5 æðislegir vínbarir í New York

Það er heilmikið úrval af góðu víni í New York.
Það er heilmikið úrval af góðu víni í New York. Ljósmynd/Samsett

Í hinni risastóru New York er vín- og veitingaheimurinn mikill frumskógur og mikið um einstaklega góða staði. Það getur verið skemmtilegt að stoppa á hlýlegum vínbar fyrir eða eftir mat, fá sér smárétt og halda svo áfram. Þessir staðir eiga það flestir sameiginlegt að æðislegir tapas-smáréttir eru í boði með vínglasinu. Sú matarmenning passar einstaklega vel við góð vín.

Gem Wine er lítill vínbar á Manhattan. Inni á staðnum eru aðeins þrjú borð, barborð og lítið útisvæði sem hægt er að setjast niður. Það er enginn vínlisti í boði heldur er oft skipt um þau vín sem boðið er upp á. Flynn McGarry semer eigandi staðarins, rekur einnig veitingastað í sama nafni, og vill aðeins að Gem Wine verði heimilislegur hverfisstaður. Vínin eru á góðu verði og er nánast engin flaska á staðnum sem fer yfir 13 þúsund krónur. Það er hægt að panta sér smáa rétti með vínglasinu.

Gem Wine er staðsettur á 116 Forsyth Street.

Hlýleg stemning á hverfisbarnum Gem Wine.
Hlýleg stemning á hverfisbarnum Gem Wine. Ljósmynd/Instagram

Vínbarinn Parcelle gæti alveg eins verið andstæðan við Gem Wine. Staðurinn er mun stærri, vínseðillinn telur nokkuð margar síður og fer verð vínflaskanna upp úr öllu valdi. Þeir eru hins vegar líka með vín á góðu verði fyrir þau sem þykir vænna um peningana sína. Það er hægt að fá litla rétti með vínglasinu, parmesan og hráskinkur eða stærri rétti eins og sjávarréttapasta.

Parcelle er staðsettur 135 Division Street (Canal Street).

Þeir sem elska eðalvín ættu að heimsækja Parcelle.
Þeir sem elska eðalvín ættu að heimsækja Parcelle. Ljósmynd/Parcelle

Place des Fetes í Brooklyn er undir spænskum áhrifum og býður upp á vín frá Spáni, Portúgal og Chile. Maturinn er hins vegar í New York-stíl, fyrir utan nokkrar gerðir af spænskum ansjósum, og er hægt að fá mat til hliðar sem er á góðu verði.

Place des Fetes er staðsettur á 212 Greene Avenue (Grand Avenue).

Vínþjónar að störfum á Place des Fetes.
Vínþjónar að störfum á Place des Fetes. Ljósmynd/Instagram
Frábærir smáréttir með vínum.
Frábærir smáréttir með vínum. Ljósmynd/Place des Fetes

Ten Bells þykir einn besti náttúruvínsbarinn í New York. Andrúmsloftið er ljúft og afslappað og fullkomið þykir að para ostrur eða tapasrétti við vínglasið. Vínseðillinn er ekki sá lengsti en það má búast við að geta kynnst nýjum og áhugaverðum vínum.

Ten Bells er staðsettur á 247 Broome Street.

Ten Bells er einn besti staðurinn í New York sem …
Ten Bells er einn besti staðurinn í New York sem býður upp á náttúruvín. Ljósmynd/Ten Bells
Ostar, hráskinkur og vín fara einstaklega vel saman.
Ostar, hráskinkur og vín fara einstaklega vel saman. Ljósmynd/Ten Bells

June er staðsettur í Brooklyn og er bæði vínbar og veitingastaður. Það er hægt að fá fulla máltíð en algengara er að stoppa í vínglas og smárétti. Um sjö að kvöldi er staðurinn yfirleitt þéttsetinn. Á vínseðlinum má finna mikið af náttúruvínum frá Evrópu en einnig bjóða þeir upp á amerísk vín frá Kaliforníu og Texas meðal annars.

June er staðsettur á 231 Court Street.

Tapasréttirnir á June þykja æðislegir.
Tapasréttirnir á June þykja æðislegir. Ljósmynd/June

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert