„Ég myndi fljúga til Íslands bara fyrir bakkelsið“

Íslensku bakaríin heilluðu fjölmiðlakonuna Regan Stephens upp úr skónum.
Íslensku bakaríin heilluðu fjölmiðlakonuna Regan Stephens upp úr skónum. Samsett mynd

Fjölmiðlakonan Regan Stephens varð heilluð af íslenskum bakaríum í fyrstu heimsókn sinni til landsins árið 2018. Hún hafði farið á kaf í matarmenningu landsins á ferðalagi sínu en segir rúsínuna í pylsuendanum hafa verið þegar hún kynntist íslenskum bakaríum undir lok ferðarinnar.

„Ég gerði doktorsrannsókn á hvar og hvað ég ætti að borða í fjögurra daga heimsókn minni til þessa afskekkta lands. Ég komst að því að íslenska lambið á sér enga hliðstæðu, þökk sé friðsælu sumrunum sem dýrin verja í sveitinni að borða kryddjurtir og ber; sjávarfangið er undirstaða í landinu; og ég ætti ekki að missa af skyri, lakkrísi og pylsum,“ skrifaði Stephens í pistli sem hún birti á Travel + Leisure

„Nokkrum dögum fyrir brottför sagði vinkona mín Melissa mér þó frá einni íslenskri nauðsyn sem ég þyrfti að bæta við á listann minn – kanilsnúð sem hún segir vera besta sætabrauð sem hún hafi borðað,“ bætir hún við, en Stephens viðurkennir að í fyrstu hafi hún verið efins, en allar efasemdir hurfu um leið og hún tók fyrsta bitann af kanilsnúð frá Brauð & Co.

„Þó að kanilsnúðurinn (bæði klassíska útgáfan og útgáfa með bláberjalakkrís og karamellu pekanhnetum) sé aðal stjarnan er allt bakkelsið í Brauð & Co. eitt og sér verðugt ferðalags til Íslands,“ segir hún. 

Því næst útskýrir Stephens að frá fyrstu heimsókn sinni hafi hún kynnst því betur og betur hve öflugri bakarísmenningu Ísland býr yfir. „Landinu var stjórnað af krúnu Danmerkur um aldir, allt til 1918, svo það er nóg af skandinavískum áhrifum í matreiðslulandslaginu. En auðvitað hefur það landslag einnig þróast og mótast af aðgengilegum auðlindum Íslands og staðbundnu hráefni þess,“ segir hún.

Tók saman uppáhaldsbakaríin á Íslandi

Stephens setti saman leiðarvísi fyrir þá sem vilja sökkva sér ofan í bakarísmenningu landsins og upplifa allt það besta sem staðirnir hafa upp á að bjóða. 

„Að sjálfsögðu byrjar þú í Brauð & Co. og ferð svo á BakaBaka, iðandi kaffihús sem er opið allan daginn þar sem þú getur fengið þér kaffi með ljúffengri kardimommubollu og sneið af vínarbrauði og öðru sætabrauði undir dönskum áhrifum,“ skrifar Stephens.

„Í Sandholti, á aðalverslunargötunni Laugavegi, er fjórða kynslóð bakara á fullu að baka brauð úr spelti, rúgi og reyktum graskersfræjum ásamt alls kyns bollum og árstíðabundnum sérréttum,“ bætir hún við. 

„Elsta bakarí Íslands, Bernhöftsbakarí, er frá árinu 1834 og er alveg þess virði að staldra við þar og fá sér mjúka kringlu og kíkja á vandaðar kökur. Svo er það kaffihúsið og bakaríið Hygge sem er þekkt fyrir skemmtilega og síbreytilega sérrétti eins og croissant með piparkökum og karamellum eða kókosrjóma með lakkrís og hindberjamarengs,“ skrifar Stephens. 

„Nýopnaða bakaríið Sweet Aurora er fyrsta franska bakaríið á Íslandi,“ útskýrir Stephens og bætir við að eigandinn töfri fram franskt bakkelsi og sætabrauð sem gleður bragðlaukana.

Að lokum mælir Stephens með því að fólk leggi leið sína í Bláa Lónið og smakki kleinur á The Retreat-hótelinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert