Fyrirtæki eru í stórauknum mæli að greiða leiðina fyrir starfsfólk til að vinna í fjarvinnu, en aukið aðgengi að wi-fi og netlausnum hefur gert það að verkum að auðveldara er að gerast svokallaður „stafrænn hirðingi“, þ.e. að ferðast og vinna á sama tíma.
Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Árið 1997 var því spáð að vinnuafl framtíðarinnar yrði hreyfanlegra og sífellt fleiri myndu sinna störfum í fjarvinnu. Hreyfanlegt vinnuafl hefur verið í örum vexti síðan 2010 og sprakk út í kórónuveirufaraldrinum þegar enn fleirum var gert kleift að vinna í í fjarvinnu. Eftir að fólk hafði prófað þennan starfsmáta áttu margir erfitt með að hverfa aftur til þess hefðbundna, inn á skrifstofuna.
Stafrænir hirðingjar bíða þess ekki að fara á eftirlaun til að geta skoðað heiminn heldur gera það á sama tíma og þeir sinna vinnunni. Þá hafa ýmis lönd tekið upp á að auðvelda aðkomufólki veru í landinu með því að gefa út nýja tegund af visa fyrir starfsfólk og fyrirtæki.
Í augum margra er þetta hinn fullkomni lífsstíll að vera frjáls ferða sinna og kanna heiminn á sama tíma og launaðri vinnu er sinnt. Hins vegar eru aðrir sem eru á móti þessu og segja að slíkt leiði til gengishækkana og ofurferðamennsku, sem sé einungis til þess fallið að keyra upp verð og gera ákveðin svæði óbúanleg fyrir innfædda.
Hreyfanlegt vinnuafl hefur aukist um 131% sem gerir það að verkum að lönd eins og Spánn og Grikkland hafa mótmælt gríðarlegri aukningu ferðamanna.
Innfæddir í Dóminkanska lýðveldinu, á Balí og í Suður-Afríku eru ósáttir yfir hækkandi verðlagi og húsnæðisverði sem gerir þeim nánast ókleift að lifa í sínu eigin landi.
Er þá einhver leið til að vera stafrænn hirðingi án þess að ýta undir ójöfnuð og ofurferðamennsku? Juan Barbed einn stofnenda ROORAL segir mikilvægt fyrir fólk í fjarvinnu sem kýs að setjast að í öðru landi að vera í góðum tengslum við þorp og bæi um hvort vera þeirra á staðnum sé af hinu góða. Ef svarið er nei, þá er bara að fara eitthvert annað.