Á þessum árstíma eru eflaust margir að skipuleggja borgarferðir eða jafnvel farnir að hugsa um staði til að heimsækja fyrir jólin. Edinborg hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá Íslendingum enda falleg borg og ekki of langt að fara.
Í Edinborg er mikil saga, skemmtilegir pöbbar og flottar verslanir. Mikið framboð er af gistingu og getur verið erfitt að velja réttu staðina til að dvelja á. Hér fyrir neðan eru fimm frábær hótel sem vert er að skoða.
100 Prince's Street er nýtt lúxushótel með frábæru útsýni yfir Edinborgarkastalann. Á hótelinu eru aðeins þrjátíu herbergi sem eru í skoskum stíl. Það má búast við rauð- og grænköflóttu mynstri um allt hótelið, hlýlegum leðursófasettum og eldri olíumálverkum.
The Virgin Hotel er staðsett í eldri hluta borgarinnar á fallegu götunni Victoria Street. Hótelið er stórt en þar eru 222 falleg herbergi í fölum, kremuðum tónum með rauðum áherslum. Veitingastaðurinn og barinn á hótelinu eru mjög vinsælir svo það þarf ekki að fara langt fyrir góðan kvöldverð.
House of Gods, eða hús Guðanna, er sennilega ekki fyrir hvern sem er. En fyrir þau sem eru fyrir dökk rými skreytt þungum velúrgluggatjöldum, fræga Gucci „Heron“ veggfóðrinu og dökkan við ættu að vera á hárréttum stað. Það eru 22 herbergi á hótelinu, það verður seint sagt að þau séu stór en það er þó mikið í þau lagt. Kokteilarnir á hótelbarnum þykja frumlegir og einstaklega góðir.
Eden Locke er íbúðarhótel fyrir þá sem vilja staðsetja sig í miðbænum. Ungt fólk sækir mikið í hótelið þar sem þú finnur pastellitaða veggi, bast-stóla, suðrænar plöntur og ljós viðargólf. Kaffihúsið á þriðju hæð hótelsins, Hyde & Son breytist í líflegan bar um kvöldið þar sem hægt er að fá frábæra kokteila, gin og tónik og bjór. Í herberginu finnurðu Smeg-eldavél, nóg af góðu te-i og lista yfir þær matarverslanir með „heimsendingu.“ Því lengur sem þú dvelur á hótelinu, því ódýrara verður það. Þar má meira segja nálgast þvottavél.
Intercontinental Edinburgh The George er frábærlega vel staðsett. Hótelið er stærra en það lítur út fyrir að vera en það eru 200 herbergi á hótelinu. Í sumum herbergjunum má búast við frábæru útsýni, sem flest eru í hlýjum gráum og ljósum litatónum. Upprunalegur arkitektúr byggingarinnar er vel varðveittur og passar vel við húsgögn úr leðri og velúr.