Kristján heimsótti Norður-Kóreu

Kristján stillti sér upp fyrir framan styttu af leiðtoga landsins.
Kristján stillti sér upp fyrir framan styttu af leiðtoga landsins. Ljósmynd/Úr einkasafni

Kristján H. Kristjánsson fyrrverandi lögreglufulltrúi er ferðaglaður maður. Hann hefur heimsótt 95 fullvaldaríki og sjálfstjórnarsvæði í gegnum ævina og ferðaðist alla leið til Norður-Kóreu fyrir örfáum árum og kynnti sér menningarheim sem er mörgum hulin ráðgáta.

Kristján hafði lengi íhugað að heimsækja Norður-Kóreu og segist hafa sérstakan áhuga á að reyna að skilja ólíkar þjóðir.

Hefur þig alltaf langað að heimsækja Norður-Kóreu?

„Nei, en ég fór að spá í það nokkrum árum áður og þá hvernig væri best að ferðast þar. Það er skylda að fara með ferðaskrifstofu og reyndi ég að finna þá bestu. Mér leist best á Koryo Tours, sem var stofnuð árið 1993 af tveimur Bretum. Ferðaskrifstofan er staðsett í Peking og býður upp á fjölbreyttar ferðir til Norður-Kóreu. Ég valdi það sem kallast „The May Day and East Co­ast Tour, en besti ferðatíminn er á vorin.”

Hvaða væntingar hafðir þú áður en þú lagðir af stað?

„Eins og í öðrum ferðalögum reyndi ég að ímynda mér allt sem gæti farið úrskeiðið, m.a. slys og veikindi, og hvaða varúðarráðstafanir ég gæti gert og viðbrögð. Á ferðalögum finnst mér aðal hætturnar vera umferð og veikindi, sérstaklega vegna matar. Í leiðbeiningunum fyrir ferðina var sagt að sumir veikjast vegna matareitrana þannig að ég tók með mér niðursoðinn mat ef ég hafði einhverjar efasemdir um matinn. Besti maturinn sem ég fékk var grillað kjöt, ég bragðaði einnig á ljúffengri súkkulaðipítsu. Nokkrir í ferðahópnum veiktust en ekki alvarlega og gátu lokið ferðinni. Ekkert fór úrskeiðis hjá mér. Áður en ég fór í ferðina sá ég á samfélagsmiðlum stutt myndbönd um neikvæða reynslu sumra ferðamanna. Ferðamenn upp­lifa auðvitað lönd með ólík­um hætti en ég held að marg­ir hafi aðeins verið í stutt­an tíma í höfuðborg­inni og ferðast með lé­leg­um ferðaskrif­stof­um.“

Hvað kom þér einna helst á óvart?

„Framtíð þjóðar er æskan og við vitum ekki hvaða áhrif hún muni hafa. Mér leist vel á æskuna í Norður-Kóreu, sem ég held að muni hafa jákvæð áhrif fyrir þjóðina. Þó svo að aðstaða fyrir þau muni vera mismunandi eftir svæðum var það sem ég sá mjög gott. Ég heimsótti enskutíma í barnaskóla þar sem þau voru að læra að ræða saman. Seinna þegar ég var í Suður-Kóreu ræddi ég við kennara sem er með enskukennslu. Hann sagði að vandamálið þar væri að börn lærðu ekki að tala saman á ensku heldur aðeins stafsetningu og málfræði vegna mjög þungs prófs fyrir framhaldsnám. Ég heimsótti Songdowon, sem eru glæsilegar alþjóðlega sumarbúðir sem að ríflega tíu þúsund börn sækja árlega. Börnin fræðast um sjávardýr, stunda íþrótta og marsera. Þau læra einnig fjallaklifur og á skíða. Það kom mér á óvart að sjá teiknimyndir Walt Disney á veggjum þarna vegna þess að Bandaríkin og Norður-Kórea eru óvinaríki. Einnig sá leik­sýn­ingu í Mangyongdae-skóla­barna­höll­inni sem var um Mjall­hvíti og dverg­ana sjö og var út­lit henn­ar og leik­bún­ing­ar eins og fyr­ir­tæki hans teiknaði þá.“

Kristján fékk að taka nokkrar myndir af lífinu í Norður-Kóreu.
Kristján fékk að taka nokkrar myndir af lífinu í Norður-Kóreu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þetta var ákveðin fjölmiðlaafeitrun

Kristjáni leið vel í Norður-Kóreu og fannst jákvætt að hafa ekki aðgang að internetinu.

Hvernig leið þér í Norður-Kóreu?

„Mjög vel. Þetta var ákveðin fjöl­miðlaafeitrun. Hér­lend­is eru dag­lega mikið af nei­kvæðum frétt­um og umræður á sam­fé­lags­miðlum. Þarna hafði ég ekki aðgang að in­ter­net­inu og horfði ekki á er­lend­ar frétt­ar­stöðvar þó svo að það mun hafa verið mögu­legt. Mér fannst það mjög gott og í sam­ræmi við rann­sókn­ir sem ég hef lesið um áhrif nei­kvæðra frétta á geðheil­brigði. Það væri ágætt ef fjöl­miðlar myndu leggja meiri áhersl­ur á já­kvæðar frétt­ir.“

Hef­ur dvöl­in í Norður-Kór­eu breytt heims- og eða lífsviðhorfi þínu?

„Með ferðalögum kynnist ég betur öðrum þjóðum og sjálfum mér. Norður-Kórea virðist mjög framandi en eftir að hafa heimsótt mörg lýðræði, einræði og trúarríki finnst mér lítill munur á fólki. Flestir virðast sækjast eftir öryggi, stöðugleika og hamingju en með ólíkum hætti. Það er auðvitað mjög erfitt fyrir mig eftir stutt ferðalag að meta ástandið, en ég held að það sé skárra en áður þegar voru stríð, náttúruhamfarir og hungursneyð. Samkvæmt bók sem ég keypti þarna virðist ástandið verst vegna flóða stundum í norðurhluta landsins þar sem ég fór ekki. Þegar ég var í Suður-Kóreu las ég að sumir dreifa fölskum neikvæðum fréttum um Norður-Kóreu.”

Hvaða staði heimsóttir þú?

„Ég ferðaðist með rútu um 500 kílómetra stranda á milli og að landamærum Suður-Kóreu. Ég heimsótti meðal annars skólabarnahöllina, áburðar- og sprengiefnaverksmiðju, alþjóðlegar sumarbúðir fyrir börn, skíðasvæði, verslunarmiðstöð, sirkus, barnaskóla, grafhýsi Kim II Sung og Kim Jong Il og safn tileinkað þeim, landsbókasafnið, stríðssafn, hlutlausa landamærasvæðið, gosdrykkjaverksmiðju og fylgdist með hvað íbúar gera 1. maí.”

Juche er hug­mynda­fræði Kim Il Sung og miðast ártöl við fæðinga­ár hans. Á turni um þessa hug­mynda­fræði sá ég hvaða áhrif hún hef­ur haft er­lend­is t.d. var stofnaður rann­sókn­ar­hóp­ur í Kristíaníu árið 1980. Ég skoðaði einnig safn um stríðið gegn Japönum og seinna Kór­eu­stríðið (e. The Victori­ous Fat­herland Li­berati­on War Muse­um).

Seinna sá ég safn í Suður-Kór­eu um sama stríð sem var bara eins og vöru­skemma. Þar sá ég að Íslend­ing­ar gáfu matarol­íu í stríðið. Ég sendi fyr­ir­spurn til safns­ins um hvað var gert við lýsið og fékk það svar að það var notað til að fram­leiða lyf m.a. fyr­ir bruna­sár. Ég las að lýsi hef­ur verið notað til að fram­leiða sprengju­efni fyr­ir hernað þannig að ég hef ekki hug­mynd um hvað gert var við lýsið okk­ar.”

Börn í Norður-Kóreu.
Börn í Norður-Kóreu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Mjög strangar reglur

Í Norður-Kóreu þurfa íbúar og ferðamenn að fylgja ströngum reglum.

Þurft­ir þú að fylgja ákveðnum regl­um, ef svo, hvernig hljómuðu þær?

„Áður en ferðin hófst fjallaði ferðaskrifstofan mjög ítarlega um hvernig maður á að haga sér. Sumum þætti ýmislegt framandi og andstætt viðhorfum þeirra. En ef að menn hyggjast ekki fara eftir þeim þá eiga þeir ekki að fara.

Það þarf meðal annars að meðhöndla dagblöð með mynd af leiðtogum og taka myndir af styttum af þeim með sérstökum hætti. Einnig er bannað að yfirgefa hótel án leiðsögumanns. Ekki má taka myndir af hermönnum né byggingaframkvæmdum og þú þarft alltaf að fá leyfi leiðsögumanns til að taka myndir.

Ekki er hægt að nota SIM-kort nema það sem keypt er í Norður-Kór­eu, sem ég gerði ekki. Það er stranglega bannað að vera með GPS-búnað en ég fékk leyfi til að koma með farsím­ann minn sem er með staðsetn­ing­ar­kerfi. Það eru einnig tak­mark­an­ir á stærð aðdrátt­ar­linsa.

Þó svo að flestallt sé innifalið í ferðaverðinu er gott að taka með sér kín­versk­an og banda­rísk­an gjald­eyri í lág­um upp­hæðum m.a. til þess að kaupa muni og borga leiðsögu­mönn­um og bíl­stjóra í lok ferðar. Ekki er hægt að nota greiðslu­kort.“

Drengir í fótbolta.
Drengir í fótbolta. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvernig var fólkið?

„Ég hef séð á sam­fé­lags­miðlasíðum einstaka mynd­bönd um Norður-Kór­eu þar sem sagt er að mjög fátt eða ekk­ert fólk búi þarna. Ég held að þeir sem geri slík mynd­bönd hafi aðeins verið í stutt­an tíma í höfuðborg­inni. Ég sá mjög margt fólk þar og ann­ars staðar. Bæði í vinnu og við afþreyingu eins og í öðrum lönd­um. Ég sá hóp­ að gera morgu­næf­ing­ar, fylgdist með brúðkaupi og sá fólk versla og skemmta sér.“

Brúðkaup í Norður-Kóreu.
Brúðkaup í Norður-Kóreu. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Mesta hætta sem ég hef lent í var í Bost­on”

Kristján hefur ferðast vítt og breitt um heiminn og upplifði ákveðið menningarsjokk þegar hann heimsótti Kína og Egyptaland.

Mesta menningarsjokkið?

„Fyrsta skiptið sem ég kom til Kína var mér boðið að segja frá Íslandi í skóla fyr­ir munaðarlaus börn í Lijiang. Mér brá þegar ég gat í fyrstu ekki fundið Ísland á korti vegna þessa að það er yf­ir­leitt of­ar­lega fyr­ir miðju. Þarna var það efst í vinstra horn­inu og það kenndi mér að fólk sér jörðina frá mis­mun­andi sjón­ar­horn­um.

Ég fékk einnig menn­ing­ar­sjokk þegar ég kom til Egypta­lands og sá að marg­ir virt­ust ham­ingju­sam­ir þrátt fyr­ir að búa við mjög mikla fá­tækt. Á Íslandi kvarta marg­ir þótt að þeir hafi það miklu betra en fá­tækt fólk í mörg­um lönd­um. Mér sýn­ist að ham­ingja felst meðal ann­ars í góðum sam­fé­lög­um þar sem hefðir og trú­ar­brögð sam­ein­ar fólk.“

Hef­ur þú lent í ein­hverju hættu­legu á ferðalagi í út­lönd­um?

„Mesta hætta sem ég hef lent í var í Bost­on. Ég sat í aft­ur­sæti leigu­bíls þegar bíl­stjór­inn rétti mér flösku af rommi sem ég afþakkaði. Þá tryllt­ist hann, enda tel ég líklegt að hann hafi verið und­ir áhrif­um áfeng­is. Hann ók á ofsahraða á móti ein­stefnu, yfir á rauðu ljósi og rásaði á bryggju rétt við sjó­inn. Ég var mjög hrædd­ur og hugsaði hvernig ég gæti sloppið lif­andi úr bíln­um. Þá skipaði ég hon­um að stoppa með löggurödd sem hann gerði. Ég henti nokkr­um seðlum til hans og hljóp út. Fann leigu­bíl­stjóra sem mér sýnd­ist vera ódrukk­inn sem ók mér á hót­elið. Ég hafði tekið eft­ir núm­eri leigu­bíls­ins og lét lög­regl­una vita.“

Hvert dreym­ir þig um að fara?

„Flest­ir draum­ar mín­ir hafa ræst þannig að ég er að rembast við að dreyma eitt­hvað nýtt.“

Hvaða ferðalög eru á dag­skrá?

„Ég er núna bara að grúska og pæla. Ég pæli mikið í hvað ég vil fræðast í ferðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert