Bandarísku ferðahandbókahöfundarnir og sjónvarpsmennirnir Rick Steves og Cameron Hewitt gáfu nýverið út sjónvarpsþátt um Ísland þar sem þeir keyrðu hringinn í kringum landið og heimsóttu hina ýmsu útsýnisstaði og náttúruperlur.
Hewitt birti í kjölfarið færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði frá ferðalagi félaganna um hringveginn, en þeir voru sammála um að leiðin væri ein sú allra fegursta í Evrópu.
Félagarnir tóku hringveginn á sex dögum, en leiðin er samtals 1.321 km á lengd og liggur um alla landshluta að undanskyldum Vestfjörðum og Miðhálendinu.
„Við tökur á glænýju sjónvarpsefni síðasta sumar fórum við hringinn í kringum Ísland um hringveginn ... 700 mílur á sex dögum. Það þýddi marga fjögurra eða fimm tíma akstursdaga í röð, ásamt mjög annasömum upptökum af hrífandi náttúruundum og heillandi þjóðsöfnum, þar sem oftast var gist í eina nótt á hverjum stað. Þetta var í byrjun júlí sem þýddi að dagsbirtan var endalaust – sem gerði það auðveldara fyrir okkur að vinna og keyra langt fram á kvöld, en í raun of auðvelt svo við gerðum okkur ekki einu sinni grein fyrir því hversu þreyttir við vorum að verða fyrr en við vorum orðnir örmagna,“ skrifar hann í færslunni, en félagarnir voru oftar en ekki að keyra í hlaðið hjá hótelunum um níu eða tíu leytið á kvöldin og þá voru allir veitingastaðir lokaðir og því enduðu þeir oftar en ekki á því að fá sér pylsu á næstu bensínstöð.
„Sem sagt, þetta var frábær vegferð sem hæfir hinum dásamlega hringvegi. Hvert stopp, hver dagur og hver beygja á leiðinni bauð upp á enn meiri töfra en sú síðasta. Á Suðausturlandi hoppuðum við í gúmmíbát og sigldum á milli ísjaka í jökullóni. Það var eina stoppið á allri leiðinni þar sem við fengum hrikalegt veður ... og það var samt guðdómlegt,“ bætir hann við.
Í færslunni segir Hewitt einnig frá því þegar þeir keyrðu meðfram austurströndinni á Austfjörðum þar sem þeir urðu agndofa af fegurðinni. Þegar þeir voru hálfnaðir með veginn keyrðu þeir vestur með norðurströndinni og stoppuðum við Mývatn sem hann líkti við Yellowstone í Bandaríkjunum. Að lokum komu þeir við í torfhúsunum við Glaumbæ og fengu fegurðina á Snæfellsnesi beint í æð.
„Eftir 800 mílur vorum við sammála um að hringvegurinn hlyti að vera fegursta leið í Evrópu,“ skrifaði hann að lokum.