150 ára drottningaafmæli á Grikklandi

Stöllurnar á góðri stund.
Stöllurnar á góðri stund. Skjáskot/Instagram

Góðvinkonurnar Nína Dögg Filippusdóttir, Selma Björnsdóttir og Björk Eiðsdóttir hafa notið sín í hitanum á Grikklandi að undanförnu. Stöllurnar eiga það sameiginlegt að fagna því á þessu ári að verða hálfrar aldar gamlar. Nína Dögg varð fimmtug í febrúar, Selma í júní og Björk verður fimmtug á föstudaginn kemur. Föstudaginn 13. september. 

Þær kvöddu kuldann og leiðindaveðrið sem hefur herjað á íbúa höfuðborgarsvæðisins undanfarna daga til að njóta veðurblíðunnar í einu sögufrægasta landi í heimi. 

Nína Dögg birti myndaseríu á Instagram-reikningi sínum á dögunum og gaf skemmtilega innsýn í ferðalag vinkvennanna.

„Grikkland,“ skrifaði leikkonan við færsluna. 

Spennandi vetur er fram undan hjá Nínu Dögg en hún mun meðal annars fara með aðalhlutverk í jólasýningu Þjóðleikhússins, Yerma, sem verður frumsýnd á annan í jólum. Leikstjóri sýningarinnar er eiginmaður Nínu Daggar, Gísli Örn Garðarsson. 

Leikkonan, söngkonan og leikstjórinn Selma er á fullu í sínum verkefnum en í afmælisgrein í Morgunblaðinu kom fram að hún væri í mörgum vinnum en hún er líka athafnastjóri hjá Siðmennt. Björk er upplýsingafulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar en þessar þrjár eðalkonur eru búnar að fylgjast að síðan þær voru litlar. 

Af myndunum að dæma kunna þessar drottningar að gera sér dagamun og ekki síst þegar 150 ára afmæli er fagnað! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert