei svo merkilegt og framúrskarandi að það kallar hreinlega á að verja hálfri greininni í að fjalla um þennan gististað.

Minnisvarðinn um Chiang Kai-Shek hefur að geyma áhugavert safn á …
Minnisvarðinn um Chiang Kai-Shek hefur að geyma áhugavert safn á jarðhæðinni og ætti að höfða til sagnfræðinörda. AFP - I-Hwa Cheng


Ekki abbast upp á Scarlett

Í seinni tíð hef ég þróað með mér áhuga á virkilega áhugaverðum hótelum. Alla jafna uni ég mér ósköp vel á hvaða hóteli sem er svo fremi að rúmið sé þægilegt og rúmfötin hrein. Við leit á gististað vel ég iðulega ódýrasta kostinn og kaupi mér þá frekar góða kampavínsflösku fyrir mismuninn.

En sum hótel geta verið upplifun út af fyrir sig – sérstaklega ef þau eiga langa og merkilega sögu og hafa öðlast þann sess að verða orðin að stofnun í sínu samfélagi. Oft reyni ég að leita þessi hótel uppi og sendi þeim gjarnan línu til að athuga hvort tekið sé vel á móti forvitnum blaðamönnum.

Í Taipei þótti mér aðeins Regent Taipei koma til greina, og þá einkum vegna þess að kvikmyndir Lucs Bessons eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Franski leikstjórinn fékk að nota Regent-hótelið sem sögusvið myndarinnar Lucy, með Scarlett Johansson í aðalhlutverki, og gaf hótelinu þannig varanlegan sess í kvikmyndasögunni.

Regent Taipei er löngu orðið að stofnun í samfélaginu og …
Regent Taipei er löngu orðið að stofnun í samfélaginu og laðar hótelið til sín fólk í leit að lúxus og þægindum. Regent


Kannski þykir lesendum það nördalegt af mér, en á ferðum mínum leita ég stundum uppi tökustaði úr mínum uppáhaldsmyndum, og gerði ég mér t.d. sérstaka ferð á Grand Hotel í Mexíkóborg, þar sem byrjunaratriði Bond-myndarinnar Spectre var tekið upp, og fannst það toppurinn á tilverunni að smakka Suntory-viskí á bar Park Hyatt-hótelsins í Tókýó þar sem Bill Murray – og einmitt fyrrnefnd Scarlett – felldu hugi saman í Lost in Translation.

Fyrir mig, fullorðinn manninn, er upplifunin af því að stíga svona inn í sögusvið kvikmynda sem ég held upp á líklega svipuð því sem lítil börn upplifa þegar þau koma í Disneygarð og sjá prinsessukastalann.

Til að gera langa sögu stutta vildu þau hjá Regent endilega að ég fengi að upplifa hótelið og buðust til að hýsa mig í nokkra daga.

Kvikmyndin Lucy var að stórum hluta tekin upp á Regent-hótelinu.
Kvikmyndin Lucy var að stórum hluta tekin upp á Regent-hótelinu.

Glæsibragur 9. áratugarins

Áður en lengra er haldið er ágætt að fjalla stuttlega um Regent-hótelin. Keðjan á sér langa sögu og opnaði sitt fyrsta hótel á Havaí árið 1970. Kaflaskil urðu síðan með opnun Regent í Hong Kong árið 1981 en það hótel þótti bera af og var lengi frægt fyrir að vera besta hótel í heimi.

Keðjan hefur þróast mikið á undanförnum 50 árum og bæði stækkað við sig og minnkað. Í dag eru hótelin tíu talsins, flest þeirra í Kína og nærsveitum, en 42 hótel til viðbótar hafa á einhverjum tímapunkti verið hluti af Regent-fjölskyldunni, þar á meðal Beverly Wilshire þar sem Julia Roberts og Richard Gere hreiðruðu um sig í myndinni Pretty Woman. Núna virðist keðjan aftur í vaxtarfasa, nýbúið að gera upp eignina í Hong Kong og innan skamms að splunkuný hótel verða opnuð m.a. í Kyoto, Balí, Jeddah og Santa Monica. Held ég að Regent megi alveg vera á radarnum hjá þeim Íslendingum sem kunna gott að meta.

Ferðin upp á topp Taipei 101 er peninganna virði. Það …
Ferðin upp á topp Taipei 101 er peninganna virði. Það má meira að segja fara í göngutúr á þakinu. Ljósmynd/Wikipedia-Kenneth Lee (CC)

Um Regent Taipei er það að segja að hótelið er einmitt orðið stofnun í samfélaginu. Smíði hótelsins lauk árið 1990 og byggingin er svolítið barn síns tíma en það eimir skemmtilega eftir af glæsibrag 9. áratugarins. Á kvöldin fyllist bílastæðið fyrir framan hótelbygginguna af fínum bílum, og greinilegt að heldri borgarar Taipei eru fastagestir á rómuðum veitingastöðum hótelsins.

Ég gæti dottið í þá gildru að telja upp framúrskarandi heilsulindina, sundlaugina þar sem boðið er upp á útibíó öll kvöld, himinhátt þjónustustigið eða fyrsta flokks matseldina – en slíkt má finna víða annars staðar. Það sem hótel eins og Regent Taipei hafa er persónuleiki sem verður ekki til af sjálfu sér.

Heilsulindin á Regent Taipei er hreint út sagt framúrskarandi.
Heilsulindin á Regent Taipei er hreint út sagt framúrskarandi. Regent

Hið ljúfa hversdagslíf

Er vissara að ég skjalli ekki Regent-hótelið meira og segi lesendum í staðinn frá því hvað Taipei er mergjaður áfangastaður. Borgin er samt ekki af þeim toga að ferðamenn þurfi að hoppa og skoppa á milli heimsfrægra kennileita: að vera í Taipei snýst meira um að njóta mannlífsins og uppgötva eitthvað sjarmerandi fyrir tilviljun, inni í húsasundi eða á bak við musteri.

Yfirbragð borgarinnar minnir sumpart á Tókýó og Seúl. Allt er í röð og reglu, heimamenn prúðir og tillitssamir, og annar blær er á samfélaginu í Taipei en hjá frændunum hinum megin við Taívansund.

Sagnfræði- og stjórnmálanördar ættu að hafa gaman af minnismerkinu um Chang Kai-Shek og safninu sem er þar á jarðhæðinni og svo vilja heimamenn endilega að erlendir gestir heimsæki Þjóðarhallarsafnið þar sem sjá má fornminjar og fagurlega útskorið jaði. Merkilegt nokk stendur þar upp úr grænn jaðimoli í laginu eins og kálhaus og annar sem lítur út eins og vandlega steikt grísapura. Það má líka mæla með ferð upp í toppinn á skýjakljúfnum 101 Taipei, frægasta kennileiti borgarinnar. Byggingin er mergjuð og áhugamenn um verkfræði kikna í hnjánum þegar þeir standa andspænis risavöxnum pendúlnum sem búið er að skorða efst í turninum til að verja hann gegn jarðskjálftum. Turninn stendur ofan á lúxusverslunarmiðstöð og aragrúi af búðum allt í kring ef ferðalangar vilja versla. Kaupa þarf sérstakan miða til að komast á allra efstu hæð turnsins og adrenalínfíklar geta meira að segja fengið að festa á sig öryggisbelti og spranga um þakið.

Fjölskylduvæn sundlaug á þaki Regent Taipei býður m.a. upp á …
Fjölskylduvæn sundlaug á þaki Regent Taipei býður m.a. upp á bíósýningar öll kvöld. Regent

Mér finnst ég hafa rétt byrjað að uppgötva mína næstu uppáhaldsborg og ég gæti hreinlega hugsað mér að setjast að í Taipei um skeið. Í næstu heimsókn ætla ég að passa upp á að gefa mér tíma til að líta á bæinn Jiufen, rétt austur af stórborginni, en byggðin þar þykir einstaklega falleg og minnir á japanska Ghibli-teiknimynd. Eins langar mig að fara pílagrímsför í viskíverksmiðju Kavalan sem finna má á austurströnd eyjunnar.

Ég veit ekki hvort þessi stutta grein muni duga til að sannfæra lesendur um að taka fyrstu vél til Taívan, en mér finnst ég greina merki þess að straumurinn sé aftur farinn að liggja til Austur-Asíu og þá ekki síst til Japans. Þeir sem eru á annað borð að skipuleggja ferðalag á þessar slóðir ættu endilega að taka nokkurra daga stopp í Taipei, og jafnvel ferðast hringinn í kringum Taívan. Er ekki langt að fara þegar fólk er komið í þennan heimshluta en flugið tekur þrjá tíma frá bæði Saigon, Peking og Tókýó, en fjóra tíma frá Bangkok.

Blaðamaður var gestur Regent Taipei. Skoðanir blaðamanns eru hans sjálfs og hafði Regent Taipei engin áhrif á efnistök greinarinnar.

Dæmigert herbergi á Regent. Upplyft svæði með tatami-mottu er við …
Dæmigert herbergi á Regent. Upplyft svæði með tatami-mottu er við gluggann, með litlu borði og stólum. Ýmsar útfærslur af herbergjum eru í boði. Regent
Veitingastaðurinn Silks House gerir kantóknskri matargerðarlist afar góð skil.
Veitingastaðurinn Silks House gerir kantóknskri matargerðarlist afar góð skil. Regent
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert