Íslenskur þyrluflugmaður gaf vinningsupphæðina til góðgerðamála

Gísli Matthías er uppfullur af tilhlökkun í hvert sinn sem …
Gísli Matthías er uppfullur af tilhlökkun í hvert sinn sem hann sest undir stýri. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þyrluflugmaðurinn Gísli Matthías Gíslason veit fátt skemmtilegra en að setjast undir stýri á þyrlu og halda á stað upp í háloftin. Mjög ungur átti hann sér draum um að verða flugmaður og var það frændi hans, Benóný Ásgrímsson þyrluflugstjóri, sem kveikti flugáhugann hjá honum. Benóný er landsþekktur flugmaður og starfaði um árabil sem þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni.

Gísli Matthías upplifir æskudrauminn í flugi nánast alla daga, ef veður leyfir, og flýgur með ferðamenn vítt og breitt um landið og kynnir þá fyrir stórbrotinni náttúru þessarar fallegu eyju.

Á ævintýrum sínum um háloftin hefur Gísli Matthías heimsótt öll helstu náttúruundur Íslands og fangað einstök augnablik á filmu sem hann deilir gjarnan með áhugasömum á samfélagsmiðlum. Ljósmynd sem hann tók af áströlskum hjónum á Mýrdalsjökli undir árslok í fyrra vakti mikla athygli og varð hlutskörpust í ljósmyndakeppni hjá hinu virta þyrlutímariti HeliOps á dögunum.

Gísla Matthíasi tókst að fanga einstakt augnablik.
Gísla Matthíasi tókst að fanga einstakt augnablik. Ljósmynd/Gísli Matthías Gíslason

Seldi bílinn og hóf nám

Hvenær kviknaði áhuginn?

„Ég fylgdist spenntur með öllum fréttum af Landhelgisgæslunni sem ungur strákur og greip því tækifærið til að læra flug um leið og tækifæri gafst. Í kringum 1994 var auglýst að það væri kennsluþyrla á landinu. Ég fór rakleitt í prufutíma og heillaðist strax. Að honum loknum ákvað ég að selja bílinn og hefja nám. Það var nú ekki flóknara en það.”

Hvað er það skemmtilegasta við flugin?

„Þetta er bara svo skemmtilegt. Náttúran á Íslandi gerir vinnuna auðvelda, sérstaklega þegar viðrar vel. Ég er alltaf spenntur, þetta verður aldrei leiðigjarnt. Þegar ég á flug eldsnemma á laugardagsmorgni er ég orðinn vel spenntur á föstudagskvöldi.”

Hvert flýgurðu helst?

„Ég fer reglulega í útsýnisflug af ýmsum toga en upp á síðkastið hef ég verið mikið í svokölluðum skíðaflugum (e. Heli skiing) þar sem ég flýg með skíðamenn upp á topp. Það eru uppáhaldsflugin mín, enda margir sem koma ár eftir ár eftir ár.”

Þyrluframleiðandinn Airbus bauð Gísla Matthíasi í nokkurra daga heimsókn til …
Þyrluframleiðandinn Airbus bauð Gísla Matthíasi í nokkurra daga heimsókn til að skoða verksmiðjur sínar ásamt tveimur öðrum flugmönnum frá Bandaríkjunum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Flaug með Tom Cruise

Gísli Matthías hefur ótal sinnum flogið yfir Ísland og á margar eftirminnilegar ferðir að baki.

Hvert er eftirminnilegasta flugið?

„Úff, þau eru svo mörg!

Það var svolítið gaman að fljúga með Tom Cruise. Hann var staddur á Íslandi í heila tvo daga fyrir örfáum árum síðan. Við vorum bara að fljúga um og leika okkur. Hann er þyrluflugmaður sjálfur og gátum við því spjallað alveg út í eitt. Það er gaman að segja frá því að ég hef þá reglu að taka aldrei mynd af mér með kúnnanum en á öðrum degi okkar þá bað hann mig um mynd af okkur saman. Mér fannst það gaman.“

Ertu adrenalínfíkill?

„Nei, alls ekki. Ég er alltaf með plan B, C og D. Við erum sérstakur samfélagshópur, þyrluflugmenn, en alls ekki adrenalínfíklar. Þá væri auðvelt að drepa sig á þessu.”

Glæsilegt útsýni.
Glæsilegt útsýni. Ljósmynd/Gísli Matthías Gíslason

Vildu upplifa íslenskt hríðarveður

Gísli Matthías ferðast reglulega með ferðamenn sem koma hvaðanæva að úr heiminum til að skoða land og þjóð. Í nóvember á síðasta ári flaug hann með áströlsk hjón sem vildu ólm komast í tæri við alvöru íslenskt hríðarveður. Þann dag fangaði Gísli Matthías vinningsmyndina.

„Þetta var mjög fyndið. Hjónin sögðust hafa komið sérstaklega til Íslands út af veðrinu og æðsti draumur þeirra var að lenda uppi á jökli. Það var hvasst og mjög kalt þennan dag, ég verð að viðurkenna að ég hafði smá áhyggjur af þeim, en þau nutu sín í -10 gráðum og fjúki. Þetta var æðisleg stund, dagurinn bjartur og fallegur. Ég tók því upp símann og smellti af nokkrum myndum.”

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að taka þátt í ljósmyndakeppni?

„Þetta er virkt blað og ég hef flogið með einn eiganda þess. Ég sendi því einstaka sinnum einhverjar myndir og hafa nokkrar þeirra birst í blaðinu. Þegar ég fékk tilkynningu um að ég hefði unnið þá mundi ég ekkert hvaða mynd það var sem vann.“

Voru einhver verðlaun fyrir fyrsta sætið?

„Jú, það voru einhver peningaverðlaun en mér varð svo um að sjá þetta og sagði þeim bara að gefa fjárhæðina til góðgerðarmála úti. Ég vildi ekkert vera að flækja þetta.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert